Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

almannavarnir.

181. mál
[19:13]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég ætla að hafa fáein orð um þetta frumvarp um breytingar á lögum um almannavarnir sem hér er til umræðu og vil þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls á undan mér og vil þakka sérstaklega hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, formanni nefndarinnar, fyrir hennar störf í nefndinni. Ég tek undir það sem hv. þm. Logi Einarsson sagði hér rétt áðan, að fyrir mann sem hefur hvergi starfað í þessu almannavarnakerfi heldur meira séð það utan frá og auðvitað margoft fjallað um það á vettvangi fjölmiðla frá ýmsum hliðum þá var það lærdómsríkt að taka þátt í þessu starfi, bæði til að fara í gegnum þetta í heild sinni og svo líka að reyna að læra af öðrum nefndarmönnum sem höfðu sumir hverjir talsverða reynslu af því að vinna inni í þessu kerfi.

Ég segi það sama og aðrir hér á undan mér. Það var mikið rætt í nefndinni að það þyrfti að skoða lögin í heild sinni, fara í gegnum einhvers konar heildaruppstokkun og skoðun á þeim. Þetta kom svolítið skýrt fram í umsögnum og í gestakomum hjá okkur í allsherjar- og menntamálanefnd. Það segir manni auðvitað að það er mikil þörf á því að gera það og ég hef þá trú að menn hljóti nú að einhenda sér í það verk. Við höfum örugglega öll svolitlar skoðanir á því hvernig kerfið eigi að vera og örugglega misjafnar skoðanir en við erum öll hjartanlega sammála um að það þarf að vera öflugt, sterkt, skilvirkt og lagaramminn í kringum það og regluverkið allt þarf að vera öruggt fyrir þá sem starfa í því og náttúrlega þjóna þeim tilgangi að bjarga og hjálpa fólki í neyð, en einnig að t.d. réttarstaða fólks sem vinnur í þessu kerfi sé tryggð. Núna, eins og fram hefur komið í þessum umræðum og fyrir nefndinni, er kannski með þessum breytingum að einhverju leyti verið að lögfesta verklag sem hefur verið viðhaft en ekki verið bundið í lög. Það er verið að skerpa á skilgreiningum ýmiss konar og færa til þess horfs sem samræmist verklaginu eins og það er í dag. Það er auðvitað bara mjög fínt, þessi lög sem eru í gildi eru frá 2018. Það er augljóst, og við þurfum auðvitað ekkert að hafa neitt sérstaklega mörg orð um það en samt gott að rifja það upp, að það hefur reynt mjög mikið á lögin á síðustu árum. Við búum í þannig landi að reglulega reynir á almannavarnakerfið okkar. Við getum nefnt fárviðrið í desember 2019. Þar fór raforkukerfið okkar, ja, ég segi ekki á hliðina, en flutningskerfið og dreifikerfið laskaðist verulega með tilheyrandi skaða fyrir fólk og byggðarlög og fyrirtæki, mikið öryggisleysi sem skapaðist þarna um tíma og alvarlegt ástand. Það voru heilu byggðarlögin án rafmagns og þurfti varðskip til að tryggja rafmagn fyrir íbúa á tímabili. Það varð eitt dauðsfall, dýr drápust og eignatjónið var alveg gríðarlegt. Þarna reyndi mikið á þetta kerfi okkar í mjög víðum skilningi og nánast um landið allt á sama tíma. Og svo maður rifji aðeins upp úr fréttum þá var farið í það að reyna að rýna það sem fór aflaga og reynt að bregðast við með úrbótum og það var fundið út úr því að ráðast þyrfti í ríflega 100 aðgerðir, sem fram komu í sérstakri eftirfylgniskýrslu um þetta allt. Þetta er allt saman gert til þess að reyna að læra af atburðum, sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt í þessu. Í þeirri eftirfylgniskýrslu kom fram að skoða þyrfti betur með úrbætur á varaafli, gera þyrfti raforku- og fjarskiptakerfi áreiðanlegri, skilgreina hlutverk og mönnun fyrirtækja og stofnana, efla almannavarnakerfið, samræma skipulag innviða, flýta jarðstrengjavæðingu, eins og ég nefndi með varaaflið, og svo þurfti meira að segja að laga sjóvarnargarða á Norður- og Austurlandi og ráðast í ýmsar aðgerðir til að bæta öryggi vegfarenda flugvalla og sjófarenda. Þetta kom allt saman upp úr einu fárviðri sem bjó til þetta almannavarnaástand sem aðeins er vísað til í greinargerðinni.

Þetta er nú eitt. Síðan erum við auðvitað með faraldurinn sem er annað samfellt, langt en allt öðruvísi almannavarnaástand þar sem reyndi mikið á kerfið líka en kannski með öðrum hætti og á aðra innviði þess. Þetta segir okkur rosalega mikið um það í hvers konar landi við búum þar sem skiptir gríðarlega miklu máli að allt þetta sé í lagi og að kerfið sé skilvirkt og boðleiðir skýrar og ábyrgðarkeðjan algerlega skýr. Síðan þegar við fáum líka ógn að utan, eins og við getum kallað faraldurinn, sem setur allt á hliðina í langan tíma, þá segir það okkur enn frekar að við þurfum að vanda vel til verka og læra mjög vel af því sem aflaga fer og líka því sem vel er gert.

Ég ætlaði að tæpa á nokkrum atriðum í þessu máli og ég ætlaði eiginlega að fá að gera orð hv. þm. Gísla Rafns Ólafssonar að mínum þar sem hann var að tala um atriði sem snýr að aðstoð að utan þegar stærri atburðir verða og við þurfum að leita út fyrir landsteinana eftir einhvers konar aðstoð. Það er hægt að ímynda sér ýmiss konar aðstæður sem gætu myndast sem kölluðu á það. Það er algerlega óverjandi að vera með einhvers konar kerfi sem er hamlandi þegar slíkar aðstæður koma upp. Þetta var rætt svolítið í nefndinni og mig langar aðeins að vitna í það sem kemur fram í umsögn ríkislögreglustjóra:

„Áríðandi er að setja í lög heimild til að kalla eftir erlendri aðstoð eftir hamfarir líkt og lagt er til í 19. gr. Ríkislögreglustjóri vinnur í breiðu samráði að greiningu á getu íslensks samfélags í þessu sambandi og þetta verkefni er unnið samkvæmt stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum.“

Eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson fór yfir áðan þá er þetta gríðarlega mikilvægt atriði og gott að tekið sé á því.

Síðan var líka rætt svolítið um það og komið inn á og rætt í nefndaráliti, sem ég tók undir sem áheyrnarfulltrúi í nefndinni, að mikilvægt væri að efla norrænt samstarf um almannavarnir. Það er ágætt að árétta það hér í þessari ræðu. Ég tek undir það sem sagt hefur verið um að slíkt samstarf styrki okkur auðvitað en svo höfum við líka ýmsu að miðla í slíku samstarfi og slíku verklagi öllu. Það er reyndar angi af stærri mynd sem ég vildi nefna því oft, þegar við erum að tala um alþjóðlegt samstarf og þess háttar, erum við rosalega mikið að velta því fyrir okkur hvað við getum lært. En höfum líka augun á því að við höfum afskaplega miklu að miðla, ímynda ég mér, í þessu eins og mörgu öðru.

Síðan er það sem aðeins var rætt hér áðan hjá hv. þm. Loga Einarssyni og komið var inn á í framsögu líka, þ.e. lögfesting heimildarákvæðis um borgaralega skyldu opinberra aðila. Það var með ákveðnum hætti í frumvarpinu eins og það var lagt fram og mig langar aðeins að vitna í orðin um það ákvæði, eins og það var:

„Í 19. gr. gildandi laga er ákvæði um borgaraleg skyldu þeirra sem eru á aldrinum 18–65 ára að gegna á hættustundu, án endurgjalds, starfi í þágu almannavarna í umdæmi þar sem þeir dveljast samkvæmt fyrirmælum er lögreglustjóri gefur, að fengnum tillögum almannavarnanefndar eða ríkislögreglustjóra. Lögð er til breyting á þessu ákvæði þannig að maður skal undanþeginn framangreindri skyldu sé heilsufari hans, eða annars einstaklings sem hann ber ábyrgð á, svo háttað að öryggi hans og heilsu sé stefnt í sérstaka hættu með því að fela honum að gegna slíkum störfum.“

Þetta var sem sagt inni með ákveðnum hætti í upphafi. En síðan var þetta rætt betur í nefndinni og farið yfir umsagnir og annað og þar kom skýrt fram að skoðanir voru svolítið skiptar um þetta tiltekna atriði. Þarna var inni tímabundið heimildarákvæði í lögunum sem var nýtt vel í faraldrinum og nýttist vel að mörgu leyti þá. En eins og hv. þm. Logi Einarsson rakti ágætlega áðan þá var auðvitað nefnt að svona ákvæði mætti ekki vera of opið. Það er kannski hætta á að því sé með einhverjum hætti misbeitt og opnar kannski líka á það að réttindi og skyldur fólks séu kannski ekki algerlega á hreinu af því að það er auðvitað þannig, eins og vísað var til hér áðan, að þegar er einhvers konar almannavarnaástand og ógn steðjar að, hvers eðlis sem hún nú er, að það er svolítið í mannlegu eðli að vilja leggja hönd á plóg og vilja hjálpa, allar hendur á dekk og menn eru fúsir til verka og allt það. Það er gott og blessað og maður tengir mjög vel við þá hugsun og hugsar örugglega þannig sjálfur. En auðvitað þarf alltaf að gæta að réttindum fólks og að ekki sé gengið of langt í að skerða þau. Þetta er mjög íþyngjandi úrræði í sjálfu sér sem þó er kannski nauðsynlegt að grípa til hér og þar. En það þarf að gera þetta vel. Þá kemur að því sem til að mynda BSRB sagði við vinnslu málsins í nefndinni, svo ég vitni bara orðrétt í umsögnina, með leyfi forseta:

„Samkvæmt greinargerð frumvarpsins eru rökin helst þau að fyrirsjáanlegt sé að farsóttir sambærilegar Covid-19 heimsfaraldrinum geti komið upp í framtíðinni og að úrræðið geti einnig komið að gagni þegar hættu- og neyðarástand skapast vegna annars konar almannavarnaástands.“

Svo segir áfram, með leyfi forseta:

„BSRB getur ekki fallist á að svo opin heimild, sem felur í sér því sem næst óskilyrðisbundna tilfærslu opinberra starfsmanna, verði lögfest eins og 12. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir. Bandalagið telur mun eðlilegra að komi upp slíkar aðstæður í framtíðinni þá verði það einfaldlega afgreitt með sambærilegum hætti og hefur verið gert, þ.e. með tímabundinni lögfestingu úrræðisins.“

Þarna var talað um að inngripið væri of mikið inn í ráðningarsamband opinberra starfsmanna og jafnframt sagt að það skyti skökku við að heimildin væri virk á hættustundu. Þar er vísað í skilgreiningar frumvarpsins og til þess að í nærri tvö ár samfleytt hafi Ísland uppfyllt skilyrði þess að vera á hættustundu samkvæmt frumvarpinu. Nefndin fór yfir þetta og féllst á þetta og síðan ráðuneytið líka. En þetta er eitt af þeim atriðum sem væntanlega verður skoðað betur þegar farið verður í þá heildarendurskoðun sem mönnum hefur orðið tíðrætt um hér. Bara svo ég árétti það sem ég sagði, það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að tengja við þá hugsun að í almannavarnaástandi eigi allar hendur að fara á dekk og það eigi að vera auðvelt að kalla fólk til starfa, mannslíf undir og það allt. En ákvæðið verður að vera þannig að það sé skynsamleg og skilvirk beiting á því án þess að að sjálfsagður réttur fólks sé fyrir borð borinn. Það er mjög mikilvægt að þetta atriði verði skoðað og reynt að gera það í góðri sátt við alla þá sem þar eru undir, stéttarfélög, hagsmunafélög og aðra.

En aðalatriðið í þessu öllu saman er, eins og ég rakti í upphafi, örugglega megintilgangurinn með þessu, að læra af reynslunni og uppfæra kerfið með hliðsjón af þeirri reynslu sem skapast í tímans rás. Þetta er auðvitað síkvikur heimur, bæði þau úrræði sem hægt væri að grípa til og síðan koma upp stórir atburðir og miklir sem gefa okkur færi til að læra af. Og einmitt í því samhengi hnaut ég um orð hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur um mikilvægi þess að vera vakandi fyrir því að geta gert einhvers konar úttektir eða skipað rannsóknarnefndir þegar miklir atburðir verða, þegar almannavarnaástand verður stórt og mikið eða jafnvel langvarandi, til þess að hægt sé að undirbyggja kerfið betur, læra af reynslunni og sníða af vankanta. Þetta er auðvitað alveg gríðarlega mikilvægt atriði, finnst mér. Það var líka gott að nefndin var samstiga í vinnunni og allir á einu máli um mikilvægi málsins og þar af leiðandi datt þetta ekki í, kannski eðli máls samkvæmt, eitthvert pólitískt karp eins og stundum er, enda er þetta mál kannski stærra og með öðrum hætti en að það fari í pólitískar línur. Það voru allmargir sem veittu umsagnir um málið sem hlustað var eftir og kallað til; BSRB, landlæknir, Félag grunnskólakennara, Kennarasamband Íslands, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Norðurlandi eystra, Rauði krossinn, Reykjavíkurborg, ríkislögreglustjóri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Veðurstofan. Þegar við skoðum umsagnaraðilana og úr hve fjölbreyttum hópum þeir koma þá segir það okkur auðvitað allt um það hversu víðtækt þetta kerfi okkar er og hversu mikilvægt það er.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en ég vil samt að lokum nota tækifærið hér og þakka öllu því fólki sem vinnur í þessu kerfi og ekki síst öllum sjálfboðaliðunum sem eru í raun og veru partur af því og eru kallaðir til þegar mikið liggur við. Við höfum séð það aftur og aftur að starfið sem unnið er í þessu kerfi er algerlega ómetanlegt og í raun og veru alveg frábært — sérstaklega þegar það ástand myndast, svo ég taki það nú út úr, að kalla þarf til mikið af sjálfboðaliðum — að við skulum eiga svona mikið af öflugu og góðu fólki sem er til í að leggja mikið á sig við að forða slysum og bjarga fólki í neyð. Ég styð þetta mál heils hugar og ritaði sem áheyrnarfulltrúi undir það álit sem hér var til umfjöllunar.