Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staðan á bráðamóttöku LSH.

[13:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nei, það er auðvitað rétt að Samfylkingunni hefur ekki verið treyst fyrir þessum málaflokkum af kjósendum á undanförnum árum, ella hefði Samfylkingin mögulega verið í heilbrigðisráðuneytinu eða fjármálaráðuneytinu eða annars staðar, þess vegna forsætisráðuneytinu. En kjósendur hafa ekki treyst þeim, ekki trúað á stefnuna sem kynnt hefur verið. Í geðheilbrigðismálum hefur þessi ríkisstjórn og sú sem stjórnaði hér á síðasta kjörtímabili, sömu flokkar, verið í sérstöku átaki í geðheilbrigðismálum. Við erum sömuleiðis í sérstöku átaki til að byggja fleiri hjúkrunarrými og að sjálfsögðu verður þetta áfram mikil áskorun vegna þess að þjóðin er að eldast og kröfurnar eru sívaxandi. Við höfum stóraukið fjármagn til allra helstu málaflokka heilbrigðismála. Ég nefni hér t.d., bara frá þeim tíma sem ég hef verið í fjármálaráðuneytinu, lyf og lækningavörur. Við erum líklega með um 15–18 milljörðum hærri framlög á hverju ári inn í þann málaflokk til þess að geta keypt tæknilegri lyf, betri, hjálpað fólki betur að halda í lífið sem er að glíma við erfið veikindi o.s.frv. En heilbrigðismálin heilt yfir eru gríðarlega mikil áskorun og flest þeirra mála (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður minnist hér á verða ekki leyst úr fjármálaráðuneytinu einu sér með auknum fjárframlögum (Forseti hringir.) heldur kalla á mikla samhæfingu í kerfinu í heild.