Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurstöður barnaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[12:54]
Horfa

Guðný Birna Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þú þarft ekki að vera fullorðinn til að geta breytt heiminum. Skýrsla barnaþings er mjög mikilvægur vettvangur til að ljá börnum rödd en veitir á sama tíma alþingismönnum aðhald. Sýn hagsmunahópa á þeirra upplifun, veruleika og aðstæður er mjög dýrmæt og mikilvægt að við tökum þessar upplýsingar til okkar. Líkt og hv. þm. Guðbrandur Einarsson kom inn á hér áðan höfum við í Reykjanesbæ lagt mikið upp úr því að heyra rödd barna og ungmenna hjá okkur. Ungmennaráð fundar reglulega með bæjarstjórn þar sem bæjarfulltrúar heyra frá fyrstu hendi frá ungmennum bæjarins um þeirra sýn á þeirra aðstæður. Þetta er gríðarlega mikilvægur grundvöllur fyrir ungmennin og ekki síður mikilvægur fyrir okkur bæjarfulltrúana. Við þurfum að virkja ungmennin til þátttöku í sínu samfélagi og er barnaþing og aðgangur að bæjarstjórn góð leið til þess. Af umræðum á barnaþinginu má ráða að börn hafa að sjálfsögðu ekki einungis áhuga á sértækum málefnum barna heldur samfélaginu öllu. Barnaþingmenn lögðu til að mynda mikla áherslu á jafnrétti allra kynja, loftslagsmál, mannréttindi, velferð barna og samfélagslega ábyrgð.

Það er víða í kerfinu svo augljóst hvað við getum gert betur þegar kemur að stuðningi og þjónustu við börn. Biðlistar eftir greiningu hjá barna- og unglingageðdeild Landspítala og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins eru og hafa verið allt of lengi of langir. Barnaþingmenn komu einnig inn á aðgengi að sálfræðiþjónustu, líkt og margir þingmenn hafa komið inn á hér á undan mér, og spurðu sig af hverju aðgengið væri ekki betra og af hverju þessi þjónusta væri ekki gjaldfrjáls. Sálfræðiþjónusta er í molum, eins og við í Samfylkingunni höfum áður bent á hér. Það ætti að vera forgangsmál okkar á Alþingi að gera sálfræðiþjónustu barna og ungmenna upp að 25 ára aldri gjaldfrjálsa nú þegar, sér í lagi þar sem geðlægð stefnir í að vera einn dýrasti sjúkdómur árið 2030.

Barnaþingmenn lögðu mikla áherslu á að réttindi barna væru virt, rétt þeirra til að líða vel heima hjá sér og eiga þak yfir höfuðið. Jafnaðarstefnan skín í gegnum skýrslu barnaþings; jöfn tækifæri fyrir öll, bætt kjör á vinnumarkaði, betri starfsaðstæður fyrir heilbrigðisstarfsfólk, að fólk af erlendum uppruna og uppruna fái vinnu í samræmi við menntun sína, jafnrétti fyrir öll kyn, hreint land og verndun hafsins. Ég ætla að vitna í einn barnaþingmann, með leyfi forseta: „Við erum öll í sama bát á þessum sjó, sem er heimurinn.“

Framtíð landsins er svo sannarlega í góðum höndum.