Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

692. mál
[13:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í þingflokki Miðflokksins munum styðja við þetta mál en ég vil nota tækifærið og vekja athygli á því sem fram kom hjá hv. formanni atvinnuveganefndar í tengslum við afgreiðslu þessa máls, að ákvörðun hafi verið tekin um það að líta á heildaráhrif þess að málið væri samþykkt með þeim hætti sem nú er gert, þannig að þótt málið kæmi fram með neikvæðum hætti á þeim tiltekna fjárlagalið sem stendur straum af kostnaði þessarar aðgerðar þá yrði horft til heildaráhrifanna. Þetta er nýbreytni. Það hefur ítrekað verið talað fyrir því að málefni sem snúa m.a. að heimild eldri borgara, lífeyrisþega, til að njóta hærra frítekjumarks lúti sömu sjónarmiðum, en ekki hefur verið vilji til þess. Ég vona að hér sé um að ræða stefnubreytingu af hendi ríkisstjórnarinnar sem við munum sjá raungerast á næsta þingi þar sem frítekjumark eldri borgara verður hækkað verulega.