Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

aðild að Evrópusambandinu.

[10:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og vissulega mun það breyta samstarfi þjóða þegar Finnar og Svíar ganga í Atlantshafsbandalagið, vonandi sem allra fyrst. Við finnum fyrir því að umræðan um Evrópusambandið hefur mögulega að einhverju leyti breyst. Án þess að ég ætli að fara að mælast sérstaklega til þess eða ráðleggja þeim sem tala fyrir aðild að Evrópusambandinu þá held ég að það væri gagnlegra að halda sig við aðra þætti en að það skipti miklu máli í öryggis- og varnarsamstarfi, í því samhengi, að vera aðilar að Evrópusambandinu. Ég segi bara: Megi Evrópusambandinu ganga sem best í endurskoðun sinni í varnar- og öryggismálum. Staðreyndin er sú að Evrópusambandsríkin eru til að mynda með innan við 20% af fjármögnun ríkja Atlantshafsbandalagsins þegar kemur að varnartengdum verkefnum en ríki utan Evrópusambandsins eru með 80%. Við fylgjumst nú með áformum og áætlunum Evrópusambandsins um að styrkja sig á því sviði. Það er þó ekki í fyrsta sinn sem það er reynt. Kannski mun það taka einhverjum breytingum nú.

Við erum stofnaðilar að langöflugasta öryggis- og varnarsamstarfi í heimi og þar gengur okkur vel. Við erum síðan með varnarsamning við öflugasta ríki heims á því sviði, sem eru Bandaríkin. Út frá öryggis- og varnarhagsmunum, af því hv. þingmaður spyr um endurskoðun á því, erum við því í góðum höndum og erum í raun kannski frekar að leita leiða til þess að taka frekari þátt. Hagsmunum okkar er vel borgið innan þess samstarfs sem við erum nú í og út frá Evrópusamstarfi (Forseti hringir.) erum við með EES-samninginn þar sem hagsmunum okkar er betur borgið en með (Forseti hringir.) aðild að Evrópusambandinu og öllu sem því fylgir.