Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

590. mál
[17:57]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að nýta tækifærið í umræðunni núna um notendastýrða persónulega aðstoð, NPA, til að fara aðeins yfir hvernig landið liggur á næstu árum fyrir þennan málaflokk. Nú sitjum við í hv. fjárlaganefnd og ræðum um það fjármagn sem mun renna til velferðarmála líkt og NPA og fleiri málefna út kjörtímabilið m.a. og hvaða pólitíska umboð ríkisstjórnin hefur til þess að gera eitthvað í þessum málaflokki. Við ræddum við Öryrkjabandalagið fyrir skömmu og það má sjá til að mynda í umsögn þeirra að þrátt fyrir að farin hafi verið sú leið fyrir síðustu jól að koma inn aukafjárhæð upp á 320 millj. kr. til NPA-þjónustu, til þess eins að það væri hægt að fjármagna núverandi samninga, og að þær 320 milljónir virðast vera komnar inn í útgjaldarammann núna út þetta kjörtímabil, þá liggur alveg ljóst fyrir að sú fjárhæð nær einungis til samninga sem núna eru í gildi. Það eru of fáir samningar. Það er alveg vitað mál að það eru einstaklingar sem bíða eftir þessari þjónustu og það er algerlega óraunsætt að stilla þessu dæmi svona upp. Þetta er þekkt breyta. Það er sem sagt ekkert fjármagn í fjármálaáætlun fyrir fjölgun samninga þrátt fyrir að fjármagnið hafi hingað til verið ófullnægjandi

Mig langar til að setja þetta aðeins í samhengi almennt við þennan málaflokk en skýrsla sem birtist núna í vor sýnir fram á ótrúlegan halla sem er á málaflokki fatlaðs fólks. Þetta eru um 9 milljarðar kr. á árinu og það hefur skilað sér í halla á málaflokknum á sveitarfélagastiginu. Það eru hátt í 17 milljarðar kr. sem sveitarfélögin eru að greiða með þessum málaflokki út af lögum sem voru sett. Þetta er lögbundin þjónusta og nýlega féll dómur um NPA sem segir til um það að sveitarfélögum beri að veita þessa þjónustu. Þeim ber að veita fötluðum einstaklingum þjónustu óháð því hvort fjármagn sé að koma frá ríkinu. Þetta er vegna þess að við búum við þann ótrúlega veruleika hér á landi og hér inni að Alþingi er óheimilt að setja lög, sem snerta ríkissjóð, sem eru ekki fjármögnuð en þessi stofnun getur gert það gagnvart sveitarfélögunum. 17 milljarðar kr. Og það er ekkert í fjármálaáætlun sem tekur tillit til þess að augljóslega þarf hér fjármagn að koma til. Það er verið að setja á laggirnar nefnd sem á að skoða þessi mál en það er ekkert sem liggur fyrir varðandi fjárveitingu og þetta eru mjög háar upphæðir. Það kemur líka í ljós ef við skoðum yfirlit yfir rekstrarstöðu sveitarfélaganna. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur bent á það að þessar upphæðir, þessir 17 milljarðar kr. núna, sem hafa byggst upp í skuld í rauninni við ríkissjóð vegna þessa málaflokks passa að nær öllu leyti við þann halla sem er á sveitarstjórnarstiginu. Málaflokkur fatlaðs fólks og vanfjármögnun hans af hendi ríkissjóðs hefur því rýrt getu sveitarfélaganna til að standa m.a. undir fjárfestingum sem er mjög alvarlegt mál vegna þess að samkvæmt nýjustu fjármálaáætlun þá stefnir í að það verði sögulega lágt fjárfestingarstig hjá sveitarfélögunum út kjörtímabilið. Þarna er ríkissjóður að setja sveitarfélögin í gífurlega erfiða stöðu og þetta er ekkert annað en alvarlegur niðurskurður sem mun bitna á okkur síðar meir.

Þetta er þekkt fyrirbæri hjá ríkissjóði og þessari ríkisstjórn. Þetta er niðurskurður bakdyramegin í velferðarþjónustu. Borði ráðherra og ríkisstjórnar er haldið hreinu á meðan hér er verið að lögfesta ákveðna velferðarþjónustu, þjónustu við fatlað fólk, án þess að fjármagn fylgi. Svo snýr ríkisstjórnin sér ítrekað við og bendir á sveitarfélögin og vill meina að þau séu bara ekki nógu vel rekin.

Virðulegi forseti. Hv. formaður velferðarnefndar minntist hér áðan á að það væri vilji fyrir því að fjölga NPA-samningum hjá fólki í þessari ríkisstjórn, hjá einstaklingum, hv. þingmönnum í ríkisstjórn, en það er ekkert fjármagn á bak við þann vilja og án fjármagns er ekkert að marka áætlanir og viljayfirlýsingar stjórnmálamanna sem hér stjórna. Fyrir utan það að það er einfaldlega röng forgangsröðun hér í gangi, virðulegi forseti. Ég nefni þetta líka vegna þess að það er ítrekað minnst á það, m.a. í málflutningi hv. formanns velferðarnefndar, að það þurfi jú að forgangsraða. Þessi málaflokkur þurfi bara að horfast í augu við það að það þurfi að forgangsraða.

Við skulum aðeins fara yfir forgangsröðun hæstv. ríkisstjórnar. Fyrr í vikunni birtust tölur um úrræði á vegum stjórnvalda þar sem kom í ljós að 15 milljarðar kr. hafa verið veittir í skattaívilnanir vegna úrræðisins Allir vinna. 15 milljarðar, næstum jafn há upphæð og er búin að safnast upp í halla vegna málaflokks fatlaðs fólks hjá sveitarfélögunum. Þetta úrræði, Allir vinna, var framlengt núna fyrir jól eftir þrýsting frá hagsmunaaðilum, aðallega hagsmunasamtökum byggingarfyrirtækja, og formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar þrýsti mjög á þessa breytingu sem ríkisstjórnin samþykkti þrátt fyrir mjög afgerandi upplýsingar sem bárust frá sérfræðingum fjármálaráðuneytisins um að framlenging á þessi úrræði væri óskynsamleg, hún væri kostnaðarsöm, þensluhvetjandi og engin þörf væri á frekari örvun byggingariðnaðarins. Nú vitum við, eftir að svar birtist við fyrirspurn minni fyrr í vikunni, að þriðjungur af þeim 15 milljörðum kr. sem hafa verið veittir í skattafslætti vegna Allir vinna hefur ratað beint til byggingarfyrirtækjanna sem börðust fyrir þessu úrræði. Þá er ég ekki að tala um aukin umsvif í greininni sem óbeint leita til þeirra, eins og oft er rætt um, ekki óbein umsvif af því að einstaklingar gátu sjálfir sótt um endurgreiðslu skatta og þess vegna fjölgaði framkvæmdum. Nei, þetta eru greiðslur sem byggingarfyrirtækin sjálf sóttu um í viðskiptum sínum við önnur fyrirtæki. Höfum í huga, virðulegi forseti, að ein aðalrökin sem stjórnarliðar hafa haft í frammi varðandi úrræðið Allir vinna voru þau að þá drægi úr svartri atvinnustarfsemi. Ég veit ekki til þess, virðulegi forseti, að það sé algengt í greiðslum fyrirtækja sín á milli að mikið sé um umslagsgreiðslur.

Þetta er náttúrlega ótrúleg forgangsröðun á skattfé, sér í lagi þegar það liggur fyrir að byggingargeirinn var einn fárra geira sem kom betur út úr heimsfaraldri en rekstrarafgangurinn sagði til um áður en Covid skall á. Rekstrarafgangurinn í greininni var í fyrra og í hittiðfyrra sá mesti á öldinni. Því til viðbótar liggur fyrir að meðal þeirra einstaklinga sem sóttu beint um þetta úrræði hefur helmingur skattafsláttarins runnið til tekjuhæsta 10% og 85% runnið til þeirra 30% tekjuhæstu. Þetta eru nákvæmlega sömu tölur og við sáum í skattafslætti stjórnvalda til íbúðarkaupa, með séreignarsparnaði sem má ráðstafa skattfrjálst inn á fasteignalán. Svo það er alveg ljóst hvernig forgangsröðunin hérna er. 17 milljarða kr. gat á síðustu þremur árum í málaflokki fatlaðs fólks og ígildi þeirrar upphæðar rann í skattaívilnun til byggingarfyrirtækja og fólks í efstu tíund samfélagsins. Við þetta bætast síðan hátt í 50 milljarðar kr. sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur fjarlægt úr tekjustofnum ríkissjóðs með víðfeðmum skattalækkunum þar sem ekkert nýtt kom á móti til að laga hallann sem hefur í kjölfarið myndast. Fjármálaráð, óháður aðili sem skrifar umsagnir um fjárveitingar og fjármál ríkissjóðs, bendir réttilega á að það er kerfislægur halli núna til staðar, algerlega óháður Covid-hallanum, á fjárhag ríkissjóðs og þar hefur langmest áhrif tekjuhliðin sem er algerlega brostin vegna þessara skattalækkana. Raunar er það svo að tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu verða þær lægstu á öldinni undir lok tímabils fjármálaáætlunar ef ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fær sínu fram.

Virðulegi forseti. Þetta snýst um forgangsröðun fjármagns eins og hæstv. ríkisstjórn segir svo oft og formaður hv. velferðarnefndar minntist líka á. En þessi forgangsröðun er einmitt skýr. Þeir milljarðar sem vantar inn í grunnþjónustuna — þeim hefur verið ráðstafað annað. Fjármagn flæðir úr tekjustofnum ríkissjóðs á meðan grunnþjónustunni blæðir, á meðan fólk í þeim hópi, viðkvæmasta hópi samfélagsins, er að bíða eftir þjónustu þá ráðstöfum við skattafsláttum til efsta lags samfélagsins. Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni.

Við þetta bætist að sveitarfélögin geta ekki neitað fötluðu fólki um þjónustu eftir að dómur féll í héraðsdómi um daginn þannig að þau sitja algjörlega eftir með svartapétur, eðlilega, enda vilja þau veita þessa þjónustu.

Við jafnaðarmenn, virðulegi forseti, höfum áhyggjur af þessari þróun. Það er búið að setja lög um þessa þjónustu en okkur ber líka sem samfélag að halda utan um fólk sem þarf á aðstoð að halda. Þannig að ég skora á hæstv. ríkisstjórn að endurskoða þá forgangsröðun sem birtist í fjármálaáætlun þeirra út kjörtímabilið og mun hafa veruleg áhrif á þann málaflokk sem við hér ræðum. Fáum það á hreint að það er val að reka málaflokk fatlaðs fólks með þessum hætti, það er val að samþykkja hér trekk í trekk skattafsláttarúrræði sem nýtast fyrst og fremst efstu tekjuhópunum. Það er val að ráðast í almennar skattalækkanir sem grafa undan tekjustoðum ríkissjóðs án þess að ráðast í aðra skattheimtu á móti. Hvergi er snert á fjármagnstekjum. Rætt var um í stjórnarsáttmála að það ætti að laga þær glufur sem eru í núverandi skattkerfi sem gera einstaklingum kleift að flytja til tekjur sínar þannig að þeir greiða skatta af launatekjum eins og um fjármagnstekjur sé að ræða. Hér erum við ekki að tala um að breyta lögum um skattheimtu. Við erum einfaldlega að tala um að fólk greiði skatta samkvæmt löggjöfinni eins og hún er í dag. Þessi glufa gerir það að verkum að hið opinbera er að missa allt að 3–8 milljarða kr. á ári. Mest af því myndi renna til sveitarfélaganna sem þurfa á þessu fjármagni að halda í formi útsvars. En það er ekkert um þetta í fjármálaáætlun. Ekkert. Þetta eru ávextir í augnhæð og það er engan veginn skiljanlegt af hverju ekki er ráðist í að breyta þessari stöðu. Það er hvergi rætt um sanngjarna gjaldtöku af auðlindarentu hér á landi. Alþýðusambandið hefur metið það svo að aðeins um 10% af rentunni umfram hagnað séu innheimt af stjórnvöldum.

Þannig að það er alveg skýrt, virðulegi forseti, að sú staða sem upp er komin í málaflokki fatlaðs fólks, sú staða sem upp er komin í málaflokki þeirra einstaklinga sem þurfa á NPA-aðstoð að halda, er afleiðing af skýrri forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar og það er gríðarlega mikilvægt að úrræði sem þessi séu rædd í því samhengi. Við höfum val. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að endurskoða sína forgangsröðun.