Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[14:39]
Horfa

Guðný Birna Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Varðandi hluta sveitarfélaga á fjármálaáætlun sjáum við áfram niðurskurð bakdyramegin, þ.e. vanfjármögnun velferðarverkefna sem hafa flust frá ríki til sveitarfélaga og myndað halla á rekstrarreikningi margra sveitarfélaga. Það hefur komið fram að 17 milljarða kr. hefur vantað í málaflokk fatlaðs fólks hjá sveitarfélögunum á tímabilinu 2018–2020 til að sinna lögbundnum skyldum. Athygli vekur að þrátt fyrir að þetta mat liggi fyrir er engra leiða leitað til að draga úr vanfjármögnun málaflokksins í fjármálaáætlun. Fram kom hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að umræddur halli skýrði stærstan hluta af þeim halla sem mælist á sveitarstjórnarstiginu eða um 12–13 milljarða árlega. Hjá sveitarfélögum hrannast upp biðlistar NPA-samninga fyrir fatlað fólk sem eru ófjármagnaðir að verulegu leyti. Það bitnar illa á skjólstæðingum þjónustunnar og skapar erfiðan þrýsting á sveitarfélögin.