Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

áhafnir skipa.

185. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um áhafnir skipa. Með frumvarpinu er lagt til að einfalda regluverk á þann hátt að fjórir lagabálkar verði sameinaðir í einn lagabálk um áhafnir skipa. Jafnframt eru lagðar til nokkrar efnisbreytingar og má í því sambandi einna helst nefna tilfærslu á verkefnum frá hvort tveggja undanþágu- og mönnunarnefnd skipa til Samgöngustofu. Einnig eru lagðar til skýrar reglur um lágmarksmönnun réttindamanna á smáskipum. Nefndin fjallaði um málið, fékk gesti á sinn fund og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti. Nefndarálitið liggur frammi.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar árétta eftirfarandi: Nefndin fjallaði um þann þátt frumvarpsins sem lýtur að því að veiting undanþágu og frávik frá mönnun verði flutt frá sérstökum nefndum, undanþágunefndum og mönnunarnefndum, til Samgöngustofu. Að mati meiri hluta nefndarinnar er um að ræða breytingar til bóta þar sem félögum, þeim sem hafa tilnefnt fulltrúa í nefndinni, það er að segja annars vegar félagi útgerðarmanna og hins vegar félagi réttindamanna, eru sköpuð bætt skilyrði til að sinna hagsmunagæslu fyrir félagsmenn sína. Þá felur breytingin jafnframt í sér skilvirkara kerfi sem stuðlar að samræmdum ákvörðunum. Þá fjallaði nefndin um þá nýbreytni sem snýr að því að útgerð farþegaskipa, farþegabáta og flutningsskipa leggi til við Samgöngustofu hvernig öryggismönnun skips í þess eigu skuli háttað. Meiri hlutinn fagnar breytingu á fyrirkomulaginu og leggur áherslu á mikilvægi þátttöku útgerða í að meta mönnunarþörf á skipum sem eru í þeirra þágu. Jafnframt áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess, með hliðsjón af rekstri skipa í ferðaþjónustu, að búa svo um að háseti sem hlotið hefur öryggisþjálfun frá viðurkenndum aðila geti í einhverjum tilfellum komið í stað stýrimanns.

Loks fjallaði nefndin um nokkur atriði sem í kjölfarið leiddi til þess að meiri hlutinn lagði til breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lögð fram breyting er varðar lágmarksmönnun skipa sem felur í sér að kveðið verður enn skýrara að orði um lágmarksfjölda réttindamanna. Meiri hluti nefndarinnar leggur þannig áherslu á að ná fram því markmiði að tryggja öryggi á sjó og að skýrar reglur gildi um lágmarksmönnun skipa í samræmi við alþjóðlegt regluverk. Í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram komu við umfjöllun málsins er þó ljóst að nauðsynlegt er að skapa rými fyrir reynslumikla háseta til að afla sér réttinda til að sinna áfram stöðu stýrimanns eins og hefur tíðkast á ákveðnum stöðum á landinu þar sem mönnun hefur verið erfið. Vegna þessa leggur meiri hlutinn til þá breytingu að til 1. júlí 2024, eða í eitt og hálft ár frá gildistöku laganna, verði hásetum á skipum 15 m að skráningarlengd eða styttri heimilt að gegna stöðu stýrimanns sé útivist skips styttri en 19 tímar og viðkomandi eigi að baki 12 mánaða siglingatíma á síðastliðnum þremur árum.

Í öðru lagi eru lagðar til nokkrar breytingar í þeim tilgangi að auka skýrleika refsiákvæða frumvarpsins sem og að tryggja heimildir Landhelgisgæslunnar til eftirlits um borð í skipum. Þá er í þriðja lagi lögð til breyting á lögum um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979, sem hefur m.a. það markmið að auka skýrleika gildissviðs frumvarpsins þar sem fram kemur að lögin skuli taka til erlendra skipa sem eru að nánar tilgreindum skilyrðum á íslensku innsævi. Fram til þessa hefur hugtakið innsævi hins vegar hvergi verið skilgreint í íslenskum lögum og til að gera bragarbót á því er lagt til að skilgreining 8. gr. hafréttarsamningsins verði lögfest hér á landi. Loks eru lagðar til breytingar sem fyrst og fremst eru lagfæringar, hafa það að markmiði að auka samræmi og bregðast við minni háttar athugasemdir í umsögnum sem bárust nefndinni. Um þessi atriði sem og aðra breytingartillögu meiri hlutans vísast jafnframt til ítarlegrar umfjöllunar í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Undir álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason, Njáll Trausti Friðbertsson, Ingibjörg Isaksen og Orri Páll Jóhannsson. Þá hefur Jakob Frímann Magnússon lýst sig samþykkan álitinu.

Virðulegi forseti. Ein af þeim breytingum sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til hefur það að markmiði að girða með enn skýrari hætti fyrir að lögin, verði þau samþykkt, taki til erlendra vöruflutningaskipa í áætlunarsiglingum. Í kjölfar útbýtingar nefndarálits kom hins vegar í ljós að með breytingunni var ekki nægilega skýrt tekið fram að skipin sjálf þyrftu að uppfylla kröfur SOLAS-alþjóðasamningsins en ekki einungis sigla undir fána ríkis eins og þau hefðu gert. Til að bregðast við þessu hef ég lagt fram breytingartillögu við breytingartillögu meiri hlutans sem ég legg til að verði samþykkt og liggur frammi.

Virðulegi forseti. Þessu til viðbótar vil ég að lokum leggja áherslu á að í frumvarpinu er sérstaklega áréttað að heildarmönnun fiskiskipa skuli ávallt hagað þannig að vinnu- og hvíldartími áhafnar sé í samræmi við ákvæði sjómannalaga. Í því felst þar af leiðandi að lögin gera meiri kröfu til mönnunar en öryggismönnun. Samkvæmt því frumvarpi sem hér er til umræðu skal haga mönnun í samræmi við sjómannalögin. Vert er þó að taka fram, í ljósi áhyggna samtaka sjómanna um að lögin muni leiða til þess að fækkað verði í áhöfn á kostnað öryggis, hvíldar og vinnuálags, að fyrirhugað er að taka mönnun fiskiskipa til nánari skoðunar í innviðaráðuneytinu. Á sama tíma á það sama við um hvernig réttindi háseta er varða vinnu- og hvíldartíma eru virt. Það að yfirmenn séu farnir að ganga í störf undirmanna, sem ýmsir sem komu að máli við nefndina hafa áhyggjur af, er í raun bannað samkvæmt sjómannalögum sem eiga að tryggja réttindi og öryggi sjómanna hér á landi. Auk þess er kveðið á um vinnu- og hvíldartíma skipverja á fiskiskipum í sjómannalögum. Þó svo að hvíldartími sé bundinn í lög þá er alltaf spurning um hvernig gangi að sinna eftirliti með því. Það er vissulega áhyggjuefni að útgerðarmenn séu að leggja óhóflegar kröfur á sjómenn á skipum sínum, að það hafi heilsufarslegar afleiðingar. Í 16. og 17. gr. frumvarpsins eru lagðar til reglur um lágmarksfjölda skipstjóra og vélstjórnarmanna sem skulu vera um borð í fiskiskipum. Miðast þessar mönnunarkröfur við stærð og vélarafl skipanna sem um ræðir. Með ákvæðinu er mælt fyrir um þann fjölda sem þörf er á til að skip geti siglt með öruggum hætti. Sambærilegar reglur eru í gildi í dag. Þó ekki sé kveðið á um heildarmönnun fiskiskipa í þessum ákvæðum þá segir í 1. mgr. 23. gr. frumvarpsins að vaktafyrirkomulagi og heildarmönnun fiskiskipa skuli ávallt haga þannig að vinnu- og hvíldartími áhafna sé í samræmi við ákvæði sjómannalaga. Er þar vísað til ákvæða sjómannalaga, nr. 35/1985, og reglugerða sem byggja á þeim, sem hafa að geyma ákvæði um réttindi skipverja.

Í frumvarpi til laga um áhafnir skipa er jafnframt að finna ákvæði um vinnutíma og hvíldartíma skipverja. Frumvarpið hefur þannig að geyma ákvæði sem ætlað er að tryggja vinnu- og hvíldartíma allra áhafnarmeðlima. Í ljósi framkominna sjónarmiða samtakanna og sjómanna hyggst innviðaráðuneytið, eins og áður er sagt, taka til nánari skoðunar hvernig staðið er að mönnun fiskiskipa og hvernig réttindi háseta að því er varðar vinnu- og hvíldartíma séu virt. Það er mjög mikilvægt að þessi vinna fari fram því eins og hér hefur komið fram þá er um að ræða þetta ákvæði um hvíldartíma og mönnun fiskiskipa í sjómannalögunum. Vona má að þessi vinna fari fljótt og vel af stað og verði unnin með hagsmunaaðilum.