Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[17:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég fagna þessari tillögu mjög og styð hana heils hugar og ég vil lýsa ánægju minni með þá miklu einingu sem ríkir innan utanríkismálanefndar gagnvart þessu máli og vona að það fái skjótan framgang hér í þinginu. Þar var sérlega ánægjuleg og söguleg stund að vera með utanríkismálanefnd í Finnlandi á þeim miklu tímamótum, sögulegu tímamótum, þegar Finnar voru að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Frú forseti. Mig langar aðeins að horfa hér nær okkur. Það er nú þannig að tímarnir geta reynst okkur Íslendingum hættulegir sem öðrum þjóðum. Við höfum lifað í friði þrátt fyrir styrjaldir og blóðfórnir flestra ríkja. Nútíminn getur hins vegar verið blindur á það sem honum er næst og í því felst hætta. Þetta sáum við vel í veirufaraldrinum sem barst hingað til lands hratt og örugglega frá meginlandinu án þess að við gætum rönd við reist og við þekkjum öll afleiðingarnar, heilsufarslegar og efnahagslegar. Það er óvissa á fleiri sviðum. Varnarmálin eru orðin ófyrirsjáanlegri en nokkru sinni frá lokum kalda stríðsins. Áskoranir í varnarmálum eru meiri en fyrr. Við verðum að leggja okkur fram um að mæta þeirri óvissu. Við verðum að tryggja að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, eins og segir í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem var mikilvægt skref sem Alþingi tók fyrir sex árum í þá átt að marka heildstæða stefnu um þjóðaröryggismál. Grunnþættirnir þar eru aðildin að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin. Þetta er ein af grunnforsendum sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar. Ísland er herlaust smáríki og háð því að alþjóðasamfélagið sé friðsamlegt. Ég hef áður sagt það hér að Ísland á að beita sér í alþjóðlegum friðarmálum. Þar eigum við ónýtt tækifæri en við verðum jafnframt að vera raunsæ og skynsöm þegar kemur að okkur sjálfum. Sagan kennir okkur að allt er í heiminum hverfult. Heræfing Rússa við landamæri í Úkraínu endaði með blóðugu stríði þrátt fyrir að þeir sem best til þekkja hafi talið innrás ólíklega. Fleiri en 3.000 almennir borgarar hafa látið lífið í Úkraínu. Ég hef í tvígang heimsótt landið eftir að stríðið hófst og séð með eigin augum hinn grimma og miskunnarlausa stríðsrekstur Rússa sem við fordæmum öll. Heræfingar Rússa eru almennt mun fleiri en NATO-ríkjanna og Norður-Atlantshafið er þar engin undantekning. Þar eykst hernaðaruppbygging þrátt fyrir vilja norðurskautsríkja um að norðurslóðir verði ekki vettvangur nýs vígbúnaðarkapphlaups og aukinnar hernaðaruppbyggingar. (Forseti hringir.)

Forseti. Íslendingar geta ekki ætlast til að bandalagsríki standi við sínar skuldbindingar ef við tryggjum ekki lágmarksforsendur til þess.