Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

stjórn fiskveiða og lög um veiðigjald.

350. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):

Frú forseti. Ég þakka hv. framsögumanni meiri hlutans fyrir framsöguna og þá góðu punkta sem þar koma fram. Ég hef valið að vera í minni hluta í þessu máli og er því með nefndarálit sem inniheldur frávísunartillögu. Ég ætla að nýta tækifærið til að benda á af hverju. Ég fór í gegnum upphaflegu hlutina þegar við ræddum síðasta frumvarp en ég ætla að hafa það hér aftur yfir fyrir lögskýringar og annað.

Við allar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða er mikilvægt að hafa það grundvallarstef í huga að líta ber á sjávarauðlindina sem sameiginlega og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Þegar til skoðunar kemur hvort kvótasetja eigi nýjar tegundir verður því ávallt að spyrja þeirrar spurningar hvort núverandi kerfi þjóni heildarhagsmunum þjóðarinnar.

Í aflamarkskerfinu, eins og það er skilgreint í lögum um stjórn fiskveiða, felst takmörkun á þessum rétti þjóðarinnar þar sem aflaheimildum er úthlutað þannig að það færir fáum aðilum langvarandi eignar- og ráðstöfunarrétt yfir sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Það er skoðun minni hlutans að réttara væri að hefja heildarendurskoðun á aflamarkskerfinu með það að markmiði að tryggja þjóðinni sanngjarna og réttláta hlutdeild í þessum sameiginlegu auðlindum þjóðarinnar. Minni hlutinn telur því ekki rétt að festa varanlega í sessi kvótasetningu á þangi og þara, sér í lagi þar sem hæstv. matvælaráðherra er þegar búinn að tilkynna fyrirætlanir um að fara í þessa heildarendurskoðun.

Minni hlutinn gerir ákveðnar athugasemdir við frumvarpið eins og það er í dag og við byrjum á því sem tengist náttúruvernd.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að 3. og 4. mgr. 2. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, falli brott. Með þeirri breytingu er lagt til að fellt verði á brott ákvæði um að nýting sjávargróðurs skuli vera í samræmi við lög um náttúruvernd og lög um vernd Breiðafjarðar eftir því sem við á.

Þá er í 2. gr. lagt til að 3.–6. mgr. 3. gr. laganna falli brott sem kveða á um hlutverk Hafrannsóknastofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, vöktun og nýtingu sjávargróðurs. Þessar breytingar ásamt 3. gr. frumvarpsins sem og brottfall 2. mgr. 15. gr. b, um skyldu til að leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, kunna að vera til þess fallnar að draga úr vægi náttúruverndar við nýtingu sjávargróðurs, eins og bent hefur verið á af umsagnaraðilum. Ekki fæst séð að sannfærandi rök séu fyrir afnámi þessara reglna að öðru leyti en að vísað er í greinargerð með frumvarpinu til einföldunar regluverks og að stjórnsýslan sé bundin af meginreglum umhverfisréttarins. Að mati minni hlutans er þessi rökstuðningur ófullnægjandi þegar svo mikilsverðir hagsmunir eru undir eins og vernd náttúru og lífríkis. Þess má geta að meiri hlutinn kemur með breytingartillögu sem tekur örlítið á þessu í fyrstu breytingartillögunni og er það að sjálfsögðu gott en við teljum að það gangi samt sem áður ekki nógu langt.

Minni hlutinn telur að einnig þurfi að líta til þess að þangfjörur og þaraskógar gegna mikilvægu hlutverki í kolefnisbindingu og að réttara hefði verið að huga í mun meira mæli að áhrifum lagasetningarinnar á loftslagsmál. Sú niðurstaða sem frumvarpið felur í sér um að aftengja með beinum hætti nýtingu sjávargróðurs frá lögum um náttúruvernd og færa vöktun og eftirlit að öllu leyti frá Náttúrufræðistofnun til Hafrannsóknastofnunar virðist benda til þess að ætlun stjórnvalda sé að hunsa náttúruverndar- og loftslagssjónarmið við ákvarðanatöku um nýtingu og öflun sjávargróðurs.

Fjallað er í nokkru máli um athugasemdir Náttúrufræðistofnunar Íslands í samráðskafla í greinargerð með frumvarpinu en svo virðist sem athugasemdir þeirra á undirbúningsstigi málsins hafi verið hunsaðar. Samþykkt frumvarpsins að óbreyttu þýðir að athugasemdir Náttúrufræðistofnunar verða áfram hunsaðar sem minni hlutinn telur ámælisvert. Það er líka vert að hafa í huga að nú eru t.d. að koma hingað til lands fyrirtæki — var bara tilkynnt nú á síðustu vikum — sem ætla að skoða það að nýta og rækta þara og þörunga til þess að auka þá kolefnisbindingu sem hægt er að gera í sjónum, hægt er að gera í lífverunum. Við höfum öll heyrt talað um hið margrómaða Carbfix-verkefni sem felur í sér að taka koldíoxíð og breyta því yfir í stein í jarðlögum, og það er að sjálfsögðu frábært. En þetta ákveðna erlenda fyrirtæki er líka að setja af stað stórar stóra tilraunir í á þessu sviði og tilkynnti á dögunum að fyrsta útgerðin þeirra í því að rækta þang og þara yrði einmitt frá Akranesi. Þetta gæti því verið mjög athyglisverð leið og þá finnst okkur svolítið erfitt að verið sé að setja lög og kvóta um að nýta þetta á sama tíma og við erum kannski að horfa á þetta sem mögulegt verkfæri í loftslagsmálum. Við teljum að skoða þurfi þetta mun betur.

Að öllu framangreindu virtu telur minni hlutinn ljóst að málið sé ekki fullbúið og það þarfnist ítarlegri yfirlegu til að hagsmunir náttúruverndar, loftslagsins og þjóðarinnar séu nægilega tryggðir. Leggur minni hlutinn því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Undir þetta ritar sá sem hér stendur.