Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

almannavarnir.

181. mál
[19:29]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Mig langar bara að þakka þeim sem hafa tekið til máls og þakka fyrir þann samhug sem ríkti í nefndinni við vinnu við þetta mál. Ég tek undir þakkir hv. þingmanns til þeirra sem sinna þessum mikilvægu störfum fyrir okkur því að við byggjum að miklu leyti okkar almannavarnaviðbragð og -teymi á sjálfboðaliðum og auk þess auðvitað vel menntuðu fólki sem sinnir því í fullu starfi. Ég tek það með mér sem nesti sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar að við munum ýta á og kalla eftir þessari heildarendurskoðun. En ég vildi bara hnykkja á því, ef einhver kynni að hafa misskilið það hér, að ekki er verið að taka út 19. gr., um borgaralegar skyldur á hættustundu. Hún stendur óbreytt. En það sem verið er að vísa í er bráðabirgðaákvæði sem samþykkt var í Covid-ástandinu um borgaralega skyldu starfsmanna opinberra aðila til að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu. Það væri sem sagt hægt að fela starfsmönnum tímabundnar breyttar starfsskyldur og flytja starfsmenn tímabundið á milli starfsstöðva og opinberra aðila til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Starfsmenn myndu halda óbreyttum launakjörum. Þetta var ákvæði sem við settum í Covid-ástandinu, bráðabirgðaákvæði sem féll úr gildi 1. janúar 2022. Í frumvarpinu var tillaga um að gera þetta ákvæði varanlegt og bæta því við 19. gr., um borgaralegar skyldur. En það hefur sem sagt verið fallið frá því. Við hvetjum til þess að umræðu um nauðsyn þess og með hvaða hætti slíkt ákvæði ætti að vera inni sé vísað inn í þessa heildarendurskoðun.