Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áfengislög.

596. mál
[21:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um að hvort leggja eigi niður nefnd sem komið var á laggirnar árið 2020, held ég, til að kanna kosti þess og galla að færa áfengiskaupaaldurinn niður í 18 ár. Það er sem sagt verið að leggja þetta starf af, leggja nefndina niður, og ég hefði gjarnan kosið að við hefðum fengið einhverja niðurstöðu í þetta mál og að þingið gæti tekið síðan afstöðu hér í þingsal um hvaða leiðir við ættum að fara, hvort það eigi að lækka aldurstakmörk eða hafa áfengiskaupaaldurinn 20 ár. Mér finnst miður að þessi vinna hafi ekki verið unnin. Ég vil þess þá heldur hvetja ráðherra til þess að eiga frumkvæði að því að vega og meta kosti þess og galla að færa áfengiskaupaaldurinn niður í 18 ár. Það væri gott ef farið yrði faglega yfir það. En mér finnst miður að nefndin skuli, og þar með ríkisstjórnin, vera að leggja það til að hætta við þessa sjálfsögðu og eðlilegu skoðun.