Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:43]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Til umfjöllunar er fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027. Sú áætlun sem við ræðum hér tekur við af áætlun sem samþykkt var á síðasta löggjafarþingi og nú er áætlunin uppfærð miðað við nýjustu spár Hagstofunnar og fjallar í stórum dráttum um hagsmunalegt hlutverk hins opinbera og efnahagsframvindu á tímabili áætlunarinnar. Mig langar í stuttu máli að fara yfir nokkra punkta er varða málefnasvið áætlunarinnar og nefna nokkur málefni, en of langt mál er að fara yfir þau öll hér í þessari ræðu.

Í áætluninni er m.a. boðuð endurskoðun á skattlagningu á umferð og ökutæki en veruleg eftirgjöf tekna af ökutækjum og ákvarðanir um skattleysi á afnotum af vegakerfi landsins og er miðað við fyrra fyrirkomulag skattlagningar. Þó liggur ekki fyrir nákvæm greining á þeirri eftirgjöf en um verulegar fjárhæðir er að ræða, það er nokkuð ljóst. Því er mjög mikilvægt að við drögumst ekki aftur úr í þessari endurskoðun og skoðum verulega vel skattlagningar og verðum þar að tengja saman, að mínu viti, rétta hvata til að nýta ný ökutæki og styðja við markmiðin sem við höfum sett okkur varðandi minni losun.

Það þarf einnig að skoða samspil og rétta hvata, að réttir hvatar verði fjölbreyttari er kemur að fjármögnun samgöngumannvirkja. Þar hafa verið skoðaðar ýmsar leiðir og ég held að það sé gríðarlega áríðandi að við horfum til fleiri kosta en við höfum verið að gera nú þannig að fleiri verk komist til framkvæmda, sem er afar mikilvægt, enda þörfin mikil. Þegar í næstu fjárlögum liggja fyrir breytingar sem endurspegla alla notkun ökutækja á vegakerfinu, sem er til bóta.

Stjórnvöld hafa lagt sérstaka áherslu á nýsköpun og varið gífurlegum fjármunum í rannsóknasjóði, endurgreiðslur, hvata og stuðningsnet. Áherslur hafa verið á loftslagsmál, heilbrigðismál og jafnréttismál umfram aðra þætti þó að allt sé undir í þessari áætlun, eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans. Löggæslan og almannavarnir standa frammi fyrir nýjum og vaxandi áskorunum og mikilvægt að öryggismálin í víðasta samhengi séu í lagi.

Við þekkjum það að almannavarnir hafa í raun og veru verið starfandi frá því í óveðrinu 2019 sem reið hér yfir aðallega norður- og austurhluta landsins og síðan þá höfum við upplifað jarðhræringar, eldgos, skriðuföll og margt fleira sem almannavarnir hafa þurft að bregðast við og hafa gert það með glæsibrag.

Við megum þó ekki gleyma hinni hefðbundnu frumkvæðislöggæslu sem felur m.a. í sér umferðarlöggæslu, en dæmin sýna að aukin umferðarlöggæsla getur haft verulega jákvæð hagræn áhrif. Má þar t.d. nefna átak lögreglunnar á Norðurlandi vestra á árunum 2017–2018 þar sem aukning á umferðarlöggæslu fækkaði umferðarslysum í umdæminu um 26% með tilheyrandi sparnaði, m.a. í heilbrigðiskerfinu. Það er mikilvægt að fjármagn til lögreglunnar sé með þeim hætti að embættinu sé gert kleift að sinna almennu eftirliti með virkum og skilvirkum hætti.

Það má spyrja sig hvort hin almenna hagræðingarkrafa ætti að eiga við um viðbragðsaðila eins og löggæslu þar sem laun og launatengd gjöld eru um 80–85% af útgjöldum og hagræðingarsvigrúm því nánast ekki neitt til þess að fara í annað en að draga úr útgjöldum launaliða embættanna eða draga úr hefðbundnu eftirliti.

Mikilvægi ólíkra og fjölbreyttra samgöngumáta verður seint of oft ítrekað og mikilvægt að ríkið styðji áfram við þróunaruppbyggingu í samgöngukerfinu. Fjárfestingar í samgöngumannvirkjum verða að vera mjög arðsamar fjárfestingar til lengri tíma. Það er einnig hægt að beita þeim sem ákveðnu efnahagsstjórnunartæki og horfa til framkvæmda á þeim svæðum sem eru kaldari og með minni framleiðsluspennu. Minni framkvæmdir eins og tengivegaframkvæmdir og aðgerðir til þess að bæta umferðaröryggi eru oftar en ekki mannaflsfrekar.

Í þessari fjármálaáætlun er fest í sessi átak til endurbyggingar á tengivegum. Skólasóknarsvæði og atvinnusóknarsvæði í dreifðum byggðum þar sem dagleg umferð fer stöðugt vaxandi eru nánast gerð óbyggileg ef ekki tekst að hraða verulega endurbyggingu tengivega. Huga þarf að fleiri lausnum í fjármögnun og kröfum til tengivega en nú er gert. Ég held að í þessu samhengi sé mjög mikilvægt að velta því fyrir sér til lengri tíma, þó að það sé kannski ekki akkúrat umræðuefnið hér, að skoða hvort mikið af þessum tengivegum sem eru með skólaakstur og annað þurfi ekki að byggja upp með sams konar hætti og gert er samkvæmt þeim stöðlum, að byggja það upp að fullu, í fullri breidd, sem kostar gríðarlega fjármuni. Oftar en ekki myndi það þjóna tilgangi þessara vega að einfaldlega leggja á þá bundið slitlag ef það væri hægt. Það myndi gjörbylta aðstæðum fyrir þá sem þurfa að búa við þessa vegi.

Það er líka mikilvægt að horft verði til þess í samgönguframkvæmdum að tengja saman byggðarkjarna og byggðarlög en ekki einungis styttingu á þjóðvegi 1. Sem dæmi um slíka framkvæmd má nefna Skógarstrandarveg og veginn um Laxárdalsheiði sem mun tengja saman svæði frá Stykkishólmi á Snæfellsnesi í Búðardal og Hvammstanga í Austur-Húnavatnssýslu. Það er ljóst að með slíkri framkvæmd yrðu forsendur samstarfs og sameiningar sveitarfélaga gerbreyttar frá því sem er í dag.

Fjarskiptaöryggi á þjóðvegum landsins þarf að vera í forgangi á næstu árum en að öllum ætti að vera ljóst að sú staða sem uppi er nú víða, þar sem ekkert eða stopult farsímasamband á löngum köflum, er með öllu óboðleg. Samhliða þeirri uppbyggingu þarf að ráðast í að útrýma svörtum blettum í Tetra-fjarskiptakerfi viðbragðsaðila hér á landi.

Verulegar ógnir blasa nú við matvælaframleiðslu og þróun matvælaverðs og því ber að fagna vinnu matvælaráðherra um skilgreiningu á fæðuöryggi landsmanna. Við blasir að framboð matvæla og hækkun á hráefnum — og líkur á að skortur verði viðvarandi á næstu misserum. Þessi þróun mun hafa veruleg áhrif á lífskjör almennings sem verja þarf stærri hluta tekna sinna til matarkaupa. En verkefnið er ekki síður að verja afkomu framleiðenda og getu þeirra til að framleiða. Það er ljóst að í núverandi ástandi hefur framleiðsluvilji bænda í kjötframleiðslu sérstaklega farið mjög dvínandi og ef ekkert verður að gert mun hann hverfa mjög hratt og við okkur mun blasa grafalvarleg staða gagnvart bændum og íslenskri matvælaframleiðslu. Meta þarf með markvissum hætti hvernig og hvort hægt er að styðja við frumframleiðendur til að halda getu þeirra til framleiðsluvilja.

Það er ekki eingöngu vandamál bænda og afurðastöðva að takast á við þennan vanda. Vinna þarf á breiðari grunni og á grundvelli til að halda utan um matvælaframleiðslu í landinu, bæði til að efla og bæta fæðuöryggi og verja byggð. Þetta er nefnilega eitt stærsta byggðamálið sem við erum að fást við hér í dag, þ.e. sú staða sem ég var að fara hér yfir áðan og tíminn vinnur ekki með okkur í því efni. Landbúnaður er nefnilega grundvallarþáttur í loftslagsmálum og mikilvægt er að treysta á framþróun íslensks samfélags í jafnvægi í samlífi manns og náttúru. Sterkar vísbendingar eru um að sækja megi með öflugum rannsóknum á sviði landbúnaðar og landnýtingar meiri árangur í loftslagsmálum. Aukin innlend grænmetisframleiðsla sem dregur úr innflutningi, bætir nýtingu og meðhöndlun áburðar og bætt fóður búfjár styður við þá þróun að draga úr neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga af mannavöldum. Til að sækja megi fram með grænni, loftslagsvænni landbúnaði er mikilvægt að hafa skýra sýn og markmið. Mikilvægt er að nýta búvörusamningana með náttúruvernd að leiðarljósi sem umbunar jafnframt bændum fyrir árangur.

Sjávarútvegurinn er ein af burðarstoðum efnahagslífsins og byggðar í landinu. Það er mikilvægt að treysta greinina á sama tíma og litið er til framtíðar. Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og sjávarútvegsins að umgjörð greinarinnar byggi á sjálfbærni. Í kjölfar stríðsreksturs Rússa í Úkraínu hefur fiskverð hækkað umtalsvert með tilheyrandi tekjuaukningu til handa sjávarútvegsfyrirtækjum, bæði í útgerð og fiskeldi, þótt það sé líka ljóst að rekstrarskilyrði þessara fyrirtækja hafa einnig versnað með hækkandi olíuverði og öllum aðföngum. En engu að síður er ljóst að bætt afkoma í greininni mun skila hærri veiðigjöldum sem lögð eru sérstaklega á sjávarútveg til ríkissjóðs. Þannig munu þeir aðilar sem hagnast mest á hækkandi afurðaverði á alþjóðlegum mörkuðum leggja meira af mörkum í sameiginlega sjóði.

Það er mikilvægt að sátt náist til framtíðar um þessar mikilvægu atvinnugreinar okkar og ber ég miklar væntingar til þeirrar vinnu sem matvælaráðherra hefur nú sett á fót með starfshópi um framtíð sjávarútvegsins hér á landi.

Jákvæð hagræn áhrif fiskeldis aukast ár frá ári, hvort sem litið er til byggðaáhrifa eða aukningar í útflutningsverðmætum landsins. Það er mikilvægt að hugað verði sérstaklega að sóknarfærum í fiskeldi til frekari verðmætasköpunar með frekari rannsóknum. Að mínu mati er einnig ljóst að taka þarf upp það regluverk sem um atvinnugreinina ríkir. Meiri fyrirsjáanleiki þarf að vera fyrir þau sveitarfélög sem hýsa fiskeldi og betur þarf að koma til móts við þau hvað varðar uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum sem til eru komnir vegna vaxandi umsvifa og uppbyggingar fiskeldisfyrirtækja og fjölgunar íbúa. Ljóst er að mínu mati að regluverk Fiskeldissjóðs þarf að endurskoða með hliðsjón af þessu.

Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem vaxið hefur hraðast á undanförnum árum. Segja má að atvinnugreinin sem ein helsta útflutningsgrein landsins hafi slitið barnsskónum. Allar stefnumarkandi ákvarðanir til lengri tíma verða að byggja á traustum grunni og því hvernig ná má meiri festu í atvinnugreininni og meiri verðmætasköpun. Mikilvægt er að horft verði í auknum mæli til rannsókna á sviði ferðaþjónustu og byggja þarf undir slíkt starf.

Auknar rannsóknir á sviði orkumála eru einn af meginþáttum í orkuskiptum og loftslagsmálum. Því er mikilvægt að festa í sessi þá hækkun fjárheimilda sem gerð var í fjárlögum 2022. Stór og mikilvæg verkefni á sviði raforkudreifingar líða fyrir hindranir í leyfismálum og ákvarðanatöku. Í áætluninni er haldið áfram að styðja við uppbyggingu dreifikerfis raforku í dreifðum byggðum. Áhersla hefur verið á jöfnun dreifikostnaðar og aðgengi að traustu dreifikerfi. Í landi þar sem orkuskipti, t.d. í samgöngum, hafa komist á skrið, vakna mikilvægar pólitískar spurningar um aðgengi fólks og fyrirtækja að traustum tengingum við raforkukerfi og raforkuöryggi. Verulegum fjármunum er varið í að jafna dreifikostnað og næst sjaldnast að ná markmiðum um jafnræði sem þó er þegar bundið í lög. Orkuskiptin eru verkefni allrar þjóðarinnar og mikilvægt að fjármagnið og regluverkið styðji við það. Aðgengi fyrirtækja og byggðarlaga að raforku er víða hamlandi þegar kemur að búsetuöryggi og verðmætasköpun. Dæmi eru um að ekki fáist raforka eða tenging í heilu bæina. Jafnvel eru heimili í dreifbýli sem ekki eru tengd dreifikerfinu og orkuskipti því ekki til staðar fyrir alla landsmenn.

Mjög mismunandi er milli sveitarfélaga hve mikinn kostnað sveitarfélög bera af rekstri dreifnáms sem eru útibú framhaldsskóla landshlutanna. Þá hefur sú jákvæða þróun orðið að fleiri ungmennum gefst nú kostur á að sækja sér framhaldsnám í sinni heimabyggð óháð tilteknum framhaldsskóla. Með bættum búnaði og fjarskiptum hafa opnast nýir möguleikar á enn meiri fjölbreytni í námsframboði. Þetta er alveg gríðarlega mikilvægur punktur og … (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Forseti hyggst spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni.)

— Nei, það eru svona þrjár mínútur.

(Forseti (BÁ): Forseti biður hv. þingmann að gera hlé á ræðu sinni. En athygli forseta hefur verið vakin á því að efnahags- og viðskiptanefnd er enn að funda og það eru uppi óskir um að þingfundi verði ekki fram haldið meðan sá fundur stendur þannig að forseti biður hv. þingmann að gera hlé í stutta stund meðan við finnum út úr þessu og hv. þingmaður getur síðan lokið ræðu sinni þegar þingfundur hefst að nýju.)

— Það er bara sjálfsagt að verða við beiðni hæstv. forseta.

(Forseti (BÁ): Forseti þakkar hv. þingmanni fyrir að vera samvinnuþýður í þessu efni. Ég mun gera hlé á þessum þingfundi á meðan verið er að finna út úr þessu með nefndarfundinn sem stendur enn þá yfir en átti að vera löngu lokið. — Fundi er þá frestað í 15 mínútur þar til kl. korter yfir átta.)