Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

stafrænar smiðjur.

[11:58]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja út í stafrænar smiðjur vegna þess að þær stafrænu smiðjur sem settar hafa verið á laggirnar út um allt land hafa reynst mjög vel. Þær eru fyrsti vísirinn inn í þá miklu tæknibyltingu sem við erum stödd í. Við erum stödd í þessari tæknibyltingu en hún er líka vísir inn í framtíðina, hvernig við erum að fara að nota gervigreindina og hvernig við setjum þetta inn í námið. Ég tel því þessar stafrænu smiðjur, og þá áherslu sem hv. þingmaður hefur lagt á þær, vera algerlega til fyrirmyndar. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þegar ég var mennta- og menningarmálaráðherra kláruðum við þessa samninga, hvort það var við átta skóla, á framhaldsskólastiginu, sem ég taldi vera mjög jákvætt. Mig minnir að við höfum sett meiri fjármuni í þetta en við höfðum gert áður, hv. þingmaður leiðréttir mig ef það er ekki rétt. Það verður að segjast alveg eins og er að ég þarf hreinlega að skoða þetta betur, m.a. það sem fram kemur hjá forsætisráðuneytinu, og bera það saman við þingsályktunartillöguna.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það þarf að passa upp á þetta. Þegar allt þingið hefur samþykkt þingsályktunartillögu þá er auðvitað mjög mikilvægt að við tryggjum framgang hennar og hún á að mínu mati að vera ákveðið verkfæri þingsins, sérstaklega þegar allir eru sammála um að stíga næstu skref. Ég skal koma aðeins betur inn á það í síðara andsvari.