Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[14:40]
Horfa

Hilda Jana Gísladóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vel að verkefni hafi verið flutt frá ríki til sveitarfélaga og gott mál. Hins vegar er verra að nægilegt fjármagn fylgi ekki þeim verkefnum. Þess utan eru sífellt settar auknar kröfur á lögbundin hlutverk sveitarfélaga, sem er eðlilegt, en verra er að hvorki fylgir því kostnaðarmat né umræða um hvernig eigi að fjármagna þessi umræddu verkefni. Þetta hefur bæði áhrif á fjárfestingargetu sveitarfélaganna, svigrúm til að sinna lögbundnum hlutverkum og síðast en alls ekki síst á ólögbundin verkefni sveitarfélaga, sem eru sannarlega mikilvæg, en þar ber allra helst að nefna menningar- og íþróttamál. Þetta hefur sannarlega áhrif á lífsgæði landsmanna.