Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þó að þetta hafi verið upplýsandi svar á sinn hátt þá svarar það samt ekki spurningunni um hvernig þessi endalausi vöxtur geti haldið áfram, jafnvel eftir alla þá viðbót sem fór í sérstaka ástandið á Covid-tímanum, sem ríkisstjórnin vel að merkja ítrekaði að væri til skamms tíma og svo færum við í að bregðast við því, bæta fyrir það og greiða niður skuldir. Það er ekki að sjá, það er bara búið að búa til nýtt gólf. Í hvert skipti sem verða einhverjir atburðir sem auka útgjöld ríkissjóðs þá er ekkert aftur snúið að því er virðist, a.m.k. ekki hjá þessari ríkisstjórn. En hæstv. ráðherra nefndi það, sem er vissulega rétt, að stór hluti af þessu eru útgjöld vegna launa og það er tilefni í sérstaka umræðu. Við ættum t.d. að velta því fyrir okkur hvort hið opinbera kerfi hæstv. ráðherra er farið að þrengja að öðrum vinnumarkaði, almenna vinnumarkaðnum, með því að taka til sín of mikið af starfsfólki og jafnvel að keppa við það í launum og rúmlega það.

En í seinni spurningunni í þessari umferð ætlaði ég að spyrja hæstv. ráðherra út frá því sem ég nefndi hér fyrr, um þessi sívaxandi útgjöld: Hvernig stendur á því að jafnvel við þær aðstæður þar sem ríkisstjórnin heldur áfram að eyða peningum eins og hér væri neyðarástand á heimsvísu, er samt ráðist í það á verðbólgutímum að hækka gjöld á fólk á hinum ýmsu sviðum, ekki síst á sviði samgangna og eldsneytis? Víða annars staðar hafa menn verið að ræða um að það þurfi sérstaklega að lækka þau, koma til móts við fólk vegna hinna miklu eldsneytisverðshækkana því að eldsneytisverð hefur mjög hratt áhrif út í allt annað, flutninga, framleiðslu o.s.frv. Hvernig fer þetta saman, hæstv. fjármálaráðherra, að halda áfram að eyða eins og það sé neyðarástand en ætla samt að skattleggja fólk sem ætti að koma til móts við í neyðarástandi (Forseti hringir.) eins og þeirri verðbólgu sem við stöndum frammi fyrir?