Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

eignarráð og nýting fasteigna.

416. mál
[19:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna. Frumvarpið felur í sér breytingar á nokkrum lagabálkum en ekki þykir ástæða til að rekja allar þær breytingar hér í þessari ræðu.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust margar umsagnir. Greint er frá því nefndaráliti sem liggur frammi. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri allsherjar- og menntamálanefndar árétta sérstaklega:

Nefndin fjallaði um breytingar á lögum um menningarminjar sem eru nr. 80/2012, en með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um forkaupsrétt ríkisins af landi þar sem eru friðlýstar menningarminjar. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að við framkvæmd ákvæðisins sé ávallt byggt á málefnalegum sjónarmiðum og höfð hliðsjón af eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Þá fjallaði nefndin um breytingar á jarðalögum, nr. 81/2004. Það getur verið flókið í framkvæmd þegar eignarhald jarða er orðið mjög dreift, ekki síst varðandi ákvarðanatöku þegar samþykki allra þarf að liggja fyrir. Meiri hlutinn telur að með frumvarpinu séu tekin mikilvæg skref í átt að því markmiði að skilgreina betur og setja regluverk varðandi samskipti sameigenda á óskiptri sameign á landi sem fellur undir gildissvið jarðalaga.

Einnig fjallaði nefndin um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001. Ljóst er að landamerki kunna víða að vera óljós og því telur meiri hlutinn til bóta að bæta úr hvað þetta varðar með reglum um merki og skráningu fasteigna.

Nefndin fjallaði að auki um breytingu á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966. Meiri hlutinn fjallaði um tilslakanir á skilyrðum um sterk tengsl við Ísland og telur þá leið sem farin er í frumvarpinu heppilega í þessu tilliti og m.a. sé komið til móts við mikilvægi erlendrar fjárfestingar.

Meiri hlutinn fjallaði um leyfi vegna lögaðila undir yfirráðum annarra en EES-aðila og frekar um fjárfestingar erlendra aðila sem komið verður að í umfjöllun um breytingartillögur.

Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til breytingar á frumvarpinu. Lögð er til breyting þess efnis að veitt verði undanþága frá greiðslu þinglýsingargjalds samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, í þeim tilvikum þar sem sýslumaður tilnefnir fyrirsvarsmann, ef ekki hefur verið tilkynnt um fyrirsvarsmann samkvæmt a-lið 2. gr. frumvarpsins. Það sé enda óraunhæft að standa að innheimtu þinglýsingargjalds í þeim tilvikum.

Þá er lögð til breyting þess efnis að um forkaupsrétt sameigenda gildi ekki 1. töluliður 31. gr. jarðalaga. Er breytingin lögð til svo ekki sé unnið gegn því markmiði að sporna gegn óhóflegri fjölgun sameigenda, m.a. fyrir erfðir.

Nefndin fjallaði sérstaklega um c-lið 11. gr. frumvarpsins en markmið ákvæðisins er að koma í veg fyrir að lögaðilar innan EES sem eru undir yfirráðum annarra en EES-aðila geti hagnýtt sér undanþágureglu laganna, t.d. með því að fjárfesta í fasteign hér á landi gegnum félag innan EES og sniðgengið þannig skilyrði laga nr. 19/1966 fyrir eignarhaldi erlendra aðila yfir fasteignum og fasteignaréttindum. Fyrir nefndinni var bent á að með breytingunni yrðu takmarkaðir verulega möguleikar erlendra ríkisfyrirtækja eða annarra opinberra aðila utan EES-svæðisins til að fjárfesta hér á landi, eins og m.a. er stefnt að með frumvarpinu. Vegna þess leggur meiri hlutinn til þá breytingu á frumvarpinu að c-liður 11. gr. frumvarpsins falli brott að svo stöddu. Meiri hlutinn telur þó mikilvægt að til staðar séu úrræði fyrir stjórnvöld til að takmarka erlenda eigu þegar undir eru almannahagsmunir, þar með talið yfirráð auðlinda, þjóðaröryggi eða allsherjarregla. Forsenda fyrir slíkum úrræðum er að fyrir liggi heildstæð löggjöf um rýni á erlendum fjárfestingum. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er stefnt að framlagningu frumvarps um rýni fjárfestinga erlendra aðila á haustþingi. Meiri hlutinn telur mikilvægt að horfa til fyrirhugaðrar vinnu við rýni á erlendum fjárfestum, ekki síst varðandi erlenda opinbera aðila, áður en umrætt ákvæði c-liðar 11. gr. verður lögfest. Meiri hlutinn telur að í því frumvarpi þurfi að huga að þeim úrræðum og þeim álitaefnum sem vaknað hafa við umfjöllun nefndarinnar, m.a. þeirri óæskilegu stöðu að erlendum aðilum utan EES-svæðisins sé unnt að fara í kringum skilyrði laga nr. 19/1966 í gegnum millilið á EES-svæðinu, þar á meðal varðandi fjárfestingu erlendra opinberra aðila í 5. mgr. 1. gr. laganna. Jafnframt leggur meiri hlutinn áherslu á að haldið verði áfram að vinna almennt að umbótum á sviði jarðamála á grundvelli þeirrar heildstæðu stefnumótunar sem unnin hefur verið í forsætisráðuneytinu.

Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um þessar breytingartillögur og aðrar, bæði efnislegar og lagatæknilegar, í áliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir álit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Birgir Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Logi Einarsson og Kári Gautason.

Virðulegur forseti. Ég hef farið yfir þær helstu breytingar sem við gerum með þessu nefndaráliti. Ég vil taka það fram að nefndin hefur unnið vel og lengi að þessu máli. Við fengum umsagnir og gesti og óskuðum eftir fleiri gestum á fundi okkar. Það er verið að taka fyrir marga lagabálka og sumt af þessu eru kannski frekar svona lögfræðileg útfærsluatriði. Í mínum huga er það stórt og mjög mikilvægt atriði að innan ekki of langs tíma líti ljós lög hér Alþingi um rýni á erlendum fjárfestingum, enda vísum við sérstaklega til þess í nefndaráliti. Þá er ég sérstaklega að fjalla um þennan c-lið 11. gr., sem var kannski sá liður sem fékk mesta umræðu hjá okkur og þá sérstaklega á síðustu metrunum þegar okkur var bent á að það ákvæði gæti falið í sér óeðlilegar takmarkanir á fjárfestingum erlendra aðila hér í fyrirtækjum sem ættu fasteign. Ákvæðinu var ætlað, eins og lýst er í frumvarpinu, að koma í veg fyrir það að erlend ríki eða erlendir opinberir aðilar komist yfir auðlindir og land og annað hér á landi sem getur varðað þjóðaröryggi.

Ég held að heimsmyndin sýni okkur það og nýlegir atburðir að nauðsynlegt hefði verið að vera með rýni á erlendum fjárfestingum fyrr, það er mjög mikilvægt að slík lög komi fram og við höfum í rauninni verið að bíða eftir slíkum lögum lengi og ég veit að það hefur verið unnið að þeim. Sú vinna sem átt hefur sér stað í forsætisráðuneytinu á síðustu misserum er til fyrirmyndar. Það hefur verið horft heildstætt á málaflokkinn og ég efast ekki um að sú vinna muni nýtast áfram. Ég efast ekki heldur um að við munum halda áfram að fjalla um breytingar á þessum lögum og við væntum þess að sjá eitthvert ákvæði, sambærilegt því sem liggur hér fyrir í lögunum, koma fram aftur í frumvarpi. En þá, eins og ég var að reyna að segja hér áðan á lagatæknilegu máli, er mikilvægt, ef slíkt ákvæði lítur dagsins ljós, að þar sé líka einhvers konar undanþáguheimild. Erum við þá að horfa til þess að erlendir aðilar, erlendir þjóðarsjóðir, gætu verið að fjárfesta hér, til að mynda í nýsköpunarfyrirtækjum sem eiga fasteign en ef ákvæðið hefði verið óbreytt hefðu verið hömlur á því. Það viljum við að sjálfsögðu ekki sjá því að við erum hlynnt erlendum fjárfestingum. En það er auðvitað sjálfsagt að þær séu rýndar og ekki sé um að ræða mikilvæga innviði eða auðlindir íslensku þjóðarinnar hvað varðar slíkar erlendar fjárfestingar.