152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[17:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Mig langar að nýta þetta tækifæri og þakka þingmönnum sem hér hafa tekið til máls, fyrir mjög góða umræðu, málefnalega og sterka. Mig langar líka að nota þetta tækifæri og þakka þinginu, þingmönnum fyrir sveigjanleikann, að koma málinu á dagskrá og fyrir vilyrði um framgang málsins hér. Það skiptir máli. Hv. þm. Logi Einarsson nefndi að það skiptir máli fyrir okkur að nýta okkar rödd innan NATO og taka virkan þátt og ég tek undir það. Hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson nefndi að Úkraína væri að verja sjálfstæði sitt og það gerði hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir sömuleiðis. Það er rétt. Og eins og hún nefndi þá er úkraínska þjóðin að berjast fyrir frelsi okkar allra. Af því tilefni langar mig að koma því sjónarmiði mínu hér skýrt á framfæri og skrásetja það að í þessu máli finnst mér mjög mikilvægt að við höldum því til haga að Úkraína þarf að vinna þetta stríð á forsendum Úkraínu. Ég veit ekki hvernig þær umræður þróast á næstu vikum eða dögum eða mánuðum um það hvernig málinu þurfi einhvern veginn að ljúka þegar möguleg þreyta kann að koma upp hjá vestrænum ríkjum. En í mínum huga er það alveg skýrt að Úkraína þarf að vinna á forsendum Úkraínu.

Það er enginn vafi um skuldbindingu ríkisstjórnarinnar, hvorki okkar aðild að Atlantshafsbandalaginu né stuðning Finnlands og Svíþjóðar þangað inn. Og ég vil nefna það að þrátt fyrir að Finnar og Svíar hafi staðið utan varnarbandalaga í allan þennan tíma þá hafa ríkin ekki verið hlutlaus síðastliðna áratugi, enda hafa þau verið í mjög nánu samstarfi við Atlantshafsbandalagið og tekið mjög virkan þátt og þar af leiðandi verið mjög skýr um í hvaða liði þau eru. Það er rétt sem hér hefur verið nefnt, að við erum herlaus og friðelskandi þjóð í skjóli vina og bandalagsþjóða. Það er þess vegna í þessu máli, þótt við segjum mörg hver að við fögnum ákvörðun Finna og Svía, sérstaklega kannski þegar hugað er að því að þetta eru okkar helstu vina- og bandalagsþjóðir, frændþjóðir, og við erum í mjög nánu og miklu samstarfi við þær þjóðir — og ég held að það muni líka hafa jákvæð áhrif á þær áherslur og gildi sem við höldum mjög til haga að fá viðbótarstuðning við það innan Atlantshafsbandalagsins. Ég tel að það muni vera til góðs einmitt í þágu öryggis og friðar. En þá er það líka þannig að þetta eru þær ákvarðanir sem þessar þjóðir hafa tekið með mjög svo þverpólitískum stuðningi þar í landi. Þess vegna er, þótt öllum sé frjálst að hafa allar þær skoðanir sem þeim sýnist, okkur ákveðinn vandi á höndum að hafa miklar skoðanir á því hvort ákvörðunin sé rétt eða röng. Þegar maður horfir til þess hversu rosalega viðhorfin hafa breyst innan þessara ríkja á örfáum dögum eftir 24. febrúar er kannski erfitt fyrir okkur að setja okkur í þau spor, verandi hér fjær og nú þegar í skjóli, þegar þau ríki finna það á eigin skinni. Þeim líður þannig og taka ákvörðun um það á grunni þess að vera sjálfstæðar og fullvalda þjóðir að þær vilji inn í öflugasta öryggis- og varnarbandalag í heimi. Þær hafa tekið ákvörðun um að sækjast eftir því og þess vegna er ég mjög glöð að finna þann mikla stuðning og þau hlýju orð sem þessar vinaþjóðir okkar fá hér í þessum sal og segi eins og aðrir hv. þingmenn hafa sagt: Ég býð þessar þjóðir hjartanlega velkomnar í öflugasta öryggis- og varnarbandalag heims.

Mig langar hér að lokum að óska hv. utanríkismálanefnd velgengni við meðferð málsins og aftur að þakka bæði fyrir sveigjanleika þingsins og að koma málinu á dagskrá og fyrir þær umræður sem hér hafa verið í dag.