Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

almannavarnir.

181. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar í fjarveru hv. þm. Birgis Þórarinssonar sem er framsögumaður. Hér er verið að ræða lög um almannavarnir og það er reyndar orðið svolítið síðan hv. allsherjar- og menntamálanefnd afgreiddi þetta mál frá sér en það var 8. apríl sl., en málið hafði alls verið tekið fyrir á níu fundum nefndarinnar. Borist hafði fjöldi umsagna og nefndin tók við töluverðu af gestum til að fara yfir þær umsagnir.

Með frumvarpinu er lagt til að skerpt verði á hugtökum á sviði almannavarna til að skilgreina nánar hvenær valdheimildir eru virkjaðar, að bráðabirgðaákvæði um borgaralega skyldu starfsmanna opinberra aðila verði varanleg heimild, það var lagt til í upphaflegu frumvarpi, og að færa lögreglustjórum í héraði beina aðkomu að gerð viðbragðsáætlana og hættumats ásamt því að leggja niður rannsóknarnefnd almannavarna og í hennar stað komi þverskipt kerfi við rýni að afléttu almannavarnastigi.

Almennt var samhljómur meðal umsagnaraðila um að frumvarpið væri til bóta og með því væru gerðar breytingar sem endurspegla hvernig almannavarnir starfa í reynd. Jafnframt lögðu umsagnaraðilar áherslu á að lög um almannavarnir sættu heildarendurskoðun eins og ráðuneytið hefur boðað og yrði það gert í víðtæku samráði. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að við fyrirhugaða heildarendurskoðun laganna verði hafðar til hliðsjónar þær ábendingar sem bárust við meðferð þessa máls en ekki var tilefni til að bregðast við nú. Má þar til að mynda nefna þau sjónarmið hvort rétt sé að hafa skilgreiningu á almannavarnastigi í lögum frekar en í reglugerð.

Í frumvarpinu var tekið á valdsviði sveitarstjórna og almannavarnanefnda í 7. og 10. gr. Nefndin áréttar að með frumvarpinu er ekki verið að breyta neinu í lögum um almannavarnir er snertir sveitarstjórnirnar beint. Ætlunin sé fyrst og fremst að skerpa á ábyrgð lögreglustjóra sem á sæti í almannavarnanefnd með fulltrúum sveitarfélaganna, það er skv. 9. gr. laganna, og fela honum að bera ábyrgð á þessu verkefni með sveitarstjórnunum.

Í frumvarpinu er líka fjallað um aðstoð erlends hjálparliðs og norrænt samstarf um almannavarnir og við umfjöllun málsins kom fram fyrir nefndinni mikilvægi þess að með frumvarpinu sé verið að bæta þessu ákvæði við lögin, þ.e. móttöku erlends hjálparliðs vegna almannavarnaástands. Nefndin tekur undir þetta sjónarmið og mikilvægi þess að ef til þess kemur sé ferlið skilvirkt og hægt sé að bregðast hratt og örugglega við.

Í tilefni af samþykkt Norðurlandaráðs í mars 2020 um tilmæli, þar sem ríkisstjórnir Norðurlandanna eru hvattar til að fylgja eftir tillögum í svokallaðri Enestam-skýrslu, leggur nefndin til að sérstaklega verði horft til þeirrar skýrslu við heildarendurskoðun á almannavarnalögum. Nefndinni barst minnisblað frá ráðuneytinu þar sem farið var yfir hagsamstarf Norðurlanda um almannavarnir og annað alþjóðasamstarf sem er í gangi hvað almannavarnir varðar.

Nefndin leggur til nokkrar breytingartillögur sem ítarlega er farið yfir í nefndarálitinu og ég ætla að tæpa á þeim. Það er aðkoma lögreglustjóra þegar ríkislögreglustjóri lýsir yfir almannavarnastig, í 1. gr. frumvarpsins. Á grundvelli umsagnar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Norðurlandi eystra er lagt til að bætt verði við ákvæðið að þegar ríkislögreglustjóri lýsir yfir almannavarnastigi sé það gert í samráði við viðkomandi lögreglustjóra ef unnt er og er það til samræmis núgildandi framkvæmd.

Í minnisblaði frá dómsmálaráðuneytinu, sem nefndinni barst í kjölfar umsagnanna, er tekið undir þessa breytingu. Þá er gerð breyting varðandi forstjóra Veðurstofu Íslands í almannavarnaráði. Það er í samræmi við ábendingu í umsögn Veðurstofu Íslands. Þá er lagt til að vísað sé til forstjóra Veðurstofunnar í stað veðurstofustjóra.

Töluvert var fjallað um það sem fyrir lá í frumvarpinu um varanlega lögfestingu heimildarákvæðis um borgaralega skyldu opinberra aðila, það var 12. gr. Í frumvarpinu var lagt til að lögfesta þessa skyldu og þetta eru í raun ákvæði sem komu hér inn í svokölluðum Covid-aðgerðum eða Covid-pakka þegar fallist var á að það væri borgaraleg skylda opinberra starfsmanna að bregðast við og ganga í þau störf sem nauðsynlegt væri á hættustund. Fram komu töluvert margar umsagnir um þetta ákvæði og sjónarmið voru ólík. Annars vegar voru umsagnir á þann veg að það hefði nýst vel á meðan heimsfaraldur Covid-19 gekk yfir en hins vegar kom fram gagnrýni á það hvernig ákvæðinu hafði verið beitt í vissum tilvikum auk þess sem orðalag ákvæðisins væri allt of opið. Í minnisblaði dómsmálaráðuneytisins til nefndarinnar kemur fram að rétt þyki að falla frá þessari tillögu í frumvarpinu, þ.e. um varanlega lögfestingu umrædds heimildarákvæðis, og taka það til ítarlegri skoðunar við heildarendurskoðun laganna. Nefndin tekur undir þetta með ráðuneytinu og leggur þar af leiðandi til að 12. gr. frumvarpsins falli brott auk þess sem orðalag 11. gr. frumvarpsins verði uppfært til samræmis við þá breytingu. Nefndin áréttar mikilvægi þess að við mögulega lögfestingu ákvæðisins verði unnið í breiðu samráði við helstu aðila í ljósi þeirra umsagna sem liggja fyrir við þessa vinnslu.

Þá var fjallað um fjarskipti og aðgang almannavarna og viðbragðsaðila að öruggu fjarskiptaneti, í 8. og 19. gr. frumvarpsins, og í minnisblaði dómsmálaráðuneytisins er tekið undir ábendingar í umsögn ríkislögreglustjóra þar sem lagðar eru til breytingar á ákvæði um samhæfingar- og stjórnstöð í lögum um almannavarnir sem fjalla um fjarskipti og aðgang almannavarna og viðbragðsaðila að öruggum fjarskiptanetum.

Með breytingu á 12. gr. laganna er ætlunin að skýra orðalagið, svo ekki fari á milli mála að um er að ræða neyðar- og öryggisfjarskiptakerfi en ekki almenn fjarskiptakerfi og að viðbragðsaðilar hafi aðgang að því. Með breytingu á reglugerðarheimild í 34. gr. er lagt til að ráðherra hafi heimild til að útfæra nánar tilhögun neyðar- og öryggisfjarskiptakerfisins í reglugerð. Leggur nefndin til breytingu þess efnis.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér tæpt á en farið er ítarlega yfir í nefndarálitinu.

Undir nefndarálitið skrifa, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Birgir Þórarinsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Jódís Skúladóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Logi Einarsson. Áheyrnarfulltrúi okkar, Sigmar Guðmundsson, er samþykkur áliti þessu.

Mig langar að bæta aðeins við þessa umfjöllun um rannsóknarnefnd um almannavarnir sem samkvæmt því sem fyrir liggur hér, ef þetta verður samþykkt, verður lögð niður. Þetta frumvarp hafði verið lagt fram áður í sambærilegri mynd, þ.e. áður hafði verið gerð tillaga um að fella rannsóknarnefndina niður. Á þeim tímapunkti, þ.e. á síðasta þingi, komu inn athugasemdir við það og svolítil umræða spannst. Rannsóknarnefndin mætti ekki til okkar á fund núna en gaf til kynna að umsögn hennar um fyrra frumvarp lægi fyrir. Þetta var töluvert rætt og við nýttum tækifærið til að spyrja umsagnaraðila út í þetta mál. Flestir virðast vera á þeirri skoðun að því miður hafi það fyrirkomulag sem uppi var áður ekki gengið upp og því sé skynsamlegra að fella það niður, þ.e., eins og hér segir, að það sé einhvers konar þrepaskipt kerfi við rýni þegar afléttingu almannavarnastigs er aflétt. Ég vil nefna það hér — ekki er fjallað um þetta í nefndaráliti heldur er þetta kannski meira skoðun mín sem formanns og endurspeglar þá umræðu sem átti sér stað — að tækifæri sé til þess fyrir okkur hér í þinginu, og við höfum eftirlitshlutverk, að velta rannsóknarnefndum fyrir okkur. Eftir óveður í desember 2019, ég held að ég muni það rétt, var kallað eftir skýrslu og þá brást ríkisstjórnin þannig við að hópur var settur á laggirnar og farið var yfir það mál. Hingað kom skýrsla og var umræða var um hana í þinginu. Ég held að ágætlega fari á því að við veltum því upp að þegar um stærri mál er að ræða. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan og vísaði í í nefndarálitinu að nefndin er sammála um mikilvægi þess að ráðist sé í heildarendurskoðun almannavarnalaganna allra og tóku flestir umsagnaraðilar undir mikilvægi þess. Þá er kannski líka tækifæri til að velta frekar fyrir sér rannsóknarnefndum eða skoðunum á stærri viðburðum er varða almannavarnastig.

Mig langar líka að bæta við þetta nauðsyn þess að við séum í samstarfi við nágrannaþjóðir okkar varðandi almannavarnamál. Hingað til hafa almannavarnastig kannski verið meira staðbundin, tengd hættu á ákveðnum stað. Nú höfum við upplifað heimsfaraldur sem reið yfir allan heiminn og þar vorum við stöðugt í einhvers konar almannavarnaástandi. En það er svo margt sem getur komið upp og haft áhrif. Við sjáum það til að mynda á Norðurlöndunum og hefur verið lögð á það áhersla innan Norðurlandaráðs, í þeirri skýrslu sem ég nefndi hér, að skoða samstarf Norðurlandanna á sviði almannavarna. Ég sé mikil tækifæri í því og tel það í raun mjög mikilvægt fyrir litla, herlausa þjóð í Norður-Atlantshafi að eiga gott samstarf við Norðurlöndin. Það er líka oft þannig að aðbúnaður þeirra, innviðir — og ég er sérstaklega að vísa hér í herinn — getur skipt mjög miklu máli þegar verið er að vinna með almannavarnaástand. Við vitum að á síðustu áratugum hefur hugsunargangurinn varðandi herþjónustu ekki síst snúið að alls konar ástandi sem upp kann að koma í þessum ríkjum er varðar almannavarnaástand. Akkúrat núna glímum við að vísu við stríð í Evrópu, eitthvað sem fáir áttu von á að myndi brjótast út með þeim hætti sem raunin varð. Ég vil bara nefna það í þessu samhengi að þetta er öryggismál í víðum skilningi.