Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

minnisvarði um eldgosið á Heimaey.

376. mál
[21:25]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Birgir Þórarinsson) (S):

Frú forseti. Nefndarálitið sem ég mun mæla fyrir lýtur að þingsályktunartillögu, um minnisvarða um eldgosið í Heimaey. Í tillögunni segir að Alþingi álykti í tilefni þess að árið 2023 eru 50 ár liðin frá Heimaeyjargosinu að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa kaup á minnisvarða um þann sögulega atburð. Undirbúningsnefndin skal skipuð fimm fulltrúum og skulu tveir skipaðir samkvæmt tilnefningu bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, tveir af Alþingi og einn án tilnefningar, og skal viðkomandi vera formaður nefndarinnar. Undirbúningsnefndin skal fyrir lok ágúst 2022 leggja fram tillögur fyrir forsætisráðherra til samþykktar. Að fengnu samþykki skal nefndin annast frekari undirbúning fyrir uppsetningu og afhjúpun minnisvarðans sumarið 2023.

Ég mæli hér nú, frú forseti, fyrir nefndarálitinu með breytingartillögu um þingsályktunartillöguna. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsögn Vestmannaeyjabæjar um málið. Með þingsályktunartillögunni er lagt til að Alþingi feli forsætisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa kaup á minnisvarða um Heimaeyjargosið 1973. Á næsta ári verða 50 ár liðin frá eldgosinu á Heimaey, eins og áður sagði. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að þeirra tímamóta verði minnst á veglegan hátt í Vestmannaeyjum sem og sögu eldsumbrotanna og samfélagsins. Nokkuð er frá því að málinu var dreift á Alþingi og sá frestur sem nefnd forsætisráðherra er ætlaður orðinn of skammur. Upphaflega var gert ráð fyrir því, eins og ég nefndi áðan, að hann væri til loka ágústmánaðar á þessu ári. Leggur nefndin því til að hann verði rýmkaður.

Nefndin tekur að öðru leyti heils hugar undir efni tillögunnar og leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu sem lýtur að frestinum, að lengja hann fyrir undirbúningsnefndina: Í stað orðsins „ágúst“ í 3. málslið tillögugreinarinnar komi: október. Við leggjum sem sagt til að lengja þennan frest fram í október.

Það kemur svo sem ekkert fleira fram í þessu nefndaráliti en Sigurður Páll Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Logi Einarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa. Sigmar Guðmundsson áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu.

Undir þetta nefndarálit rita hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, formaður, Birgir Þórarinsson, framsögumaður, Eyjólfur Ármannsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Kári Gautason, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Logi Einarsson.