Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

frumvarp um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar.

[10:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ríkisútvarpið sagði fréttir af því í gærkvöldi að atvinnuveganefnd þingsins hefði borist erindi frá fjármálaráðuneytinu þar sem gerðar eru talsverðar athugasemdir við stjórnarfrumvarp, frumvarp frá ríkisstjórn um endurgreiðslu vegna kvikmyndaframleiðslu. Í erindi ráðuneytisins er bent á að þetta mál sé vanfjármagnað, sé raunar ófjármagnað, hvorki fjármagnað á yfirstandandi ári né á fjögurra ára fjármálaáætlun. Ráðuneytið gerir athugasemdir við að hafa aðeins fengið þrjá daga til að fara yfir frumvarpið og eins að starfshópur sem átti að vinna þetta frumvarp hafi ekki fengið að vinna það heldur hafi það bara verið klárað í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Því er jafnframt haldið fram að þetta mál hafi verið afgreitt úr ríkisstjórn. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki hafi verið gerðar athugasemdir við það á sínum tíma í ríkisstjórninni og hvort þetta kunni að vera raunin í öðrum tilvikum líka til viðbótar við þau tilvik sem þingmenn Miðflokksins hafa bent á, eins og varðandi hælisleitendafrumvarpið svokallaða, sem er náttúrlega algerlega ófjármagnað ef litið er til heildaráhrifanna. En það er nokkuð óvenjulegt að svona komi upp svona seint, að ráðuneytið telji sig þurfa að grípa inn í vegna stjórnarfrumvarps, því að það var ekki annað að skilja en að hér væri um stjórnarfrumvarp að ræða.