Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[14:14]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að hafa í huga famvindu efnahagsmála nú um stundir. Við erum að koma úr einum mestu efnahagsþrengingum í sögu lýðveldisins og það ásamt síbreytilegu ástandi heimsmálanna hafa haft og koma til með að hafa áhrif hér á landi eins og annars staðar. Við fylgjumst grannt með þróun mála og ef grípa þarf til viðbótaraðgerða vegna verðbólgunnar eða annarra hækkana þá munum við nálgast það eins og við höfum nálgast aðrar áskoranir undanfarin ár. Það er hárrétt sem hefur komið fram í máli margra að vegna heimsfaraldursins, vegna breytinga á skattkerfinu, t.d. lækkun skattþrepa sem kemur best þeim sem lægstar tekjur hafa, hækkunar persónuafsláttar, minni tekna af ökutækjum ásamt fleiru, þá hafa tekjur ríkisins dregist saman. Þessu er öllu haldið á lofti í nefndaráliti meiri hlutans en það má heldur ekki gleyma því í umræðunni að við tölum jafnframt um tekjuöflun eftir ýmsum leiðum.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu vil ég þakka nefndarmönnum, nefndarriturum fjárlaganefndar og hagfræðingi fyrir samstarfið þennan þingvetur sem hefur um margt verið krefjandi enda um stór og flókin mál að ræða og ég ætla svo sannarlega að vona að við eigum öll gott og gefandi sumar.