Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

vextir og verðtrygging og húsaleigulög.

80. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Ég held að það verði kannski seint hægt að segja að Flokkur fólksins og Sjálfstæðisflokkurinn eigi fullkomlega samleið. En ég hef þá trú að kannski sé hægt að finna einhvern samnefnara í öllum flokkum. Samkvæmt þessu telur meiri hluti nefndarinnar ekki skynsamlegt að lögbinda þá vísitölu sem tilgreind er í frumvarpinu, sem var nýbirt þegar frumvarpið var lagt fram og er ekki sú sama í dag. Þetta gerir það að verkum að lögin gætu orðið úrelt mjög fljótt og mögulega skaðað þá einstaklinga sem frumvarpinu er ætlað að vera réttarbót fyrir. Þannig að tímamarkið er svo gott sem úrelt, ef hægt er að segja sem svo. Ég tek undir það sem hefur komið fram, að þau skref sem fólki finnst réttast að taka um afnám verðtryggingar þarf að taka að mjög vel ígrunduðu máli þannig að lögin standist tímans tönn og séu ekki miðuð við tímabundið efnahagsástand, sér í lagi þar sem það er rakið til kórónuveirufaraldursins samkvæmt greinargerð með frumvarpinu.

Mig langar líka að fá að nefna það að Sjálfstæðisflokkurinn stendur alltaf vörð um frelsi einstaklingsins og eignarréttinn, hv. þingmaður. Það er ekki ólíklegt að ákvæði sem er að finna í frumvarpinu fari í bága við stjórnarskrá þar sem verið er að takmarka eignarrétt einstaklinga og ráðstöfunarrétt þeirra á fasteignum sínum. Það þarf að mati nefndarinnar að fara mjög varlega í slíkar hugmyndir.