Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

599. mál
[20:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka þeim sem eru með dagskrárvaldið fyrir að tryggja það að þetta mál sé rætt hér í dag. Mig langar líka að þakka allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða vinnu við þetta frumvarp. Það eru ýmsir smánarblettir á fortíð okkar og það er svo sem ekki bara hér á landi, við höfum séð mjög alvarlega hluti, t.d. í Kanada, hvernig farið var með innfædda þar. Við heyrðum síðast í gær í fréttum um alvarlega misnotkun á grænlenskum stúlkum um árabil. Við eigum okkar eigin sögur héðan, um vöggustofur og ýmis betrunarhæli, eins og þau voru stundum kölluð, jafnvel kölluð vinnuhæli. Hér erum við að fjalla um eitt þeirra sem ég tel mjög mikilvægt að við skoðum og rannsökum hvað fór þar fram. Það þarf uppgjör, hvernig sem því er háttað, gagnvart fólki, bæði að opinberlega sé beðist afsökunar á því sem þarna fór fram og kannski greiddar einhverjar bætur líka. En mig langar að vekja athygli á einu máli sem ég veit að hæstv. forsætisráðherra og sá ræðumaður sem kom hér á undan, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, voru síðast meðflutningsmenn á ásamt fulltrúum úr Samfylkingu og Pírötum, en það er um vinnuhælið á Kleppjárnsreykjum sem rekið var á stríðsárunum fyrir ungar stúlkur sem lent höfðu í ástandinu, eins og það var kallað. Ég þekkti ekki þá sögu fyrr en á fyrirlestri á Kynjaþingi nú um helgina þar sem m.a. var fjallað um hvernig ungar stúlkur voru sendar þangað. Á 145. löggjafarþingi var flutt þingsályktunartillaga um málið og það er von mín að við getum fundið hóp úr öllum flokkum til þess að hefja rannsókn á þeim smánarbletti sem þetta mál er og að við séum dugleg hér inni og opin fyrir því að gera rannsóknir á fortíðinni og óhrædd við að viðurkenna slæma hluti sem gerðust á mörgum af þessum stöðum. Ég þakka þér, frú forseti, fyrir að hafa tryggt að þetta mál sé rætt hérna í dag.