Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

hjúskaparlög.

172. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993.

Frumvarpið felur í sér breytingar á hjúskaparlögum og er markmið þess annars vegar að styrkja stöðu þolenda heimilisofbeldis og tryggja rétt þeirra til að slíta hjúskap og hins vegar að einfalda skilnaðarferli fyrir hjón sem eru sammála um að enda hjúskap sinn.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust nokkrar umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar árétta sérstaklega: Nefndin fjallaði um þolendur heimilisofbeldis og áréttar mikilvægi þess að ávallt sé stutt við þolendur ofbeldis og telur að einföldun þess regluverks sem frumvarpið felur í sér geti verið einn þáttur þess stuðnings.

Þá fjallaði nefndin um heildarendurskoðun á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem lúta að hjúskap og beinir meiri hlutinn því til ráðherra að taka til endurskoðunar hjúskaparlög. Einnig telur meiri hlutinn þörf á því að ákvæði reglugerðar um skilyrði gjafsóknar verði rýmkuð svo meðferð skilnaðarmála, fjárskipta eða forsjármála verði þolendum heimilisofbeldis ekki jafn íþyngjandi og hún er nú og að gerð verði greining á því hver sé mannafla- og fjármagnsþörf sýslumannsembætta til að tryggja í senn vandaða og skilvirka málsmeðferð skilnaðarmála og alls þess sem þeim tengist. Meiri hlutinn telur mikilvægt að framangreind endurskoðun fari fram sem fyrst.

Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á b-lið 2. mgr. a-liðar 6. gr. frumvarpsins er varðar upplýsingar um útkall lögreglu vegna heimilisofbeldismála. Breytingin er lögð til svo hafið sé yfir vafa að lögreglunni sé ekki gert skylt að afhenda lögregluskýrslu í andstöðu við reglur um afhendingu gagna í sakamálum og leggur því til breytingu á ákvæðinu.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar meðferð skilnaðar vegna heimilisofbeldis í 6. og 7. gr. frumvarpsins. Annars vegar að maki geti krafist lögskilnaðar án undangengins skilnaðar að borði og sæng fyrir sýslumanni gangist maki við broti sínu eða hafi hlotið dóm fyrir það. Hins vegar að maki geti krafist lögskilnaðar án undangengins skilnaðar að borði og sæng fyrir dómi ef fyrir liggja upplýsingar frá lögreglu sem staðfesta útkall lögreglu vegna heimilisofbeldis eða önnur gögn á borð við áverkavottorð eða mat sálfræðings benda til þess að það hjóna er krefst skilnaðar, eða barn sem býr hjá þeim, hafi mátt þola ofbeldi af hálfu makans. Meiri hlutinn telur heppilegra að dómstólar hafi þetta hlutverk en ekki sýslumenn en mál séu rekin sem flýtimeðferðarmál fyrir dómi.

Þá er í þriðja lagi lögð til breyting er varðar sáttaumleitan. Meiri hlutinn telur rétt að gera breytingar á 8. gr. frumvarpsins þess efnis að fella brott breytingar á 42. gr. laganna aðrar en þær að sáttameðferðar sé ekki krafist þegar óskað er skilnaðar á grundvelli heimilisofbeldis, að heimilt sé að reyna sættir með hjónum hvoru í sínu lagi komi fram ósk um það og að sáttameðferð fyrir sýslumanni eða dómara sé meginregla en að hjónum sé heimilt að leita til trú- eða lífskoðunarfélags sé það vilji beggja.

Að lokum er í fjórða lagi lögð til breyting er varðar gildistökuákvæði 10. gr. frumvarpsins þannig að henni verði frestað til 1. júlí 2023, til þess að framkvæmdaraðilar laganna, og þá einna helst sýslumenn, fái tækifæri til að aðlaga málsmeðferð sína að breyttri umgjörð, innleiða nýja verkferla og uppfæra leiðbeiningar sínar og starfskerfi.

Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um þessar breytingartillögur og aðrar í nefndarálitinu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit meiri hlutans rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Birgir Þórarinsson, Eyjólfur Ármannsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir og Kári Gautason.

Virðulegur forseti. Mig langar að geta þess að hér er um meirihlutaálit ræða en málið er upphaflega flutt af hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson, hún er fyrsti flutningsmaður málsins og það eru fleiri flutningsmenn, bæði frá þingflokki Viðreisnar og öðrum þingflokkum, held ég samt eingöngu í stjórnarandstöðu. En það breytir því ekki að hér er um mjög gott mál að ræða og við náðum góðri vinnu í því að betrumbæta málið enn frekar þannig að það þjónaði alveg örugglega tilgangi sínum og væri til þess fallið að bæta réttarstöðu þeirra sem búa við heimilisofbeldi.

Virðulegur forseti. Eins og ég fór yfir hér í ræðu um ágætt mál áðan þá er þetta líka mál sem kannski hefði mátt fá dýpri og meiri vinnu innan nefndarinnar þó að það hafi verið mælt fyrir því tíma og það hafi legið inni í nefndinni í töluverðan tíma. Að þessu sögðu þá langar mig að nýta tækifærið og þakka sérstaklega starfsmönnum nefndasviðs, nefndarritara hv. allsherjar- og menntamálanefndar og ekki síst starfsmönnum þingflokks Sjálfstæðisflokks og þingflokks Viðreisnar sem lögðu það á sig alla helgina, í samstarfi við ráðuneytið og aðra sérfræðinga, að gera málið þannig úr garði gert að um það náðist djúp og mikil sátt. Ég held að þetta sýni bara ágætlega að hér á þingi getum við svo sannarlega unnið saman að góðum málum og ég vona að málið verði samþykkt eins og nefndin leggur til í áliti sínu.