Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á að erfitt væri að leggja hitaveitu til sumra bæja, í sum þéttbýli o.s.frv. og því fylgdi mikill kostnaður og annað slíkt. Þá er kannski rétt að horfa til þess að tæknin í þessum efnum hefur breyst töluvert bara á síðustu árum. Nú er t.d. kominn tækjabúnaður þar sem hægt er að plægja niður svona lagnir og jafnvel saga í gegnum klappir og svo eru þessar leiðslur komnar í kefli. Ágætt fyrirtæki, Set á Selfossi, framleiðir einmitt hitaveitulagnir sem eru með einangrun og öllu úr plasti, þetta er á stórum keflum og þessu er svo plægt niður í jörðu. Því er þetta allt orðið miklu auðveldara heldur en var hér fyrir nokkrum árum þegar stálrörin voru og verið var að sjóða þau saman o.s.frv. Þarna eru því komin töluverð tækifæri.

Mig langaði einmitt að spyrja hv. þingmann að því hvað honum fyndist t.d. um hugmyndir þess efnis að þessi veitufyrirtæki, sem hafa nú í flestum tilfellum einkarétt á dreifingu á heitu vatni á þeim svæðum þar sem þau eru að selja heita vatnið, yrðu jafnvel skyldug til að leggja ákveðnar leiðir þegar það væri kannski verið að undanskilja einhverja nokkra kílómetra. Ég þekki dæmi þess að fyrirtæki hafi ekki viljað leggja lengra þótt það væru allt að 30–40 notendur á einhverjum 5–6 km. Það er að sjálfsögðu þjóðhagslega hagkvæmt fyrir bæði neytendur og ríkissjóð ef einhvers konar pressa yrði sett á þessi fyrirtæki að fara lengra með lögnina.

Mig langaði kannski að fá álit hv. þingmanns á þessu vegna þess að hann kom inn á það að það gæti verið kostnaðarsamt að leggja í sum hús og sum byggðarlög.