Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:09]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Ég vil aftur þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, það er rosalega dýrt að grípa ekki inn í. Sóun er alveg ágætisorð yfir það sem þarna getur gerst. Málið er að þegar barnavernd eða félagsþjónusta eru kölluð inn þá er gríðarlega margt búið að gerast. Þá er bara mjög seint, afsakið, í rassinn gripið að fara að gera eitthvað. Það er alltaf einhver aðdragandi að einhverju svona. En það þarf alltaf svo mikið til til að það komi þessi aukna aðstoð. Ég er talsmaður þess, og hef verið innan skólakerfisins, að við séum einmitt að setja meira í þau börn sem kannski þarf bara að hjálpa yfir einhvern hjalla, sem þarf að styðja áður en hlutirnir orðnir alvarlegir. Það á alveg eins við í geðheilbrigðismálum eins og einhverju öðru, að þegar börn eru með geðrænan vanda sé hægt að taka utan um þau strax og það sé ekki einhver kennari með 24, 25 börn kannski að reyna að takast á við vandann með öll hin að auki. Það er kannski einhver smá stuðningur sem kemur en það fylgir ekkert fé fyrr en stimpillinn er kominn og eins og við vitum öll eru skólar ekki ríkar stofnanir. Það þarf að virkja miklu meira og taka miklu meira mark á starfsfólki skólanna. Kennarar eru sérfræðingar og það hefur svolítið viljað brenna við að þegar mál eru komin lengra, eins og til félagsþjónustunnar og barnaverndarnefndar, þá er varla hægt að tala við þá, þeir eru bara fyrir utan, þá eru aðrir sérfræðingar komnir og þeir tala ekki lengur við skóla nema í formi einhvers konar spurningalista sem þarf að fylla út. Það er ekki nógu gott. Það þarf að auka (Forseti hringir.) þessa aðkomu og taka mark á kennurunum, að þetta sé ekki bara af því að þeir nenni ekki að vinna vinnuna sína, eins og stundum virðist vera viðhorfið þegar kennarar láta vita af einhverju.