Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:13]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, ég hef einmitt orðið var að það er orðið miklu auðveldara að leggja þessi rör en samt sem áður er kostnaður. Það er líka annað flækjustig eins og t.d. krafturinn á vatninu og jafnvel hvort hitinn á vatninu nái að haldast, ég veit að t.d. í Kjósinni þar sem ég þekki til að vatnið sem er verið að dæla þar upp er ekki endilega nógu heitt til að það dugi út í alla enda sveitarinnar. Varðandi það hvort eigi að gera eitthvað þar svo fyrirtækin fari einmitt þessar síðustu mílur, eins og það er oft kallað í fjarskiptunum, þá höfum við verið að ræða það í þinginu undanfarin ár hvað eigi að gera varðandi t.d. lagningu ljósleiðara og annað í dreifðar sveitir. Þar hefur verið sett upp ákveðið hvatakerfi og stundum er hægt að fá styrki til þess að leggja þar sem kannski er ekki eins hagkvæmt að leggja alla leið. Mér finnst ekkert að því að hugsa um það líka fyrir hitaveitur eins og ljósleiðara. Allt eru þetta krítískir innviðir og ættum við að hugsa um hvort það séu leiðir til að skapa einhverja hvata í því skyni að tengja síðustu svæðin. Ég held að þingið og atvinnuveganefnd myndu bara líta slíkar hugmyndir jákvæðum augum, ef einhverjar kæmu, og skoða hvort ekki væri hægt að gera það, því eins og hv. þingmaður bendir á þá er húshitun með hitaveitu allt önnur en með rafmagni eða annarri tækni.