Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 92. fundur,  15. júní 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[23:51]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að tjá mig aðeins um þetta mál, sem var nú heldur betur umdeilt þegar það kom hingað inn í þingið og voru fjörugar umræður um það við 1. umr. Við erum auðvitað að tala um breytingu á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Þar undir eru nikótínpúðarnir sem allir voru að tala um. Auðvitað er meginmarkmiðið með þessu að vernda börn og ungmenni, að setja skýrar reglur um markaðssetningu á þessum vörum, svo dæmi sé tekið, aðgengi barna og ungmenna að þeim. Alla þá heildarhugsun styð ég heils hugar. Það er engin ástæða til þess fyrir börn og ungmenni að nota þessa vöru. En það er með þetta eins og svo margt annað, það er hægt að ganga of langt í vernduninni þannig að lögin verði kannski svolítið marklaus, þau verði þannig að þau verði of umdeild og þjóni kannski ekki alveg tilgangi sínum. Ég verð að segja það alveg eins og er að inn í þetta fléttast síðan dágóður skammtur af forræðishyggju og þessari ofurtrú á boð og bönn, að boð og bönn leysi vandann, að við bætum alltaf lýðheilsu með boðum og bönnum, við verndum best börn og ungmenni og fullorðna með boðum og bönnum. En það er bara einfaldlega ekki þannig. Það er vel hægt að ná þeim skynsamlegu og jákvæðu markmiðum með öðrum hætti. Það er reyndar heppilegra að gera það.

Þegar þetta frumvarp kom inn gerði ég alvarlegar athugasemdir, eins og mjög margir fleiri, sérstaklega við þetta bragðbann. Þá var verið að vísa í ákvæði þar sem tiltekið var að það væri óheimilt að flytja inn, framleiða og selja nikótínvörur og rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur sem innihalda bragðefni sem kunna að höfða til barna, svo sem nammi- og ávaxtabragð. Ráðherra skal setja reglugerð um nánari útfærslu þessa ákvæðis. Þannig kom þetta inn í þingið, en ég sé að nefndin hefur tekið á þessu og leggur til í nefndaráliti að þetta fari út. Það er auðvitað gott, en mig langar samt aðeins að staldra við þetta og velta því aðeins upp hvernig þetta verður til: Hvernig setjast menn niður, hugsa og skrifa og komast að því að svona lagaákvæði eigi að geta þjónað tilgangi sínum? Hvernig stendur á því að menn staldri til að mynda ekki við skilgreiningarleikfimina sem fer í það að reyna að átta sig á því hvað fellur undir nammibragð og hvað fellur undir ávaxtabragð? Menn geta fljótt farið út í ógöngur í því.

Þetta hljómar auðvitað vel og fallega en það verður til alveg óskaplegur skilgreiningarvandi í þessu, fyrir svo utan það að fullorðið fólk má alveg og á alveg að mega nota þessar nikótínvörur með einhvers konar nammi- eða ávaxtabragði. Þannig að bann til að vernda börn og ungmenni, sem síðan bitnar á því sem við getum alveg kallað eðlilega neyslu fullorðinna, er ekki rétta leiðin. Ég hjó reyndar eftir því og ég vona að mér fyrirgefist að segja það að ég hafði það jafnvel á tilfinningunni þegar við vorum að ræða þetta hérna í 1. umr. að hæstv. heilbrigðisráðherra hefði ekki djúpa sannfæringu fyrir þessu skilgreiningaratriði sjálfur. Honum var þá falið að setja reglugerð um nánari útfærslu þessa ákvæðis og mér fannst hæstv. ráðherra þarna vera vandi á höndum. Ég fagna því auðvitað að þetta hafi verið tekið út í nefndarálitinu og að komin sé tillaga um það, sem ég ætla þá að styðja, að sjálfsögðu, vegna þess að við erum til að mynda með hættulegri vöru sem er áfengi og þar erum við að leyfa nammi- og ávaxtabragð. Við erum með tópasskot og við erum með súkkulaðilíkjöra og kaffilíkjöra, þannig að það er svona innbyrðis þversögn í þessu þegar kemur að einhverjum vörum sem geta ógnað lýðheilsu sem ég á erfitt með að sætta mig við. Alla vega, þetta er farið út og það er vel.

En mig langar samt líka vekja athygli þingheims á því að það er talað um það í greinargerðinni þegar málið kemur inn að rannsóknir sýni að bragðefni, sérstaklega nammi- og ávaxtabragð, spili stóran þátt í því hversu vinsælar rafrettur eru meðal barna og ungmenna og rök falla til þess að telja að hið sama eigi við um vinsældir nikótínpúða hjá ungmennum. Þetta á ég erfitt með að sætta mig við vegna þess að þarna er allt í einu komið inn í greinargerð í lagafrumvarpi, sem þingið á síðan að taka til umfjöllunar, einhvers konar leikfimi um það að rannsóknir á einu sé hægt að taka og heimfæra yfir á önnur atriði. Þetta finnst mér aðfinnsluvert.

Svo segir líka:

„Á sama tíma og daglegar eða reglubundnar reykingar ungmenna hafa dregist saman hefur neysla ungmenna á rafrettum og nikótínpúðum farið vaxandi vegna innreiðar nýrra ávanabindandi nikótínvara inn á markað.“

Þarna má segja, ekki síst um fullorðna fólkið, að það er nú bara bein fylgni þarna á milli. Það voru mjög margir sem hættu að reykja þegar rafretturnar komu og það voru ótrúlega margir sem hættu að nota rafrettur þegar nikótínpúðarnir komu, þannig að fylgnin þarna á milli er auðvitað nokkuð sterk, finnst manni. Það sama væri þá hægt að segja um þetta þegar snýr að börnum og ungmennum, en auðvitað viljum við ekki að börn og ungmenni séu yfir höfuð að nota þessar vörur. Þar er betra að nota samtal. Börn og ungmenni eru engir vitleysingar. Þau taka rökum, þau eru skynsöm. Þetta er bara spurning um að reyna að nálgast þau með betri hætti. Ég er algerlega sannfærður um að það er farsælli leið til að ná því markmiði sem þarna er verið að reyna að ná. Við getum alveg notað þetta vegna þess að ef þetta með ávaxtabragðið og nammibragðið hefði orðið að veruleika þá hefði það í raun og veru þýtt það að yfirgnæfandi meiri hluti allra nikótínpúða hefði farið af markaðnum vegna þess að þetta er allt með einhverju bragði. Við tókum ekki á unglingadrykkju með því að setja svo íþyngjandi reglur um áfengi að það yrði næstum því bannað. Við gerðum það ekki. Við fórum aðra leið og við náðum árangri og við eigum að nota það sem fyrirmynd þegar við erum í þessu.

Síðan vil ég aðeins gera athugasemd við það að þó að ég sé sammála meiri hluta velferðarnefndar í því að taka þetta bragðbann út, hjartanlega sammála því, þá undrast ég mjög rökstuðninginn og get eiginlega ekki lesið annað út úr rökstuðningnum fyrir því en það að meiri hluti velferðarnefndar sé mjög áhugasamur síðar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, um að taka upp þetta bann. Það segir í nefndarálitinu:

„Þrátt fyrir að bann við notkun bragðefna kunni að skila árangri til að draga úr neyslu barna og ungmenna á níkótínvörum er það niðurstaða meiri hlutans að frekari vinnu þurfi við að greina áhrif slíkra aðgerða og mögulegar leiðir við að framfylgja slíku banni. Að mati meiri hlutans er því ljóst að meiri tíma þarf til að útfæra slíkt bann og skjóta undir það traustari stoðum. Bannið sé með öðrum orðum ekki nægilega vel undirbyggt eins og það er sett fram í þessu frumvarpi. Meiri hlutinn hvetur til þess að heilbrigðisráðuneytið og eftirlitsaðilar haldi áfram að fylgjast með alþjóðlegum rannsóknum og stefnumótun varðandi áhrif bragðefna á neyslu nikótíns og leiðum til að draga úr því.“

Þetta finnst mér vera rökstuðningur sem ég get ekki fallist á þó að ég fallist á niðurstöðuna um að það beri að taka bragðefnið út. Þannig að mér finnst að við þurfum kannski að ræða þetta frekar á öðrum forsendum en því sem er andlag rökstuðnings sem birtist okkur í þessu nefndaráliti.

Það má hins vegar tiltaka annað sem er jákvætt í þessu, þ.e. að nefndin lagðist yfir auglýsingar á nikótínvörum og lagði til þá breytingu og beinir því til ráðuneytisins að ráðist verði í heildarendurskoðun á reglum um auglýsingar sem snerta nikótín-, tóbaks- og áfengisvörur hér á landi svo heildarumgjörð og markmið laga sem um slík bönn gildi nái tilgangi sínum. Þetta er auðvitað ekki hægt að skilja öðruvísi en svo en að meiri hlutinn sé þá að fela ráðuneytinu og hæstv. heilbrigðisráðherra að skoða þetta, að búa til eitthvert innbyrðis samræmi þarna. Og þá mögulega verður niðurstaðan sú að þetta regluverk verði meira í takt við það alþjóðlega umhverfi sem við búum í og er auðvitað gerbreytt frá því sem var áður, auk þess sem breytt fjölmiðlalandslag, samfélagsmiðlar og aðrir þættir, mismunandi aðstaða innlendra og erlendra miðla, spila þar auðvitað stóra rullu í. Ég vona að þetta verði til þess að það náist þá einhver góð lending í því.

Ég vildi nefna tvennt til viðbótar sem ekki er tekið á í nefndarálitinu. Annars vegar er það að mér finnst það sem snýr að eftirliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og þeim skilyrðum sem innflytjendur og seljendur þessara vara þurfa að uppfylla, vera svolítið íþyngjandi, eiginlega fullíþyngjandi að mínu viti. Það er talað um að þeir sem hyggjast setja svona vörur á markað eigi að senda tilkynningu um það sex mánuðum áður en markaðssetning er fyrirhuguð, eða þrem mánuðum áður en markaðssetning er fyrirhuguð á nikótínvörum. Sex mánuðir eru þá fyrir rafrettur og áfyllingar. Ég held að þetta sé ekki endilega heppilegt þótt ég skilji vel að markmiðið á bak við þetta sé auðvitað að hafa einhvers konar yfirsýn og regluverk sem á að bæta ástandið. En það er alveg áleitin spurning hvort það geri það yfir höfuð.

Síðan velti ég því líka fyrir mér sem snýr að því að það er t.d. verið að tala um hvernig myndir eru framan á þessum vörum og þar finnst mér óþarflega langt gengið. Þarna gætu menn lent líka í ákveðnum skilgreiningarvanda. Þannig að þó að ég sé hjartanlega sammála markmiðunum sem verið er að reyna að ná með þessu frumvarpi þá er ég ekkert endilega viss um að við séum á réttri leið til að ná þeim markmiðum. Ég veit ekki hvort ég á að vera svo dramatískur að segja: Leiðin til heljar er vörðuð góðum ásetningi. Ásetningurinn er góður en ég er ekkert viss um að niðurstaðan úr þessu verði endilega sérstaklega gott mál.

Maður hefur einhverja klukkutíma til að velta þessu betur fyrir sér. Þetta kemur auðvitað svolítið seint inn í þingsalinn úr nefndinni. En ég á satt best að segja enn þá svolítið erfitt með þetta mál þrátt fyrir að meiri hluti velferðarnefndar hafi vissulega gert ákveðnar betrumbætur á því. Ég bendi þingheimi líka á að rökstuðningurinn fyrir því að afnema þetta bragðbann finnst mér skrýtinn hjá hv. velferðarnefnd.