Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

kjörræðismaður Íslands í Hvíta-Rússlandi.

[10:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í Belarús er Lúkasjenkó forseti og hefur verið í meira en 26 ár og situr við völd þrátt fyrir kosningasvindl. Kosningasvindlið varð til þess að fólk mótmælti víða. Viðbrögð stjórnvalda voru að handtaka fólk í massavís en vísbendingar eru um að allt að 35.000 manns hafa verið handteknir og hafi þurft að þola ofbeldi af hendi lögreglunnar í kjölfarið. Lúkasjenkó hefur ofsótt fjölmiðlafólk og er oft kallaður síðasti einræðisherra Evrópu. Lúkasjenkó er bandamaður Pútíns Rússlandsforseta sem segir allt sem segja þarf miðað við núverandi aðstæður. Mörg ríki hafa sett viðskiptaþvinganir á Belarús eða áhrifamikið fólk innan landsins vegna aðgerða stjórnvalda. Árið 2005 var Alexander Mosjenskí skipaður kjörræðismaður Íslands í Belarús. Árið 2010 var hann sagði einn af þremur helstu styrktaraðilum framboðs Lúkasjenkós og árin 2011 og 2012 íhugaði Evrópusambandið að setja hann á lista aðila sem sæta efnahagsþvingunum en slapp í það skiptið, mögulega vegna afskipta Ungverjalands, en einn af helstu samstarfsfélögum Mosjenskís er kjörræðismaður Ungverjalands. Nýlega var aftur reynt setja Mosjenskí á bannlista en í þetta skiptið heyrast raddir um að Ísland hafi skipt sér af því með ítrekuðum fyrirspurnum um af hverju, en engri sjálfstæðri athugun um hvort rök væru fyrir slíkum aðgerðum. Þegar þingmenn reyna síðan að spyrja er bara vísað í að Mosjenskí hafi að lokum ekki endað á neinum bannlista eins og það sé eitthvert svar við spurningum um afskipti t.d. Íslands sem gætu leitt til þess að Mosjenskí slyppi við að vera á téðum lista.

Nýlega fékk ég svar frá hæstv. ráðherra þar sem ég spurði hvenær og hversu mikil samskipti voru vegna áforma um að setja Mosjenskí á bannlista og í staðinn fyrir að svara skýrt og skilmerkilega, af því að þetta er ekki spurning sem snertir trúnað, þetta er bara spurning um fjölda og hvenær, voru svörin bara þau að vísað var í trúnaðargögn. Spurningarnar voru fleiri en svörin álíka ómerkileg. (Forseti hringir.) Því vil ég spyrja ráðherra: Er boðlegt að svara þinginu svona í jafn alvarlegu máli og um ræðir?