153. löggjafarþing — þingsetningarfundur

minnst látins fyrrverandi alþingismanns, Ingvars Gíslasonar.

[14:32]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Ingvar Gíslason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést í Reykjavík 17. ágúst á 97. aldursári. Hann var fæddur í Nesi í Norðfirði 28. mars 1926. Foreldrar hans voru Fanný Kristín Ingvarsdóttir húsmóðir og Gísli Hjálmarsson Kristjánsson útgerðarmaður.

Ingvar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1947. Hann stundaði fyrst nám í íslenskum fræðum hér heima og í sagnfræði við háskóla í Englandi en sneri sér síðan að lögfræðinámi og lauk cand. jur.-prófi 1956. Með námi stundaði hann blaðamennsku og ýmis önnur störf. Að námi loknu starfaði hann skamman tíma í fjármálaráðuneytinu en fluttist 1957 til Akureyrar, vann þar við lögfræðistörf og kennslu og var skrifstofustjóri Framsóknarflokksins. Varð hann brátt einn forystumanna flokksins á Akureyri og hlaut kjör sem varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra í alþingiskosningunum 1959. Við fráfall aðalmanns tók hann fast sæti á Alþingi 1961 og sat hér samfellt til 1987. Hann sat á 30 löggjafarþingum alls.

Ingvar Gíslason kom á löngum starfs- og stjórnmálaferli sínum víða við í félagsstörfum, stjórnsýslu og við undirbúning löggjafar sem ekki verður nánar rakið hér. Hann tók mikinn þátt í störfum Evrópuráðsþingsins og sat nokkur ár í forsætisnefnd þess. Upp úr 1970 varð Ingvar oddviti Framsóknarmanna í sterkasta kjördæmi þeirra, Norðurlandi eystra. Við sögulega stjórnarmyndun í febrúar 1980 varð hann menntamálaráðherra en var þá orðinn formaður þingflokksins. Ráðherraembættinu gegndi hann til 1983. Ingvar varð fyrst forseti neðri deildar 1978–1979 og gegndi embættinu aftur 1983–1987. Hann þótti sérlega laginn við forsetastörf, réttsýnn, lipur og gerði oft að gamni sínu og létti þannig skap þingmanna.

Ingvar Gíslason varð þegar á ungum aldri ritfær og vel að sér um íslenskt mál og bókmenntir. Er hann lét af þingmennsku varð hann ritstjóri Tímans um fjögurra ára skeið. Ingvar var afar prúður í framkomu og óáreitinn, vildi hvers manns vanda leysa og setja niður deilur. Hann var fylginn sér í þingstörfum, naut jafnan mikils trausts og var tryggur flokksmaður, lét mest mennta- og menningarmál til sín taka.

Ingvar Gíslason hafði yndi af ljóðum og ljóðagerð. Hann gaf út ljóðabækur og orti ferskeytlur og limrur, hlýlegar og skoplegar, allt fram á sína síðustu daga.

Ég bið þingheim og aðra viðstadda að minnast Árna Gunnarssonar og Ingvars Gíslasonar, fyrrverandi alþingismanna, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]