Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:42]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég ætlaði nú í ræðu minni að koma aðeins inn á þátt sem ég náði ekki að koma inn á í ræðu minni áðan og það snýr að SÁÁ og vanda þeirra sem glíma við áfengissýki eða fíknivanda. Þetta er auðvitað geðsjúkdómur. Alkóhólismi er geðsjúkdómur, skilgreindur sem slíkur af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Íslenska kerfið er þannig að ef fólk er með þennan sjúkdóm þá leggst það inn á spítala sem heitir Vogur og fer þar í meðferð og síðan í eftirmeðferð á Vík. Auðvitað eru fleiri úrræði til og reyndar er ástandið í meðferðarmálum hér hjá okkur þannig að það er töluverður fjöldi Íslendinga sem fer til Svíþjóðar, á meðferðarheimili sem Íslendingar reka þar, sem er auðvitað eitthvað sem ætti ekki að þurfa en er engu að síður staðreynd.

Aðeins er farið yfir það í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar hver staðan er hjá SÁÁ og á Vogi og það eru tölur sem við þekkjum. Árið 2020 voru 613 innlagnir á Vík, sem er eftirmeðferðin, svipaður fjöldi og árið á eftir. Það var þannig að 1.624 einstaklingar fóru á Vog árið 2019 og innlagnir voru 2.137. Það eru svona tölur sem við erum að tala um. Meðalbiðtími eftir meðferðarplássi á Vogi er 40–50 dagar í september 2021. Þeir sem eru metnir í forgangi fá þjónustu fyrr en hámarksbið er um 300 dagar. Ég ætla aðeins að staldra við þessar tölur. Það er ágætlega þekkt í þessum fræðum að þegar fólk er veikt af alkóhólisma eða með fíknivanda þá myndast oft svona gluggi fyrir meðferð, við getum orðað það þannig. Þá gefst hinn veiki upp og er tilbúinn til að leita sér hjálpar og leggjast inn á viðeigandi stofnun. Þessi gluggi er oft ekki opinn í 40–50 daga, hvað þá 300 daga. Þetta er gluggi sem er kannski opinn í tvo til þrjá daga, segjum það, eða viku. Á meðan fólk er á biðlista hverfur meðferðarviljinn og það hættir við að fara í meðferð og heldur áfram út.

Þetta er svolítið dapurleg staða og segir okkur auðvitað allt um það að við þurfum að gera betur þegar kemur að þessu. Eins og ég segi þá er þetta geðsjúkdómur, skilgreindur sem slíkur, og það að fólk fái ekki aðstoð og komist ekki undir læknishendur þýðir að það fólk er oft og tíðum að búa til vanda annars staðar í kerfinu. Það getur þá verið í löggæslukerfinu, einhvers staðar í félagskerfinu, í barnaverndarkerfinu. Það getur verið í fangelsiskerfinu eða víða annars staðar. Kostnaðurinn við þennan sjúkdóm er svo mikill. Að einhverju leyti er þetta alveg ágætlega rakið í þessari skýrslu og ég vildi kannski nota tækifærið hér og vekja athygli þingheims sérstaklega á þessu.

Í þessum efnum, eins og reyndar mörgum öðrum, er alveg ótrúlega dýrt að spara peninga því að það býr þá bara til kostnað síðar. Ég get t.d. nefnt það sem kemur fram hér í skýrslunni og er haft eftir SÁÁ: „Samtökin telja einnig átakanlegan skort á endurhæfingar- og áfangahúsi fyrir ungar mæður í bata og börn þeirra.“ Þarna eru þá ungar mæður og börn í einhvers konar vanda og ekki aðstaða fyrir veikar mæður með börnin sín. Síðan þarf að tryggja aðgengi að afeitrun og viðhaldsmeðferð á Vogi og svo skortir langtímaúrræði fyrir veikasta fólkið sem er á vergangi og er þung byrði á félagsþjónustu, heilsugæslu og bráðamóttöku.

Ég vil hvetja þingheim til að velta þessu fyrir sér. Þetta er ofureinfaldlega þannig að við erum að spara pening og við höfum ekki efni á því að veita þá þjónustu sem þeir sem veita þjónustuna eru alltaf að benda á að þurfi. Það eru mörg hundruð manns á biðlista og biðtíminn er langur, fólk fer á biðlista og út af honum aftur og deyr jafnvel á meðan það var á biðlista af því að það fer aftur í neyslu. Kostnaðurinn sem þetta veldur síðan á öðrum póstum samfélagsins, eins og ég var að þylja upp hér áðan, bara í löggæslukerfinu, í dómskerfinu, í öllum félagskerfunum okkar, er auðvitað alveg gríðarlegur. Þótt við getum reiknað einhverja aura til eða frá í sparnað þegar kemur að þessu þá get ég alveg lofað ykkur öllum að sá kostnaður kemur fram aftur og rúmlega það annars staðar í kerfinu og af auknum þunga. Það er svolítið erfitt að reikna samhengið þarna á milli en þetta blasir við öllum þeim sem eitthvað kynna sér þetta mál og hlusta eftir þeim upplýsingum sem fram koma hjá þeim sem starfa í þessu. Ég hvet þingheim til þess að hafa þetta í huga þegar viðbrögð við þessari skýrslu eru ákveðin í framhaldinu.