Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[18:39]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langaði bara að vera með örstutta ræðu hér. Ég hélt ansi langa ræðu við 1. umr. þessa máls og það er gott að sjá að hv. velferðarnefnd hefur í nefndarálti sínu tekið tillit til sumra þeirra atriða sem við vorum að benda á. En það eru enn þá tvö atriði sem mig langar að nefna, og vonandi er það eitthvað sem hv. velferðarnefnd eða alla vega þeir sem í henni sitja munu hugsa aðeins um. Hið fyrra er í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í stjórn skulu sitja einstaklingar sem hafa þekkingu á rekstri og áætlanagerð, á heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum á heilbrigðissviði og menntun heilbrigðisstétta og á opinberri stjórnsýslu og reglum stjórnsýsluréttar.“

Nú veit ég ekki alveg hvernig svona lagatexti virkar en ég sé ekki fyrir mér að mikið sé til af einstaklingum sem uppfylla alla vega allar þessar kröfur, en kannski les ég bara vitlaust út úr lagatextanum. En það kom líka ábending til okkur sem hæstv. ráðherra virtist reyndar ekki vera mótfallinn. Það er að við erum á tímum mikilla breytinga og mikillar stafrænnar umbyltingar og það er spurning um hvort það gæti verið sterkur leikur að hafa einhverja aðila í stjórninni sem hefðu jafnvel reynslu af stafrænni umbyltingu nú á þessum tímum, við gætum líka kannski bætt því inn áður en næsta stjórn kemur af því að þessi situr í tvö ár.

Hitt sem við bentum á og ræddum mjög mikið virðist hafa ratað inn í breytingartillögu frá fjórum hv. þingmönnum. Ég gef mér að þessir fjórir hv. þingmenn sitji sennilega sem minni hluti í velferðarnefnd. Það er breytingartillaga um að áheyrnarfulltrúarnir tveir séu úr hópi starfsmanna.

En það var annað sem við töluðum mikið um við ráðherra í 1. umr., þ.e. að bæta líka inn einum fulltrúa úr notendaráði sem áheyrnarfulltrúa. Þess vegna langar mig að hvetja þá sem eru í ríkisstjórnarflokkunum að hugsa þetta dálítið vel, hvort þetta sé ekki bara ágætisbreytingartillaga þó svo að fjórir þingmenn úr stjórnarandstöðunni komi fyrir á henni. Það er mikilvægt að notendur hafi líka aðkomu þar. Það hefur hafi sýnt sig í fjölda stjórna í fjölda stofnana víða um heim að það mjög mikilvægt framfaraskref.

Eins langar mig að þakka hv. velferðarnefnd fyrir vel unnin störf.