Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar við þessa síðari umræðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að koma inn á nokkur atriði sem ég held að sé nauðsynlegt að hafa í huga núna þegar við afgreiðum fyrstu fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar. Fyrst er rétt að halda því til haga að tíminn sem okkur er skammtaður hér undir þinglok til að ræða þetta gríðarlega yfirgripsmikla mál er auðvitað knappur og það má segja að það sé allt á sömu bókina lært núna undir þinglok; því stærri og umfangsmeiri sem málin eru því knappar er tíminn skammtaður. En það er þó þannig, sem betur fer, að það er rýmri tími gefinn varðandi fjármálaáætlun en önnur þau stóru mál sem ætlunin er af hendi stjórnarmeirihlutans að klára núna á lokasprettinum þar sem m.a. hafa komið fram gríðarmiklar breytingar á málum eftir að þinglokasamningar voru undirritaðir af sjö af átta þingflokkum þingsins En í því ljósi þá held ég, til að við lærum af því fyrir næstu ár, að ríkisstjórnin verði að hafa betri hátt á og koma fyrr inn með stóru málin svo hægt sé að eiga ígrundaða umræðu og gera athugasemdir sem nauðsynlegar eru.

Frú forseti. Mig langar að tæpa á nokkrum atriðum til að byrja með og snúa að stefnu og sýn ríkisstjórnarinnar til kjörtímabilsins alls. Þó að áætlunin nái fram yfir líftíma ríkisstjórnarinnar þá verður að skoða þetta sem heildstæða sýn á þau verkefni sem ríkisstjórnin ætlar að takast á hendur. Við þekkjum umræðu síðustu vikna sem var töluverð mikil í kringum sveitarstjórnarkosningar og þá sérstaklega kosningar til borgarstjórnar þar sem ráðherrar riðu um héruð, hverfi Reykjavíkurborgar, og skrifuðu undir viljayfirlýsingar með þeim sveitarstjórnarfulltrúum sem pössuðu á móti. Ein þeirra varðaði þjóðarleikvang, þjóðarhöll í Laugardal, sem síðan kom á daginn að hvergi var getið í fjármálaáætluninni. Annað laut til að mynda að endurgreiðslu kostnaðar vegna kvikmyndaframleiðslu á Íslandi og fleira slíkt. Þetta plagg er leiðarvísir og gefur nokkuð glögga mynd af því hvert ríkisstjórnin ætlar sér. Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum umræðan um það hversu illa virðist hafa tekist til við að innleiða og framkvæma hin ýmsu átaksverkefni ríkisstjórnarinnar á liðnu kjörtímabili sem snúa að framkvæmdum, sérstaklega verklegum framkvæmdum; dvalarheimili, vegaframkvæmdir, Landspítali – háskólasjúkrahús og svo mætti lengi telja. Alls staðar er framkvæmdahlutinn verulega á eftir. Það skýrir kannski hversu auðvelt það reynist ríkisstjórninni núna að gera tillögu um það, í tengslum við nefndarálit meiri hluta, að draga umtalsvert úr framkvæmdahluta fjárveitinga. Það gerist í raun í skjóli þess að mikið uppsöfnuð inneign er á framkvæmdaliðnum þar sem ekki hefur tekist að koma verklegum framkvæmdum áfram. Þetta er auðvitað hlutur sem við þurfum að skoða í samhengi við getu verktaka, flækjustig í skipulagsmálum og regluverk byggingargeirans og mannvirkjageirans sem er orðið svo flókið, svo ekki sé nú talað um það nálarauga sem þarf að þræða stórar verklegar framkvæmdir í gegnum á forsendum umhverfismats. Við erum komin á þann stað að ég held að við verðum að horfa heildstætt á málin og reyna að átta okkur á hvað það er sem líklegt er til að koma málum á hreyfingu aftur. Það er óhollt bæði fyrir fyrirtæki landsins, innviðina og heimili og í rauninni ríkissjóð að jafn illa gangi og raunin er með að koma innviðaframkvæmdum áfram og á koppinn. Það er í rauninni sorglegt núna, ef við horfum bara á flóru öflugra verktakafyrirtækja sem eru að störfum í dag, að hún er ekkert mikið fjölbreyttari, því miður, en á fyrstu árunum eftir hrun. Það segir manni að það vantar kjarkinn til þess að byggja upp ný öflug félög, stækka lítil og millistór félög og þar fram eftir götunum, af því að óvissan er svo mikil varðandi umfang framkvæmda hverju sinni. Tafir og annað slíkt — við þekkjum nú bara þrautagöngu vegaframkvæmda í Teigsskógi — eru þannig að það þarf býsna öflug og vel fjármögnuð fyrirtæki til þess að ráða við slíkt hökt. Í því ljósi vil ég hvetja ríkisstjórnina til þess að reyna að koma með tryggari framtíðarsýn en við höfum notið núna um alllangt skeið. Staðreyndin er sú að með samgönguáætlun, annars vegar framkvæmdaáætlun til fimm ára og hins vegar langtímaáætlun til 15 ára, þá á sýnin að vera nokkuð vel innrömmuð en raunin er önnur. Það er gríðarlega mikil hliðrun innan þess kerfis, ef svo má segja, þ.e. samgönguáætlunar, á verkefnum og fjármunum. Það gerir að verkum að við finnum okkur í þeirri stöðu eins og núna er að það er gríðarlegar uppsafnaðar fjárveitingar sem hefur ekki tekist að koma í vinnu, hefur ekki tekist að komast í verkefni. Sama á við þegar við horfum á uppbyggingu dvalarheimila landið um kring, það var blásið til mikillar sóknar 2011, 2012, eitthvað svoleiðis, þar sem átti að spýta verulega í og halda síðan áfram. En við þekkjum öll á umræðunni og biðlistum og því hvernig brennur á að það er mjög fjarri því að tekist hafi að koma slíkum verkefnum áfram.

Síðan eru mál sem snúa að almennum innviðaframkvæmdum. Ef við horfum t.d. bara á flutning rafmagns þá hefur ekkert þokast frá því í aðventuóveðrinu í desember 2019. Þá voru uppi mikil áform í framhaldinu um að einfalda regluverk og gera það einfaldara að eiga við framkvæmdir, línulagnir, koma rafmagni á milli svæða, styrkja byggðalínuna og þar fram eftir götunum. Við þekkjum þetta allt saman. En staðreyndin er sú að enn daga verkefni sem þessi uppi hér. Hvort það er um að kenna ósætti milli stjórnarflokkanna eða andstöðu annars staðar í þinginu eða hreinlega bara í kerfinu, ég átta mig ekki alveg á því, en allt þetta gerir okkur erfiðara fyrir með að nýta þá orku sem við framleiðum með hagkvæmustum hætti. Það gerir okkur erfiðara fyrir að tryggja að þessar svæðisbundnu eyjur virki hvað raforkuflutning varðar þannig að raforkuöryggi sé með forsvaranlegum hætti.

Allir þessir þættir sem ég hef talið upp núna eru þeirrar gerðar að enginn, sem hefur skilning á því að rafmagnið verður ekki til í innstungunni eða kjötið í frystinum í Bónus, velkist í vafa um að þessar framkvæmdir og það að ná utan um þennan framkvæmdahluta opinbera kerfisins er eitt það mikilvægasta sem við okkur blasir akkúrat núna. Því miður hræða sporin illilega frá síðasta kjörtímabili og mér finnst ekki hafa tekist vel til á þessu fyrsta þingi þessa kjörtímabils hvað þetta varðar. Fyrir þá sem hlusta þá vil ég hvetja ríkisstjórnina til þess að færa mál til betri vegar því að staðan eins og hún er núna er algjörlega óásættanleg. Um leið og ég segi þetta þá held ég að það sé enginn þingmaður sem situr á þingi núna sem heldur því fram að staða innviða á Íslandi, ef við horfum á þessa grunninnviði; vegi, samgöngumannvirki, hafnir, flugvelli, flutningskerfi raforku, svo dæmi sé tekið, sé þannig að þessum kerfum hafi verið viðhaldið og þau endurnýjuð og framkvæmt innan þeirra með þeim hætti sem nauðsynlegt á síðustu tíu árum, skulum við segja. Innviðaskuldin safnast hratt upp. Það er miklu auðveldara að sýna fram á góðan árangur í hagtölum ef þú leyfir innviðaskuldinni að vaxa jafnt og þétt og setur kíkinn fyrir blinda augað hvað varðar viðhaldsþörfina og endurfjárfestingarþörfina. Það er ekki bara að hún vaxi ár frá ári heldur bætir enn í vegna þess að viðhaldi er ekki sinnt.

Það sama á við um fjármál ríkisins, svo ég fari yfir í aðra þætti. Við þekkjum sjónarmið sem Grái herinn til að mynda hefur sett fram. Niðurstaða útreikninga þeirra er að af ellilífeyrisþegum landsins séu hafðir rúmir 45 milljarðar á ári á grundvelli skerðinga sem Grái herinn telur óréttmætar. Það einfaldar mjög að láta bókhaldið líta vel út ef slíkur liður, einn og sér með mjög umdeildum skerðingum, lækkar árleg útgjöld um 45,5 milljarða, minnir mig að talan sé.

Ef við bætum ofan á innviðaskuldina sem safnast upp jafnt og þétt þá erum við að tala um heildaráhrif af þáttum sem þessum upp á gríðarlegar upphæðir. Á sama tíma leggur fjármálaráðherra fram fjárlög þar sem eru sérstaklega teknir saman skattafslættir — skattstyrkir, held ég að sé hugtakið sem er notað þar — og það er gengið svo langt að þar er því haldið fram að á vöru sem er í lægra virðisaukaskattsþrepi sé sérstakur afsláttur ríkissjóðs, að munurinn á hærra og lægra skattþrepinu sé sérstakur afsláttur ríkissjóðs. Þarna kemur í gegn þessi sýn að ríkissjóður eigi þetta allt saman með einum eða öðrum hætti. Við séum einhvern veginn eins og hamstrar á hjóli, landsmenn og fyrirtæki, sem höfum það eina hlutverk að skila sem mestu af því sem við ávinnum okkur með okkar störfum í ríkissjóð sem á þetta allt á endanum hvort sem er. Þetta er einhver sýn sem ég skil ekki að sé viðvarandi og innprentuð í ríkisstjórn sem hefur að svona miklu leyti undanfarinn áratug rúman verið undir forystu Sjálfstæðisflokksins hvað fjármálaráðuneytið varðar. Ég held að við verðum með einhverjum hætti að koma okkur út úr þessu fari.

Ef við förum aðeins yfir í málefnasviðin þá eru mér hugleikin samgöngu- og fjarskiptamál, 11. liður áætlunarinnar. Þó að skorið sé niður núna í framkvæmdahlutanum er kannski fyrst og fremst verið að skera niður inneign sem hefur myndast á uppgjörsreikningum Vegagerðarinnar. Hér og þar er eflaust eitthvað til viðbótar en í meginatriðum liggur þetta þar, held ég. Hæstv. innviðaráðherra svaraði loksins skriflegri fyrirspurn sem ég sendi til hans fyrir löngu síðan sem hefur tekið hartnær ár að svara, þar sem var reynt að draga fram hvernig framlög til vegagerðar hefðu þróast að teknu tilliti til umferðar og þróunar á vergri landsframleiðslu. Þá kemur auðvitað fram allt önnur mynd en þegar verið er að bera saman tímabil, krónu fyrir krónu, hvað framkvæmdaþætti varðar, og verðlag aðlagað að sjálfsögðu, þar sem í fyrsta lagi er verið að bera saman tímabil og framkvæmdir þar sem, eins og við þekkjum, framkvæmdir verða dýrari jafnt og þétt, einfaldlega vegna aukinna krafna í umhverfismálum, í öryggismálum og hinum ýmsu þáttum sem snúa að hönnun. Jafnt og þétt verða vegaframkvæmdir þannig dýrari. Myndin sem teiknaðist upp í þessu svari var sú að það er verið að veita miklu minni fjármuni til nýframkvæmda á vegum en áður var ef við tökum tillit til umferðar og þess hvernig verg landsframleiðsla hefur þróast. Mér þótti gott að þessar upplýsingar lægju fyrir því að þær auðvelda okkur að ræða þessi mál á grundvelli staðreynda. Það kom auðvitað á daginn það sem mann grunaði. Allar yfirlýsingar um mestu framkvæmdaár allra tíma á á liðnu kjörtímabili voru á misskilningi byggðar því að auðvitað verðum við að skoða þetta í samhengi við það samfélag sem er verið að þjónusta. Það hefur náttúrlega gríðarlegur fjöldi ferðamanna bæst á vegakerfið með þeim áhrifum sem það hefur og orðið ofboðsleg aukning í þungaflutningum, sem er auðvitað bara hluti af því að styðja við þá verðmætasköpun sem er að eiga sér stað í samfélaginu. Við þekkjum það nú best vestan af fjörðum, alla þá miklu flutninga þaðan á laxi.

Ég held að það sé ekki hægt að fara í gegnum þessa umræðu öðruvísi en að nefna orku- og umhverfismál. Þar hefur mér þótt í umhverfishlutanum fókusinn ekki alltaf vera réttur. Það fer gríðarleg orka í að eiga við þá hluta umhverfismálanna sem eru dálítið að þróast af sjálfu sér, eins og nýorkuvæðing bílaflotans þar sem þróun í framleiðslu erlendis og í hönnun og þróun bíla hjá stóru framleiðendunum ræður miklu meiru en ákvarðanir sem við tökum hér upp á það hvort og hvenær verður raunhæft að losna við bíla sem eru knúnir af jarðefnaeldsneyti. Til þess að hægja á þeirri þróun voru auðvitað teknar mjög undarlegar ákvarðanir hér í desember síðastliðnum sem snúa að tengiltvinnbílum. En það er umræða sem ég hef eytt allt of mörgum orðum í hingað til og ég vona að núna við þessi þinglok klárist í öllu falli að stækka kvótann sem snýr að rafmagnsbílunum eins og lofað hafði verið og gengið út frá.

Loftslagsmálin verða ekki leyst nema á forsendum rannsókna og þróunar. Við eigum að styðja við slíka vinnu en við eigum ekki að eyða orkunni í það að banna plastpoka, koma papparörum í munn allra landsmanna og þar fram eftir götunum. Á sama tíma eigum við að taka ábyrgð á eigin sorpi og vinna hér að innleiðingu lausna á grundvelli þingsályktunartillögu Miðflokksins sem hefur verið lögð ítrekað fram, fyrst af fyrrverandi þingmanni, Karli Gauta Hjaltasyni, og síðan af þeim sem hér stendur á nýju þingi. Þar horfum við til þess að nýta okkur hátæknilausnir í sorpbrennslu. Mig minnir að það sé á Amager í Kaupmannahöfn, þar sem snyrtilegasta húsið á svæðinu er sorpbrennslan og skíðabrekka á þakinu í þessu fjallalausa landi. Hvað umhverfismálin og loftslagsmálin varðar þá verðum við að fara að einsetja okkur að setja orkuna og peningana þangað sem við gerum mest gagn, ekki eltast við sýndarmennsku í þessum efnum.

Síðan þegar kemur að orkumálunum þá er ánægjulegt að nú sé loksins eftir hark frá 2016 að takast að afgreiða rammaáætlun ef fram heldur sem horfir. En ég vil samt halda til haga þeirri gagnrýni minni að það er ótækt að rammaáætlunin sé að koma til umræðu núna á lokadögum þingsins og eftir að þinglokasamningar við sjö af átta þingflokkum voru undirritaðir þá komi fram býsna mikil breyting í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, sem reyndar ekki allur meiri hlutinn stendur að. Bara upp á verklag þingsins og samvinnuna hér inni þá held ég að það geti haft neikvæð áhrif til lengri tíma.

En þá að orkumálunum sjálfum. Það er auðvitað æði sérstakt að á sama tíma og Vestur-Evrópa kallar á orku og verður að verða sér úti um meiri orku til að losna undan ægivaldi viðskipta við Rússland, bæði í formi olíu og gass, þá séum við hér heima ekki bara að banna olíuvinnslu í landgrunninu heldur að banna rannsóknir. Þetta er svo galið. Horfum til frænda okkar í Noregi sem fyrir bara nokkrum vikum síðan gáfu út, ef ég man rétt, 54 ný rannsóknar- og vinnsluleyfi fyrir olíu, 54 ný leyfi. Á sama tíma erum við hér í einhverjum bjánaskap að banna rannsóknir. Ef það eru einhver forréttindi sem íslenska þjóðin nýtur þá er það aðgengið að endurnýjanlegri orku. Ég held að við séum farin að nálgast þessi forréttindi, sem ég leyfi mér að kalla svo, af ákveðnu virðingarleysi. Á sama tíma og þjóðirnar sem við helst lítum til og berum okkur saman við eru að gera allt sem þær mögulega geta til að auka orkuframleiðslu og gera allt, við mikinn kostnað úr ríkissjóðum landanna, til þess að auka hlut grænnar orku, þá leggjumst við þver hér heima á Íslandi. Það þarf fjórar atrennur til að koma rammaáætlun í gegnum þingið og þegar rammaáætlun er afgreidd er tekinn slagur um hvern einasta þátt nýtingarflokks. En það má ekki nefna verkefnin sem fara í verndarflokk einu orði eftir að kostur er kominn þangað. Við verðum að komast út úr þessu. Við megum ekki setja okkur á svo háan hest, ef það er einhver meining manna með áhyggjum af loftslagsmálum og hlýnandi veðurfari og það er einhver tiltrú á að þær aðgerðir sem er verið að grípa til hafi einhver áhrif, við getum ekki skilað auðu hvað það varðar að nýta þær orkuauðlindir sem eru hér í bakgarðinum hjá okkur. Það blasir við hvað við eigum marga góða vatnsaflskosti ónýtta, hvað við eigum marga góða jarðhitakosti ónýtta. Það er einhver forréttindablinda, svo ég noti hugtak sem mér er kannski ekki tamt að nota en ég ætla að leyfa mér að nota í þessu samhengi, að hafna því hlutverki okkar að framleiða græna umhverfisvæna orku. Við sjáum bara áhrifin sem það hefur á galtóman borgarsjóð t.d. þar sem allt í einu falla inn milljarðar sem enginn gerði ráð fyrir vegna hækkunar á álverði. Við erum ekki bara að framleiða grænustu orku sem hugsast getur heldur er á Íslandi framleitt grænasta ál í heimi. Við eigum að vera stolt af þessu, ekki sífellt á flótta og reyna að tala sjálf okkur niður eins og svo margir gera að mér þykir.

Skilaboðin sem ég vil leggja inn í þessa umræðu eru: Við verðum að setja meiri fókus á verðmætasköpun og að aukin verðmætasköpun sé jákvæð í öllu tilliti, leyfi ég mér að segja. Án verðmætasköpunar, án öflugra fyrirtækja sem geta borgað góð laun, skilað arði, fjárfest og þetta allt saman, verður engin velferð í þessu þjóðfélagi. Það verður ekkert betra velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi, það verður ekki öflugra menntakerfi o.s.frv. Þetta byggir allt á því að við nýtum auðlindir landsins og hugvitið sem í okkur býr og gerum það mesta úr því. Ef við gerum það ekki þá er tómt mál um að tala og gagnrýna að það sé verið að draga úr fjárveitingum í þetta og hitt í fjármálaáætlun til fimm ára eða fjárlögum hvers árs. Við verðum að setja fókusinn á verðmætasköpun. Það er eina leiðin fram á veginn.

Mig langar að fara örsnöggt inn á heilbrigðismálin. Það eru nokkrir liðir fjármálaáætlunar sem falla þar undir. Ég vil sérstaklega nefna málefni eldra fólks og dvalarheimilin og skort á rýmum þar og hversu illa hefur tekist að framfylgja þeim markmiðum sem sett voru. Þau hafa einhvern veginn lifað áfram en aldrei komist í framkvæmd. Við þekkjum, hvert okkar úr sínu sveitarfélagi og nærsvæðum, að það er alls staðar sama sagan. Aldraðir komast ekki inn á dvalarheimili fyrr en, ég ætla ekki að segja að það styttist í líknandi meðferð en svona þegar ástand og líkamleg heilsa er orðin mjög slæm. Þetta er ekki það umhverfi sem við viljum búa eldri borgurum þessa lands. Á meðan menn koma sér ekki af stað og ná í skottið á sér hvað uppbyggingu dvalarheimila varðar þá verður að auka fjölbreyttari þjónustu sem gerir fólki mögulegt að lifa með reisn heima hjá sér til þess tíma að pláss er til reiðu. En við erum á sama stað með þessi mál, því miður, og með svo margt annað í heilbrigðiskerfinu hjá okkur. Á undanförnum misserum hafa biðlistar fátt gert annað en lengjast jafnt og þétt. Það er ekkert sem bendir til annars en að það haldi í rauninni áfram. Inni í þessum kerfum er alveg ofboðsleg sóun eins og við þekkjum bara af umræðunni um svokallaðan fráflæðisvanda á Landspítalanum, ég ætla ekki eyða tíma í að fara yfir hvað það þýðir, við þekkjum það öll. Það er verðmætaleki út um allt sem gerir ekki neitt annað en að skapa tjón, bæði líkamlegt, andlegt og fjárhagslegt tjón hjá heimilum landsins, fyrirtækjum og ríkissjóði.

Undir lok þessarar ræðu vil ég nefna stuttlega húsnæðis- og skipulagsmál. Ég held að það hafi verið til mikilla bóta, sennilega eina breytingin á Stjórnarráðinu sem er til bóta, að skipulagsmál, mannvirkjamál og málefni sveitarfélaga hafi verið færð undir sama ráðuneyti. En þá er líka nauðsynlegt að nota samhæfinguna sem í því felst til að bæta kerfið. Það lagast ekkert við það að kerfið sé allt komið undir sama hatt ef kerfið er ekki lagað. Þetta þurfum við að gera til þess að ná því fram sem ég nefndi í byrjun ræðu minnar, að auðvelda framkvæmdir, bæði stórar og litlar opinberar framkvæmdir (Forseti hringir.) og ekki síður framkvæmdir einkaaðila, t.d. er varðar uppbyggingu húsnæðis landið um kring sem vantar svo sárlega þessi árin.