153. löggjafarþing — 2. fundur,  14. sept. 2022.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[19:51]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Fyrir síðustu kosningar tókst ríkisstjórnarflokkunum að höfða til öryggisþarfa í kjölfar Covid og þreytu á stjórnmálum almennt og útkoman er sama gamla stjórnin sem engum finnst beinlínis vond en engum finnst heldur koma miklu í verk og heldur aðeins í horfinu. Á meðan hrannast mikilvæg verkefni upp. Það er nefnilega ekki alltaf best að kjósa óbreytt ástand. Meira að segja hæstv. forsætisráðherra virtist gera sér grein fyrir þessu þegar hún talaði við fólk sitt á flokksráðstefnu VG nýlega um allt það sem VG myndi vilja gera, rétt eins og VG væri ekki í valdastöðu. Til dæmis vildi hún hætta sérsköttun á ofsaríku fólki sem greiðir minna til samfélagsins en við hin. Varaformaður VG sagði við sama tækifæri að flokkurinn vildi helst vera í annarri ríkisstjórn en þau yrðu að vera í þessari til að passa upp á að hlutir gerðust ekki. Hann nefndi reyndar ekki hvaða hlutir máttu ekki gerast en varla átti hann við kjör aldraðra, öryrkja, launþega eða framlög til heilbrigðiskerfisins. Nei, því miður er það nefnilega svo að í skjóli meintrar varðstöðu VG kyngir flokkurinn lækkun veiðigjalda, ömurlegri útlendingastefnu, brothættu velferðarkerfi, ómarkvissri byggðastefnu, vafasömum embættisveitingum og metnaðarleysi í loftslagsmálum. Og hvað sem líður öllum ræðuhöldum á flokksráðsfundum er varðstaðan í reynd um hagsmuni hinna ríku og við sjáum það bara ágætlega í fjárlögunum.

Enn einu sinni blasir því við efnahagsvandi sem verður til í jafnvægisleysi sem hefur einkennt íslenskt samfélag svo lengi sem elstu menn muna. Almenningur stendur frammi fyrir því að verð á nauðsynjum hækkar, vextir hækka og fólk horfir á kaupmáttinn rýrna um leið og því er sagt að það sé óábyrgt að sækja leiðréttingar í kjarasamningum. Ungt fólk sem er að hefja búskap stendur andspænis húsnæðisverði sem er nánast ókleifur múr — sem sagt sama gamla sagan; of mikil sóun á sumum stöðum, of mikill skortur á öðrum stöðum. Það er vitlaust gefið. Er þetta jafnvægisleysi eitthvað í genum á okkur Íslendingum? Nei. Er þetta náttúrulögmál? Ó, nei. Á þessu er bara mjög einföld skýring. Hér ráða einfaldlega för sterk öfl sem hafa hag af því að viðhalda hlutunum eins og þeir eru, stórfyrirtækin og ríkasta eina prósentið sem gerir upp í evrum en telur okkur hinum trú um að íslenska krónan sé þjóðargersemi. Ríkisstjórnin er mynduð kringum varðstöðu um þessa hagsmuni.

Því miður hefur jafnaðarstefnan ekki verið höfð að leiðarljósi nokkur síðustu kjörtímabil með þeim afleiðingum að tekjuhlið ríkisins er sífellt meira borin uppi af sköttum launafólks á meðan ríkasta eina prósentinu er hlíft. Þess vegna er minna úr að spila til að reka stóru kerfin, þessi mikilvægustu kerfi sem landsmenn eru sammála um að eigi að greiða úr sameiginlegum sjóðum, menntakerfið, heilbrigðiskerfið sem hefur verið fjársvelt um árabil.

Herra forseti. Nú siglum við inn í mjög erfiðan vetur fyrir mörg og aðstæður leyfa einfaldlega ekki ríkisstjórnarsamstarf sem gengur út á að hlutir gerist ekki. Við þurfum undir eins snarar, afgerandi aðgerðir til að vernda launafólk, vernda almenning fyrir verðbólgunni, ná breiðari sátt um skiptingu á byrðum. Við þurfum undir eins að takast á við stórkostlegan fjármögnunar- og mönnunarvanda heilbrigðiskerfisins. Og í dag, þegar færa má rök fyrir því að fólk sé annars flokks þegnar fyrir það eitt að velja að búa fjarri höfuðborgarsvæðinu, er svarið að auka eldsneytisskatta sem mun hækka vöruverð í dreifðari byggðum fálegt. Miklu frekar ættum við að horfa til framtíðar, efla nýsköpun, tækni sem styrkir atvinnulífið um allt land, en því miður þá þola þær greinar illa sveiflur krónunnar og því felast miklir hagsmunir fyrir Íslendinga í fullri þátttöku í Evrópusambandinu með stöðugri gjaldmiðli. Þar fara saman hagsmunir almennings og atvinnulífs. Við þurfum með öðrum orðum ríkisstjórn sem tekur almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni og óttast ekki alþjóðlega samvinnu í síbreytilegum heimi.

En kæru landsmenn. Þótt efnahagslífið krefjist auðvitað allrar okkar athygli þá er það mín bjargfasta trú að ábyrgir stjórnmálaflokkar megi ekki hunsa margvíslegar áskoranir sem mannkynið stendur andspænis í mannréttindamálum, hvort heldur þegar kemur að fátækt, misskiptingu, stöðu hinsegin fólks eða annarra í viðkvæmri stöðu, svo ekki sé minnst á milljónir fólks á flótta undan hörmulegum aðstæðum. Þetta er verkefni sem er sameiginlegt öllum ríkjum heims. Þetta er allra stjórnmálaflokka, allra manna. Flokkar sem ekki grundvalla stefnu sína á mennsku og samhjálp hafa einfaldlega engin svör í þeim aðstæðum sem mannkynið stendur nú frammi fyrir. Ég mun beita mér áfram fyrir því að þar liggi meginþráður Samfylkingarinnar þó að bráðlega muni ég gera það úr öðrum stól en áður.