Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:26]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég held alls ekki að það sé óhjákvæmilegt að það sé einhver mismunun en hún er þarna og ef það er mismunun þá þarf sérstaklega að veita henni athygli. Auðvitað getur verið flókið að tryggja sömu þjónustu á sértæku sviði hér í höfuðborginni og víða um land og við getum kannski ekki jafnað það fullkomlega en við getum a.m.k. gripið til aðgerða sem minnka þennan ójöfnuð. En síðan er margvíslegur annars konar ójöfnuður eins og t.d. milli geðvanda. Ég þekki t.d. konu sem var ágætisvinkona mín og þegar hún var ung þá þurfti hún á sálfræðiaðstoð að halda. Hún hafði ekki efni á því þannig að hún dreif sig í áfengismeðferð vegna þess að þar fékk hún a.m.k. einhverja viðtalsráðgjöf og annað og kannski lausn að einhverju leyti á sínum vanda án þess að hún væri að glíma við fíknivanda sem hún a.m.k. sjálf taldi sig þurfa að leysa með þeim hætti. En það var hins vegar sá möguleiki sem henni stóð til boða vegna þess að hún átti ekki 17.500 kr. á viku aflögu til að leita sér sálfræðings. Þess vegna er náttúrlega ein leið til að uppræta þessa mismunun, sem hv. þingmaður bendir á að er vissulega fyrir hendi, sú að efna það loforð sem þingið gaf og ákall þingsins til stjórnvalda að greiða niður sálfræðiþjónustu. Það er eitt auðvelt skref sem hægt væri að stíga og ég er ekki viss um að það kosti meira heldur en það sparar til langrar framtíðar.