Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Já, við ræðum hér að mínu viti mjög mikilvægt mál og mig langar að byrja á að geta þess að ég er því samþykk og hlynnt þó að nafn mitt sé ekki á nefndarálitinu en það vildi svo bagalega til að ég var ekki viðstödd fundinn þegar málið var tekið út og þess vegna er nafn mitt ekki þar, en ég styð það heils hugar.

Við höfum fjallað um málið nokkuð ítarlega í allsherjar- og menntamálanefnd, fengið fjölda gesta, fengum töluvert af mjög góðum athugasemdum og áttum að mínu viti mjög góð samtöl um þetta mál. Mig langar líka að geta þess að mér hafði yfirsést það þegar við vorum að fjalla um málið að ein ástæðan fyrir því að við erum með þetta mál hér núna frá forsætisráðuneytinu er sú að Alþingi fól forsætisráðherra að koma með nákvæmlega svona lög inn í þingið. Þannig var að 8. júní 2018 afgreiddi þáverandi hv. allsherjar- og menntamálanefnd frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og ein af breytingartillögunum nefndarinnar var, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal innan árs frá gildistöku laga þessara leggja fram á Alþingi frumvarp þar sem kveðið verði á um að lögunum verði breytt þannig að þau gildi ekki eingöngu um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna heldur einnig óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði.“

Undir þetta nefndarálit skrifuðu Páll Magnússon, Anna Kolbrún Árnadóttir, Teitur Björn Einarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Willum Þór Þórsson, Andrés Ingi Jónsson, Jón Steindór Valdimarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Ég tel mikilvægt að geta þess að ástæðan fyrir því að þetta frumvarp er hér er einmitt vegna þessarar breytingartillögu þar sem skýr vilji kom fram hjá þáverandi hv. allsherjar- og menntamálanefnd. En við erum auðvitað ný nefnd og nýir þingmenn hafa auðvitað fullt frelsi til að hafa aðrar skoðanir en þeir sem á undan þeim voru. Ég ber fulla virðingu fyrir því og ég ber virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður flutti hér áðan þó að ég kunni að vera þeim ósammála.

Mig langar líka aðeins að bregðast við því sem kom hér fram í ræðu frá hv. þm. Arndísi Önnu K. Gunnarsdóttur, en þar var verið að tala um að lögin hefðu hingað til reynst gagnlítil til að vinna gegn mismunun. Mér finnst það ekki fullkomlega sanngjarnt vegna þess að þetta eru tiltölulega ný lög, þ.e. þau tóku gildi í september 2018, þannig að þetta er tiltölulega ný löggjöf og kannski ekki tímabært þar af leiðandi að kasta fram þeirri staðhæfingu að lögin hafi ekki náð markmiðum sínum.

Þá vil ég ítreka að þegar við erum að tala um svona lagabálk þá er eitt að breyta lögunum sem slíkum, annað er fræðslan og samfélagslega umræðan og menningin sem þarf að þróast í kjölfarið. Ég held því að við þurfum að vera örlítið þolinmóðari hvað það varðar að sjá beinan árangur af lögunum sem hægt er að mæla. Það er hægt að vísa t.d. til reynslunnar varðandi lög um jafna stöðu og réttindi kynjanna í gegnum árin. Það hefur verið stöðug þróun á þeirri löggjöf og við höfum náð árangri. Að mínu mati hefur það tekið allt of langan tíma og við erum enn í þeirri vegferð. En við höfum sannarlega náð árangri. Eins og kom líka fram áðan hefur ekki komið fram mál hjá kærunefnd jafnréttismála hvað þessa þætti varðar en það eru skráð mál í skjalakerfinu þeirra og það hafa borist fyrirspurnir til Jafnréttisstofu um þetta mál. Það kom líka ágætlega fram áðan, sem var hluti af samtalinu okkar við Jafnréttisstofu, nauðsyn þess að þau þyrftu að kynna þetta betur. Forsætisráðuneytið hefur einmitt sagt að það standi til að fara í átak í þeim efnum.

Varðandi það að fjölga þessum mismununarþáttum þá er ein af mínum fyrstu vangaveltum hvort við séum ekki bara að flækja málið og með því að tilgreina ákveðna þætti séum við mögulega að draga úr því ákvæði stjórnarskrárinnar okkar að mismunun sé bönnuð. Það eru aðilar sem hafa fært rök fyrir því að engin þörf sé á að tilgreina mismununarþættina í löggjöf því að mismunun sé bönnuð, bara almennt. Þá ber að geta þess að við höfum þegar hafið þessa vegferð. Við höfum breytt lögum á vinnumarkaði þar sem við höfum tilgreint þessa mismununarþætti. Við höfum líka fjölgað mismununarþáttum í þeirri löggjöf sem við fjöllum um hér en það vantar inn ákveðna mismununarþætti sem eru í hinum lögunum. Því eru í mínum huga skýrustu rökin fyrir því að lögin séu sambærileg mismununarþættirnir sem þarna eru taldir upp. Í ljósi þess að við erum komin í þá vegferð að telja upp mismununarþætti þurfa þeir að vera sambærilegir.

Varðandi umræðuna sem við áttum að einhverju leyti áðan í andsvörum þá snýst þetta um hugtakið áreitni. Frumvarpið um fjölgun mismununarþátta sem við ræðum hér nær eingöngu yfir áreitni ef hegðunin tengist fötlun eða kynhneigð þess sem fyrir henni verður, rétt eins og lögin ná nú þegar yfir áreitni sem tengist kynþætti og þjóðernisuppruna þess sem fyrir henni verður. Áreitnishugtakið er því inni í lögunum en við erum að fjölga mismununarþáttum. Aftur skil ég ekki af hverju það ættu ekki vera sömu þættir. Við kunnum að leggja mismunandi skilning í orðið áreitni og þá er bara ágætt að hafa það í huga að mál þar sem fólk telur brotið á sér í samræmi við þessi lög færu til kærunefndarinnar og eftir atvikum til dómstóla sem myndu skera úr um það. En það að áreita einhvern er auðvitað annað en að gera grín að einhverjum. Það er þessi stöðuga áreitni, og mér finnst í rauninni samfélagsumræðan í dag vera svolítil vísbending um þetta. Við vorum að ræða hér áðan um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks og það var rætt sérstaklega um ástand eða líðan ungmenna, hinsegin ungmenna, sem finnst þau verða fyrir áreitni. Það er ekki bara vegna þess að einhver geri einu sinni grín að þeirra kynhneigð heldur gerist það stöðugt í formi áreitni á samfélagsmiðlum, áreitni í samtölum og þessu. Því held ég einmitt að samfélagsumræðan og það sem við höfum séð vera að gerast í samfélaginu sýni okkur svo ekki verði um villst að það er mikilvægt að löggjöf sem þessi sé virk og taki mið af því sem best gerist í kringum okkur.

Þá hefur einmitt verið vísað svolítið til þess að þetta sé ekki í dönsku mismununarlögunum en þetta er þó í samræmi við þau norsku, sænsku og finnsku; meiri hlutann af Norðurlöndunum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Með því að samþykkja frumvarpið þá erum við að samræma þessar aðgerðir með því sem upp er talið í lögum um réttindi á vinnumarkaði og mér finnst það skýrasta ástæðan fyrir því að við ættum að samþykkja þetta. Í öðru lagi erum við að uppfylla það bráðabirgðaákvæði, eða hæstv. ráðherra var öllu heldur að uppfylla það bráðabirgðaákvæði sem henni var falið að gera í nefndaráliti frá hv. allsherjar- og menntamálanefnd árið 2018, og við erum að samræma okkur þeirri löggjöf sem er í kringum okkur, þ.e. í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.

Að því sögðu er líka ástæða til að geta þess að fjölmargir eftirlitsaðilar á sviði mannréttinda hafa bent á að það skorti upp á heildstæða mismununarlöggjöf á Íslandi. Við höfum fengið ýmis tilmæli um að setja heildstæð lög um bann við mismunun, m.a. núna síðast í allsherjarúttekt mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttinda á Íslandi sem fram fór í janúar 2022. Krafan um að slík löggjöf leiði af almennum jafnræðisreglum sem finna má í ýmsum mannréttindasamningum, þar á meðal samningi um réttindi fatlaðs fólks, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og samningum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Þetta og meira til tel ég vera góð og gild rök fyrir því að við afgreiðum þetta mál hér á þessu þingi áður en þing fer í sumarfrí.

Framsögumaður málsins lagði til að það færi aftur inn í nefnd enda hafði sú umræða skapast í ljósi þess fjölda álita minni hluta sem komið hefur fram um málið. Ég er ekki andsnúin því og vænti þess að við tökum málið aftur hið fyrsta til umfjöllunar í nefndinni. Ég vona að það sem fram hefur komið hér í umræðum sé þess valdandi að hægt sé að ná meiri sátt um málið, en sé það ekki svo þá ber ég virðingu fyrir því að fólk kunni að hafa ólíkar skoðanir og legg áherslu á að ég tel mikilvægt að við afgreiðum þetta mál hið fyrsta.