Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 92. fundur,  16. júní 2022.

tekjuskattur.

23. mál
[00:15]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp sem framsögumaður þessa máls og vil gera grein fyrir nokkrum atriðum. Þótt frumvarpinu hafi ekki verið vísað formlega til efnahags- og viðskiptanefndar eftir 1. umr. hefur nefndin fjallað um það. Það bárust umsagnir frá Deloitte og Viðskiptaráði. Við áttum fund með þessum umsagnaraðilum í morgun og kunnum þeim bestu þakkir fyrir. Í kjölfarið funduðum við með skrifstofu skattamála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og fórum yfir ýmis lögfræðileg álitamál. Eftir þessa yfirferð held ég að við í nefndinni, svona flest okkar, séum bara ef eitthvað er enn sannfærðari en áður um að það fari best á því að samþykkja þetta frumvarp fyrir þinglok.

Þetta er sérstaklega brýnt hvað varðar 1. gr. til að taka af allan vafa um hvernig farið skuli með úthlutanir úr rekstri sem greiddar eru með öðrum eignum en peningum. Báðar greinarnar í þessu frumvarpi þjóna í rauninni þeim tilgangi að eyða óvissu og skapa ákveðinn fyrirsjáanleika fyrir atvinnulífið og skattaframkvæmd í landinu.

Sú lagabreyting sem við erum að leggja til í 1. gr. er viðbragð við úrskurði yfirskattanefndar í máli nr. 42/2022. Þar var því hafnað að fara skyldi með úthlutun sem greidd væri í formi hlutabréfa líkt og um sölu eignanna væri að ræða og ákvarða samkvæmt því skattskyldan söluhagnað.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið bendir á að niðurstaða yfirskattanefndar sé ekki afgerandi varðandi það hvort um annars konar skattskyldar tekjur sé að ræða og að þarna sé ákveðin óvissa og með úrskurðinum sé líka komin upp óvissa um það hvort og þá hvernig fordæmisgildi hans taki til úthlutana úr félögum sem eru ekki hlutafélög, svo sem samlagsfélögum og sameignarfélögum. En það sem er kannski mikilvægast er að með lagabreytingunni er ekki aðeins verið að eyða þessari óvissu heldur líka að tryggja jafnræði milli skattaðila.

Hér ætla ég, með leyfi forseta, að vitna í minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til efnahags- og viðskiptanefndar.

„Ef niðurstaðan yrði túlkuð á þann veg að það skorti skattlagningarheimild við þessar aðstæður þá fæli það í sér glufu í skattkerfinu sem auðvelt væri að misnota. Skattkerfið er uppbyggt þannig að virkur tekjuskattur á atvinnurekstur lögaðila og eigendur þeirra er almennt 37,6%. Niðurstaðan fæli í sér að hægt yrði að komast hjá skattlagningu tekna, sem stafa af mismun bókfærðs verðs og markaðsverðs, með því einu að úthluta eignum í stað peninga. Slík niðurstaða er óásættanleg og felur í sér bæði ójafnræði og skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja.“

Deloitte hefur gagnrýnt sérstaklega framsetninguna í greinargerð þessa frumvarps, orðalagið um að verið sé að árétta meginreglu, sem sagt um skattlagningu við eignfærslu úr atvinnurekstri. Við fyrstu sýn mætti kannski draga þá ályktun að með frumvarpinu sé öllu heldur verið að lögfesta þá skattaframkvæmd sem hefur tíðkast frekar en gildandi meginreglu sem hafi þá verið snúið við. En það sem við erum að vísa til í frumvarpinu er í rauninni bara sú almenna og viðtekna regla að eign verði ekki tekinn út úr rekstri nema farið hafi fram og fari fram skattalegt uppgjör.

Í því tilviki sem hér um ræðir teljum við rétt að renna styrkari lagastoð undir þessa reglu, þessa skattaframkvæmd, í tilvikunum sem frumvarpið, þ.e. 1. gr., fjallar um, loka þessari glufu og koma þannig í veg fyrir að ríkissjóður verði af skatttekjum.

Viðskiptaráð gagnrýnir hve brátt málið ber að og hve hraða afgreiðslu það hefur fengið. Það er auðvitað margt til í því en við því vil ég nú bara segja sem framsögumaður þessa máls að stundum koma einfaldlega upp aðstæður þar sem löggjafinn þarf að bregðast skjótt við og ég tel að við höfum gert það bæði skjótt og vel í þessu tilviki. Við í nefndinni teljum einfaldlega að hér sé um slíka hagsmuni íslenska ríkisins að tefla að það sé rétt að ganga rösklega til verks og samþykkja þetta frumvarp fyrir þinglok.