Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 92. fundur,  15. júní 2022.

vistmorð.

483. mál
[23:17]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég ætla svo sannarlega ekki að lengja þessa umræðu. En ég má til með að koma hérna upp til að lýsa ánægju með það hvernig allsherjar- og menntamálanefnd hefur unnið í þessu máli. Þó að minni hluti og meiri hluti hafi ekki komist að sömu niðurstöðu þá er algjör eindrægni í nefndinni um mikilvægi málsins. Það hefði þótt saga til næsta bæjar að Alþingi Íslendinga gæti tekið hugmynd, sem er í grunninn jafn róttæk og þessi, í fangið og verið sammála um að þetta væri eitthvað sem við vildum gera, þó að við séum síðan ekki alveg sammála í nefndinni um hvernig við eigum að gera það eða hvað við eigum að kalla það. Höfum ekki áhyggjur af því. Það er hugurinn sem skiptir máli, eins og sagt hefur verið.

Þetta er svo róttæk hugmynd vegna þess að hún ræðst gegn grundvallarsjálfsmynd okkar, hvað þá okkar sem löggjafa. Það sem við vinnum við er að setja lög um mannanna verk. Við erum að setja lög um fólk. Maðurinn er mælikvarði alls sem við gerum. Og það að vera mannmiðjuð er hægara sagt en gert að rífa sig út úr. Það að gera vistmorð refsivert snýst akkúrat um það. Jú, jú, þetta gagnast komandi kynslóðum. Jú, jú, þetta gagnast fólki í regnskógum Amazon sem missir búsvæði sitt og viðurværi og heilsu vegna gegndarlausrar græðgi stórfyrirtækja sem enga ábyrgð þurfa að sýna. Þetta gagnast öllu þessu fólki, en það gerir það vegna þess að það gagnast jörðinni. Jörðin er náttúrlega það sem við þurfum til að lifa af. Það hefur dálítið oft gleymst þegar við tökum stærri ákvarðanir. Ég deili alveg kvíða hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur um afdrif þessa máls af því að ég vil að það komist sem lengst sem fyrst. Ég er hins vegar fullur bjartsýni af því að ég veit að það mun komast á endapunkt einhvern tímann. Hér er bolti farinn að rúlla af stað sem allir sem komu að málinu í nefndinni eru sammála um að eigi að rúlla í þessa átt. Þeir eru bara ekki alveg sammála um hversu fast þeir vilja sparka í hann. En ég vona að við spörkum bara sem fastast hérna á eftir.