Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áfengislög.

596. mál
[21:17]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þrátt fyrir orð hv. þm. Daða Más Kristóferssonar ætla ég að leyfa mér að standa hér og segja loksins, loksins, því að þrátt fyrir að málið láti ekki mikið yfir sér er þetta fyrsta glufan, allra fyrsta glufan, sem við myndum lögfesta hér gegn undanþágu íslenska ríkisins frá EES-samningnum um einokun á smásölu á áfengi. Bara sú glufa er merkileg og ber vonandi með sér að við ætlum að stíga fleiri skref á næstu misserum.

Ég ætla að leyfa mér að segja að ég held að af þessu tilefni ættum við að ákveða að 15. júní, eða jafnvel 16. júní eftir atvikum, verði haldinn hátíðlegur, eins og við höfum haldið upp á bjórdaginn frá 1. mars 1988, og kallaður brugghúsdagurinn.