Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[19:35]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég vildi aðeins fá að leggja fáein orð í belg um það mál sem hér er til umfjöllunar. Ég lýsi mig samþykkan því og styð að það fái brautargengi í þinginu. Svo að ég vitni aðeins í fylgiskjöl málsins þá segir í nefndarálitinu:

„Meginmarkmið frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/848 frá 30. maí 2018 um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara og um niðurfellingu á reglugerð ráðsins (EB) nr. 834/2007. Í því felst að stefnt er að því að einfalda regluverk sem gildir um lífræna framleiðslu, styrkja eftirlitskerfi með framleiðslunni, stuðla að aukinni dýravelferð og ábyrgri notkun orku og náttúruauðlinda og að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni. Ákvæði reglugerðarinnar haldast í hendur við ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/625 um opinbert eftirlit sem innleidd voru í lög um matvæli og lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Auk breytinga á þeim lögum er lagt til að lög um lífræna landbúnaðarframleiðslu verði felld úr gildi í heild sinni en þau veita ekki fullnægjandi lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðarinnar.“

Undir og allt um kring, þegar farið er í gegnum umsagnir um þetta mál og greinargerð skoðuð og annað, er auðvitað stóra samhengið sem er Evrópusamvinnan, samskipti okkar við Evrópu annars vegar í gegnum EES-samninginn og hins vegar það hvort við ættum hreinlega að fara inn í sambandið. Og þar sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er í salnum og er mikill aðdáandi Evrópusambandsins get ég eiginlega ekki látið hjá líða að segja nokkur orð um þetta vegna þess að við erum hér aftur og aftur í þinginu að fá til okkar mál sem hanga saman við þetta evrópska samstarf okkar, annars vegar í gegnum EES-samninginn og svo er undirliggjandi að verið er að vísa til okkar alls kyns málum sem við samþykkjum án þess að geta haft áhrif á það hvernig þau eru unnin. Það kæmi kannski mögulega með fullri aðild. Þarna er ég að tala um víðari myndina í þessu öllu og kannski ekki bara út frá þessu máli eða efnisatriðum þess.

Mig langar í því samhengi að nefna að við vorum fyrr í dag að ræða um Vestnorræna ráðið og aukið samstarf og þar var t.d. verið að tala svolítið um umhverfis- og loftslagsmálin og svo menntun. Ég hlustaði á margar ræður sem voru fluttar um það og mjög áhugavert að fylgjast með þessu. Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að vitna aðeins í greinargerðina í því máli þar sem verið er að fjalla um loftslagsmálin. Þar segir, með leyfi forseta:

„Loftslagsbreytingar eru ein af stærstu áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir. Vísindarannsóknir sýna að hlýnun á norðurslóðum er tvöfalt meiri en annars staðar á jörðinni …“

Síðan er haldið áfram að rekja þetta sem við þekkjum öll:

„Vestnorrænu ríkin finna öll fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga og mikilvægt er að löndin gegni áfram lykilhlutverki í þeirri viðleitni að styðja við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og umhverfisvernd á svæðinu. Aukið vestnorrænt samstarf um sameiginlega hagsmuni í loftslagsmálum getur aukið áhrif landanna þriggja á alþjóðlegum vettvangi.“

Það sem ég er kannski að gera með þessari tengingu, sem einhverjum kann að finnast langsótt, er að sýna að útgangspunkturinn í þessari umræðu um Vestnorræna ráðið og það sem þar er undir er samvinna; samvinna ríkja til að ná fram ákveðnum hagsmunum og einhvers konar framfaramálum. Undirliggjandi í því er sú staða að við náum betri árangri í stórum hagsmunamálum og stórum og mikilvægum málum með því að vinna saman, hvort sem það er í minni einingu eins og Vestnorræna ráðinu eða þá í stærri einingu þar sem öll ríki Evrópu, öll ríki álfunnar, eru undir. Það er eitthvað sem hangir yfir okkur í hvert einasta skipti sem við ræðum hér lög eða reglur sem við erum að innleiða og fáum að utan, oft án þess að hafa mikil áhrif á það hvernig þau eru gerð. Kjarninn í þessu öllu er sá að sameiginlega, í svona samvinnu, með því að vera þátttakandi í samstarfi, þá á maður auðveldara með að hafa áhrif á sín hagsmunamál og ná árangri. Þetta var meginstefið í umræðunni í dag aftur og aftur, samvinna og samstarf. Þessi orð og hugtök koma upp ítrekað og í það minnsta inntak þeirra líka. Og þannig er þetta auðvitað. Við erum að tala um loftslagsmál, við erum að tala um flóttamannamál, efnahagskrísur, stríð, lýðræðisþróun og mannréttindi. Allt þetta leysum við með því að vinna saman. Af því að við erum að fjalla um þetta mál hér finnst mér vel viðeigandi núna í sumarbyrjun, meðan veðrið er gott úti, að minna enn og aftur á að hagsmunum Íslands er betur borgið við borð þar sem ákvarðanir eru teknar frekar en að taka ákvarðanirnar og innleiða þær án þess að hafa verið í þeirri stöðu að geta haft áhrif þar á.

Ég ætla bara að leyfa mér að fara með þetta aðeins lengra af því að við erum að tala um samstarf. Við göngum svolítið út frá því að t.d. EES-samningurinn vari að eilífu og að staða þeirra ríkja sem þar eru undir verði óbreytt í því samstarfi. En það er auðvitað ekki þannig. Við getum ekki vitað hvernig hlutir þróast í hinu stóra samhengi eins og við vitum og þekkjum auðvitað núna út frá stríðinu í Úkraínu þar sem Rússar ráðast þar inn. Ríki Evrópu þurfa þá að þétta raðirnar og vinna betur saman og þá erum við allt í einu komin með varnar- og öryggishagsmuni þar inn í, en fyrir vorum við þar með alls konar mannréttindamál, samstarf þegar kemur að því að leysa flóttamannakrísu, loftslagsmál, þegar við erum að fjalla um lýðræðisþróun og mannréttindi og það allt saman. Ég ætla bara að leyfa mér að halda þessu á lofti þó að við séum hér að fjalla um breytingu á lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Þetta eru orð sem eiga bara alltaf erindi, finnst mér, inn í þessa umræðu þegar við erum að taka inn mál sem á einhvern hátt tengjast Evrópusamstarfinu, sama hvort það er í gegnum EES-samninginn eða hvort við erum að taka við einhverju sem kemur þar til hliðar við. Þó að ég styðji þetta mál heils hugar þá finnst mér því ágætt að hafa í huga að við náum betri árangri í því að vernda okkar hagsmuni og hafa áhrif á okkar hagsmunagæslu með því að vera þátttakendur í samstarfi þjóða frekar en að standa utan við það og taka á móti reglum og lögum að utan.