Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú til ýmislegt útgefið efni um þann samanburð á fjármagnstekjuskattinum. Ég held að það megi alveg færa það inn í umræðuna að við erum að tala um skatt sem hefur áhrif á viljann til að fjárfesta og taka áhættu og það skiptir máli að við séum með hagfellt umhverfi fyrir áhættutöku og fjárfestingar. Það hefur veruleg áhrif á það hvernig lífskjör í landinu munu þróast til lengri tíma. Ég bendi einfaldlega á það að fjármagnstekjuskatturinn hefur verið meira en tvöfaldaður og við hækkuðum hann um 2 prósentustig á síðasta kjörtímabili, það finnst mér hafa vantað inn í umræðuna. Ég er ósammála því að ríkið sé að nota eignarhald sitt á fjármálafyrirtækjum og einokunarstöðu sem hv. þingmaður vill að sé hérna í reynd — ég kalla það nú bara fákeppni — til að okra á fólki. Ég bendi bara á afkomu Landsbankans sem er langt undir því sem við gerum kröfu um í okkar eigendastefnu, arðsemiskrafan sem gerð er á Landsbankann. Síðasta uppgjör var undir arðsemiskröfunni.

Veiðigjöldin — það er stór umræða. Ég hef bara bent á það að matvælaráðherra er með mikla vinnu í gangi til að fara einu sinni enn ofan í saumana á því. Við hækkuðum síðast á uppsjávarveiðarnar. Við munum fá aukningu í veiðigjöldum eftir því sem afkoman er betri í veiðunum vegna þess að við erum að taka til okkar eftir því hver afkoman er. Þannig mun t.d. mjög gott ár í fyrra, þegar upp er staðið, skila sér í hærri veiðigjöldum. Þar þurfum við líka að gæta þess að finna jafnvægi á milli þess að taka sanngjarnan hlut, sem mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að gera, og taka ekki of mikið, sem dregur úr t.d. viljanum til fjárfestinga. Ef það gerist þá mun það seinka orkuskiptum í veiði, svo dæmi sé tekið.