Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Nú þegar við ræðum tillögu til fjármálaáætlunar fyrir árin 2023–2027 er ekki annað hægt en að byrja á því að setja þetta í samhengi við aðstæður. Við ræðum þetta mál nú eftir að þingstörfum átti að vera lokið, þetta stóra mál sem þingið hefði eflaust viljað verja allmörgum dögum í að fara almennilega yfir. Enda sýnir reynslan að fjármálaáætlanir hafa oft og tíðum ekki staðist og ef hugsanlega þingið hefði fengið betri tíma til að fara í gegnum þær í gegnum tíðina hefði mátt lagfæra þær eitthvað. En að þessu sinni er þetta alveg einstaklega seint fram komið og þingið hefur mjög lítið svigrúm, raunar er búið að semja tækifæri flestra þingmanna frá þeim til að ræða þetta mál eins og svo mörg önnur sem eru enn óafgreidd á þessu þingi. Fjármálaáætlun, jafnvel þó að hún hafi komið fyrr fram en í þetta skiptið, hefur ítrekað ekki staðist hjá þessari ríkisstjórn og fyrir því kunna að vera ýmsar ástæður. Að sjálfsögðu skal ekki lítið gert úr því að heimsfaraldurinn, sem í rauninni tók samfélagið að miklu leyti úr sambandi í tvö ár, hafði sitt að segja en bæði fyrir þann tíma og eftir hafa áætlanir þessarar ríkisstjórnar ekki staðist og fjármálaáætlun oft og tíðum verið notuð fyrst og fremst til þess að útskýra það hvað ríkisstjórnina langar að gera til lengri tíma litið og að færa erfiðari aðgerðir, sparnað og slíkt, fram í tímann en geta sérstaklega auðvitað í aðdraganda kosninga, eins og dæmin sanna, varið meiri peningum í framkvæmdir til skemmri tíma.

Það er talandi um þetta mjög áhugavert að sjá töflu í þessari þingsályktunartillögu sem lýsir því hvernig ríkisstjórnin ætlar í ljósi breyttra aðstæðna að spara á ýmsum sviðum en sparnaðurinn á einu sinni sem oftar fyrst og fremst að koma fram eftir næstu kosningar. Það er auðvelt fyrir ríkisstjórn að spara fyrir komandi ríkisstjórn eða lýsa áformum um sparnað eftir kosningar en kannski erfiðara að bera ábyrgð á því að spara til skemmri tíma. Þannig sjáum við hér, frú forseti, í þessari töflu sem ég vísaði til, að hlutir á borð við æðstu stjórn ríkisins, utanríkismál, samgöngu- og fjarskiptamál alveg sérstaklega, menningu, listir, íþrótta- og æskulýðsstarf, framhaldsskólastigið, háskólastigið, önnur skólastig, stjórnsýslu, mennta- og barnamál, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, til að nefna dæmi — hér á að eiga sér stað verulegur sparnaður en hann á að koma til eftir fimm ár eða svo. Á meðan ætlar ríkisstjórnin að halda sínu striki eftir því sem hún best getur nema hvað, auknar álögur verða lagðar á borgarana. Þetta mun vera gert í ljósi breyttra aðstæðna, og aðstæður eru vissulega breyttar, en af því að sérstaklega er vísað í stríðið í Úkraínu, og ekki að ástæðulausu, þá hófst það stríð því miður ekki núna í síðustu viku. Það hefur staðið núna í hátt í fjóra mánuði og þess vegna er sérkennilegt að ríkisstjórnin komi nú fram með þessa tillögu sem hún kynnir eins og eitthvað sem hafi verið sett saman í flýti til þess að bregðast við óvæntum aðstæðum. En áður en stríðið hófst og þær miklu afleiðingar sem það hefur haft á efnahag Íslands og annarra vestrænna ríkja þá var þegar orðið ljóst að áætlanir ríkisstjórnarinnar gengju ekki upp. Það var þegar komin af stað verðbólga til að mynda og fyrirtæki áttu þegar í vandræðum vegna þeirra miklu gjaldahækkana sem þau höfðu staðið frammi fyrir frá því að þessi ríkisstjórn tók við nánast. En þetta er kynnt sem leið, þessi tillaga, til að bregðast við þessum sérstöku aðstæðum.

Það að bregðast við verðbólguskoti, óvenju mikilli verðbólgu síðustu misseri og væntanlega jafnvel enn meiri verðbólgu næstu misseri, með því að hækka enn álögur á íbúa landsins, sem fá minna fyrir launin sín, þurfa að borga meira fyrir vörur og þjónustu, er óneitanlega dálítið sérkennileg nálgun hjá þessari ríkisstjórn. Á sama tíma hefur hún ekki tekið í mál að koma til móts við almenning með því að lækka álögur á hann þar sem það væri hægt og hefur verið gert reyndar í ýmsum Evrópulöndum, til að mynda þær miklu álögur sem leggjast nú á eldsneyti. Það er mikilvægt að hafa í huga að eldsneytisverð hefur ekki bara áhrif á heimilin, á fólk sem þarf að komast leiðar sinnar á bíl, þó að það hafi mjög mikil áhrif þar á heimilisbókhaldið, lán heimilanna fyrir vikið og o.s.frv., þetta hefur í rauninni áhrif á allt hagkerfið. Orkukostnaður dreifist. Hækkun á orkukostnaði dreifist líklega meira en flest annað hratt út um hagkerfið því að orka kemur alls staðar við sögu, í flutningum á vörum og í flutningum vegna þjónustu og tannhjól hagkerfisins eru smurð með orku. Þótt við Íslendingar séum svo heppnir að eiga mikið af endurnýjanlegri orku og nýtum hana til að framleiða rafmagn að mestu leyti og getum hitað 90% húsa í landinu með jarðvarma þá breytir það því ekki að eldsneyti kemur eiginlega alls staðar við sögu í hagkerfinu. Svoleiðis að það að ríkisstjórnin skuli hafa jafnt og þétt aukið gjaldtöku, álögur á eldsneyti og þar með í rauninni dregið úr ráðstöfunartekjum heimilanna eftir að búið er að kaupa nauðsynlegt eldsneyti og þar með hækkað hina ýmsu vöru og þjónustu og svo bætt á öllum þessum grænu gjöldum — frú forseti, það er nú enginn endir á því hvað menn geta fundið upp af nýjum gjöldum og að því er virðist tekjustofnum að mati ríkisstjórnarinnar og kalla þau svo bara græn og nota það sem afsökun fyrir því að hækka álögur á almenning — allar þessar hækkanir og nýju gjöld hafa auðvitað ýtt undir verðbólgu, verðhækkanir í samfélaginu svo að núna þegar kemur þetta mikla verðbólguskot, m.a. vegna ástandsins í Evrópu, þá er mjög skrýtið að ríkisstjórnin skuli ekki einu sinni hugleiða það að draga aðeins úr þessari viðbótarskattlagningu sem gæti strax haft töluverð áhrif, áhrif sem, eins og ég nefndi áðan, myndu fljótt dreifast út um allt hagkerfið og m.a. halda aftur af hækkun verðtryggðra lána.

Við sjáum líka í þessari áætlun það sama og við höfum séð aftur og aftur í áætlunum ríkisstjórnarinnar, en alltaf verið að bíða eftir að breyttist, að það er ekki staðið við þau fyrirheit sem gefin hafa verið, fyrirheit sem voru gefin jafnvel fyrir mörgum árum síðan. Þar ætla ég einkum að nefna tvennt. Annars vegar þau loforð sem eldri borgarar fengu á sínum tíma um að dregið yrði úr skerðingum eða ákveðnar skerðingar afnumdar og hlutur þeirra réttur. Ég lofaði því sjálfur árið 2014 á 17. júní hérna úti á Austurvelli að ríkisstjórnin myndi leiðrétta kjör eldri borgara og takast á við þessar skerðingar sem höfðu verið settar á kjörtímabilið á undan þegar búið væri að ráðast í þær stóru efnahagsaðgerðir sem þá stóðu fyrir dyrum og við sæjum til lands með stöðu ríkissjóðs. Þessar aðgerðir heppnuðust og það held ég betur en okkur þorði að vona en enn hefur ekki verið staðið við þetta loforð gagnvart eldri borgurum. Það hefur þó verið ítrekað nokkrum sinnum, m.a. núverandi hæstv. fjármálaráðherra sendi slík loforð út í pósti fyrir síðustu kosningar, en enn skortir algerlega á það í þessari fimm ára áætlanagerð ríkisstjórnarinnar eitt árið enn að komið sé til móts við eldri borgara og hlutur þeirra leiðréttur.

Hitt atriðið sem mér hefur þótt vanta aftur og aftur hjá þessari ríkisstjórn — ég verð reyndar, frú forseti, að nefna fleiri líklega en þetta eru þau tvö sem ég vildi byrja á — varðar byggðamálin, byggðaþróun í landinu sem hefur verið algjörlega vanræktur málaflokkur í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þó má finna hér víða í þessari tillögu fullyrðingar um að það sé mikilvægt að fjárfesta í einu og öðru sem varðar byggðamál án þess að það sé sett sérstaklega í samhengi við það en það er til að mynda fjallað töluvert um mikilvægi þess að styðja við þróun á uppbyggingu samgönguinnviða og raforkuinnviða og slíkt og að slíkar fjárfestingar séu hagkvæmar, sem þær vissulega eru. En svo gerist ekkert í því. Við fáum bara ár eftir ár nýja fimm ára áætlun þar sem talað er um mikilvægi hluti á borð við byggðamál og samgöngumál og slíkt. En það gerist ekkert í því. Það er eins og menn annaðhvort trúi ekki því sem þeir leggja fram sem rök eða ætli ekkert að gera með það annað en að flagga því enn eina ferðina að í framtíðinni verði hugsanlegt eitthvað gert.

Þetta atriði sem ég nefni nú tengist því sem að mínu mati, og mér hefur verið tíðrætt um þetta, ég veit það, frú forseti, en það verður ekki of oft sagt af því að þetta lagast ekkert, eiginlega frá því ég byrjaði í stjórnmálum eða alveg frá því að ég byrjaði í stjórnmálum hefur mér verið tíðrætt um það að helsti vandinn við fjármálaáætlanir hjá ríkinu sé sá að menn líti ekki í áætlanagerð sinni nógu mikið til langtímaáhrifa og til heildaráhrifa. Til að nefna dæmi um hvað ég er að fara með þessu, nefna dæmi eina ferðina enn því að eins og ég nefndi þá hef ég talað töluvert um þetta, þá virðast stjórnvöld eiga mjög erfitt með að reikna ávinninginn af því að ráðast í hagkvæmar framkvæmdir sem spara borgurunum peninga, framkvæmdir sem ýta undir verðmætasköpun og slíkt vegna þess að það er ekki hægt að setja nákvæma tölu á það. En menn hins vegar setja nákvæma tölu á kostnaðinn við það að ráðast í framkvæmdina. En af því að það er erfitt að segja nákvæmlega hverju það skilar, þó að það sé hagkvæmt eins og viðurkennt er hér, þá er einfaldlega litið fram hjá því í mörgum tilvikum. Þetta blandast inn í svo ótal margt, m.a. fyrra dæmið sem ég nefndi um stöðu eldri borgara. Þar er raunin sú að það er litið á það sem hreint tap fyrir ríkið að leyfa eldri borgurum að vinna lengur til að mynda og draga þar með úr skerðingum. Sama á við um aðrar skerðingar eldri borgara. Það er einhvern veginn litið á það sem svo að það að draga úr þessum skerðingum feli í sér hreint tap fyrir ríkið. Ekki er tekinn með í reikninginn sá hvati sem felst í því fyrir eldri borgarana að vinna meira, búa til meiri verðmæti fyrir samfélagið, nýta sína reynslu og þekkingu, greiða skatta lengur, þetta eru ótal þættir sem skila raunverulegum tekjum til ríkisins. En það er bara einblínt á aðra hliðina.

Í báðum þessum þáttum sem ég tók sérstaklega fyrir, stöðu eldri borgara og byggðamálin, þá myndi held ég afstaða stjórnvalda og ákvarðanataka breytast mjög verulega ef menn leyfðu sér að áætla ávinninginn af því að annars vegar fá landið allt til að vinna saman sem eina heild og þá gríðarlegu verðmætaaukningu sem kæmi út úr því eða sparnaðinn fyrir samfélagið af því að koma í veg fyrir að landbúnaður leggist af á stórum svæðum eða auka tekjur samfélagsins af því að draga úr ósanngjörnum og óhagkvæmum skerðingum á eldri borgara. Ef menn ætla að taka skynsamlegar ákvarðanir þá þurfa þeir að líta á heildarmyndina og þeir þurfa að líta á langtímaáhrifin. Það hefur verið mikill skortur á því.

Talandi um það að líta fram á veginn þá gerir ríkisstjórnin nú ráð fyrir mjög verulega lækkandi hagvexti og sýnir hér í töflu að spáin um hagvöxt samkvæmt Hagstofu Íslands sé 4,6% árið 2022, 2,7% 2023 og 2,2% 2024. Aðrar spár, þ.e. frá Seðlabanka Íslands, og meðaltal greiningaraðila, eins og það er orðað hér, eru mjög á sama veginn. Og hver eru viðbrögðin við þessu hjá ríkisstjórninni? Þau eru þau sem ég lýsti hér í upphafi, að auka álögur á almenning. Á sama tíma og verðbólga eykst og hagvöxtur minnkar þá er bætt í álögur á vinnandi fólk á Íslandi og reyndar fleiri því hin ýmsu gjöld halda áfram að hækka. Ríkisstjórnin virðast telja sér sérstaklega til tekna að ætla að halda áfram að hækka gjöld.

En í kaflanum Breytingartillögur segir, með leyfi forseta:

„Eins og rakið hefur verið í áliti þessu hafa efnahagshorfur breyst töluvert frá því að áætlunin var lögð fram.“ — sem sagt upphaflega áætlunin — „Nú er gert ráð fyrir töluvert hærri verðbólgu heldur en miðað var við í forsendum gildandi þjóðhagsspár Hagstofu Íslands og í því ljósi er gerð tillaga um að uppfæra áætlunina.

Í breytingartillögum meiri hlutans er tekið tillit til þessa bæði á tekju- og gjaldahlið áætlunarinnar. Einnig er stefnt að því að nýta uppsveifluna í hagkerfinu …“

Ég skal lesa þetta aftur, frú forseti: „Einnig er stefnt að því að nýta uppsveifluna í hagkerfinu til þess að draga hraðar úr halla ríkissjóðs heldur en ráð var fyrir gert, sem er í samræmi við markmið peningastefnunnar um að lækka verðbólgu með því að draga úr þenslu í hagkerfinu.“

Hér rekst eitt á annars horn. Annars vegar er verið að gera ráð fyrir mjög umtalsverðum samdrætti í hagvexti, réttara sagt að hagvöxtur minnki umtalsvert. Hins vegar er talað um að nýta uppsveifluna til þess að auka álögur á almenning. Krónutölugjöldin eru t.d. nefnd hérna sérstaklega og birt tafla; Krónutölugjöld uppfærð með hliðsjón af spá um verðlag, 2023 eru það 3 milljarðar, hækkar jafnt og þétt svo upp í 4; Nokkrar sérstakrar gjaldabreytingar — það er nú meira hvað ríkið getur fundið upp ný gjöld eins og ég gerði að umtalsefni hérna áðan — en það sem hér er kallað Nokkrar sérstakar gjaldabreytingar fara á tímabilinu úr 2,7 milljörðum kr. í 6,5 milljarða og annað er eftir þessu.

Ég hreinlega átta mig ekki á meginhugsuninni í þessari áætlun ríkisstjórnarinnar þar sem á að takast á við verðbólgu með því að leggja enn meiri álögur á almenning, fórnarlömb verðbólgunnar, og ætla að nýta uppsveifluna, eins og það er kallað hér, (Forseti hringir.) á sama tíma og spáð er jafnt og þétt minnkandi hagvexti.