Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef aðeins eina mínútu, skilst mér, í þetta síðara andsvar. Nú er það þannig að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur áhyggjur af því, og hefur rætt það, að næsti faraldur sé kulnun hjá starfsfólki í heilbrigðisþjónustu. Fjallað er um það í þessari skýrslu að starfsfólk skorti og ekki sé verið að bjóða upp á menntunartækifæri eins og þyrfti. Við vitum að það er mikilvægt að halda í fólk með reynslu og við þurfum róttækar aðgerðir, ekki bara í geðheilbrigðisþjónustu heldur í heilbrigðisþjónustu yfir höfuð. Ég fékk það svar um daginn að 16,3%, þ.e. 446 einstaklingar af 2.739, af þeim sem nýlega séu farnir að nýta sér þjónustu VIRK, frá 1. janúar 2021 til 21. apríl 2022, komi úr heilbrigðis- og félagsþjónustu, hjúkrun og umönnun. Getur hv. þingmaður ekki tekið undir það með mér að við þurfum róttækar aðgerðir til að mæta bæði álagi og síðan þjónustuþörf?