Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við erum á réttri leið, það eru stóru tíðindin í nýju fjárlögunum. Við sjáum það í frumvarpinu að við erum að stíga upp úr öldudal. Í baksýn eru þessi erfiðu ár sem hafa reynt á þol og þrautseigju okkar allra. Halli ríkissjóðs fer minnkandi eftir því sem dregur úr stuðningsaðgerðum vegna heimsfaraldursins. Staða heimilanna hefur styrkst í takti við hækkun heildartekna allra tekjuhópa. Til að verja kaupmáttaraukningu og afkomu heimilanna er mikilvægt að við höldum áfram að berjast gegn verðbólgunni en aðgerðir þar að lútandi voru settar á dagskrá strax í sumar og boðar frumvarpið áframhaldandi aðgerðir í því tilliti eins og fjármálaráðherra fór yfir í ræðu sinni.

Atvinna er lykilþáttur í jákvæðri efnahagsþróun, bæði fyrir heimilin í landinu sem og ríkissjóð. Það er því mikið fagnaðarefni að atvinnuleysi er sögulega lágt sem styrkir svo um munar ýmsa skattstofna sem létu á sjá í efnahagshremmingum síðustu ára. Aukin atvinna og útflutningstekjur hafa haldist í hendur við stórfjölgun ferðamanna og hefur ferðaþjónustan heldur betur tekið við sér, miklu fyrr en búist var við. Það er fagnaðarefni. Þá hafa tekjur vegna annarra útflutningsgreina sömuleiðis aukist. Þær hækkanir eru í takti við hækkandi heimsmarkaðsverð á matvælum, ekki síst sjávarafurðum, sem kemur að einhverju leyti til, því miður, sem afleiddur stríðsgróði vegna ólögmætrar innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu eins og hér hefur verið rakið.

Ég vil segja í þessu samhengi öllu, og þess sem hér hefur verið rætt, að það er mín skoðun að tilefni sé til aukinna framlaga stórútgerðarinnar og fiskeldis til tekjuhliðar ríkissjóðs, ekki síst núna þegar greinarnar skila meiri fjármunum í arð til eigenda sinna en til þjóðarinnar. Það er hluti af vinnu nefndar sem ég sit meðal annarra í og matvælaráðherra hefur sett á laggirnar en hún fundar þétt næstu vikurnar. Það er öllum í hag að treysta sýnilega hlutdeild þjóðarinnar í auðlindinni og það eykur líka traust til rekstraraðila.

Forseti. Í fjárlagafrumvarpi þessu er boðuð hækkun gjalda vegna rafbíla. Það er eðlilegt, þar sem flotinn stækkar og tækninni vindur fram og ökutækjum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti fækkar, að þeir tekjuliðir sem voru þar undir hafi veikst. Það hefur gengið vel að innleiða rafbíla í íslenska bílaflotann. Hækkunin kemur ekki síst til vegna þess að tekjur ríkissjóðs vegna bifreiða hafa hrunið, eins og ég sagði, miðað við það sem var á árum áður, á sama tíma og umferð er að aukast á landsvísu. Það þýðir þó ekki að við séum búin að vinna fullnaðarsigur yfir loftslagsvánni, þrátt fyrir þessar aðgerðir. Ég er ekki jafn sannfærð um og heyrst hefur í umræðunni að nýskráningar á rafbílum muni minnka vegna þessa og að endursölumarkaðurinn verði þyngri en ella. Eins og hefur komið fram hjá fjármálaráðherra verður hugað að mótvægisaðgerðum þegar ívilnanir falla niður. Það er í raun athyglisvert að á þessu ári hafa verið fluttir inn fleiri dísilbílar en rafmagnsbílar þrátt fyrir þær ívilnanir sem í gangi eru.

Virðulegur forseti. Verðbólga hefur vaxið og hér eftir sem hingað til er ærið verkefni að takast á við hana. Það er ekki síst mikilvægt fyrir heimilin í ljósi þeirra áhrifa sem hún kann að hafa á húsnæðisliðinn. Þrátt fyrir að verðbólga á Íslandi sé með lægra móti en gerist í Evrópu um þessar mundir hefur hún umtalsvert meiri áhrif á húsnæði hér á landi en víða annars staðar, eins og við öll þekkjum. Eins og ég sagði áðan var strax í sumar ráðist í aðgerðir til að stemma stigu við vaxandi verðbólgu með hækkun húsnæðis- og barnabóta og til að verja viðkvæma hópa fyrir áhrifum hennar. Það er mikilvægt að vanda til verka og ná tökum á verðbólgunni og til þess verðum við að halda að okkur höndum í framkvæmdum, beita ríkissjóði til handa þeim sem minnst mega sín og verja þannig þann kaupmáttarvöxt sem síðustu ár hafa skilað okkur — það nýtist okkur öllum óháð starfi og stétt — kaupmáttarvöxt sem m.a. má rekja til sanngjarnara skattkerfis sem best gagnast þeim tekjulágu.

Lágt vaxtastig síðustu ára, tekjuaukning og fjölgun íbúa er út af fyrir sig allt fagnaðarefni. Við verðum þó að muna að þetta eru allt þættir sem ýtt hafa undir hækkun íbúðaverðs. Hærra verð fasteigna þýðir að eignastaða heimilanna er sannarlega betri en nokkru sinni fyrr en eins og við þekkjum er sá galli á gjöf Njarðar að hátt húsnæðisverð er áhyggjuefni fyrir þau sem eru að reyna að kaupa sína fyrstu eign. Þrátt fyrir það hefur hlutfall þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð haldist nokkuð stöðugt síðustu ár og kom fram á fundi okkar í fjárlaganefnd í gær að þrátt fyrir þessa erfiðu stöðu, þrátt fyrir að vextir hafi farið hækkandi, voru auðvitað margir sem gátu nýtt sér það og komust úr mjög dýru leiguhúsnæði í eigið húsnæði.

Á þessum þversögnum öllum má sjá að það er í mörg horn að líta en það er líka margt sem við höfum í farteskinu. Það eru að störfum, eins og komið hefur fram, og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu, starfshópar um húsnæðisstuðning og er niðurstaðna að vænta fljótlega. Þær niðurstöður verða komnar fyrir lok 2. umr. okkar í fjárlaganefnd um fjárlögin. Þá munu niðurstöður hópsins hjálpa okkur að skilja umfang þeirra vandamála sem steðja að húsnæðiskerfinu, hvar og hvernig sá vandi er. Þá er einnig vert að benda á að Alþingi samþykkti nýverið að nýta megi tilgreinda séreign til að greiða inn á húsnæðislán. Það kemur til með að jafna að einhverju leyti stöðu þeirra sem hafa lægri tekjur og hafa hingað til ekki getað nýtt sér séreignarsparnað til innborgunar á húsnæðislánum. Til viðbótar er víkkað út húsnæðisúrræði til þeirra sem ekki hafa átt húsnæði í fimm ár og þeim gert kleift að nýta úrræði fyrstu kaupenda.

Þrátt fyrir að salan á Íslandsbanka sé umdeild og við bíðum enn eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar og Seðlabanka Íslands verður ekki fram hjá því litið að söluandvirðið stendur undir allri fjárfestingu í þessum fjárlögum enda um að ræða rúma 100 milljarða sem talið er að eftir sitji. Þarna erum við að tala um framkvæmdir eins og Landspítalann og hjúkrunarheimili, vegaframkvæmdir, uppbyggingu stafrænna innviða o.s.frv. En eins og hér hefur verið rakið hefur það komið fram að við bíðum auðvitað þessarar niðurstöðu til að ákveða framhaldið. Eins og svo oft áður er mestu fjármagni varið til heilbrigðismála þrátt fyrir að ráðstöfunum vegna heimsfaraldursins sé hætt og enn fremur þrátt fyrir háværa umræðu um þessa 4 milljarða aðhaldskröfu, og ég ætla að taka undir það að framsetningin í fjárlagafrumvarpinu er ekki nægilega skýr.

Framlögin til heilbrigðismála í þessu góða frumvarpi hækka um tæpa 4 milljarða kr. að raunvirði frá fjárlögum fyrra árs og er niðurstaðan, með leyfi forseta, í takti við það sem stjórnendur spítalans bjuggust við og í takti við rekstur spítalans eins og hann er í dag, sagði Runólfur Pálsson forstjóri. Í frumvarpinu er sérstaklega horft til lægri greiðsluþátttöku sjúklinga og bættrar geðheilbrigðisþjónustu með auknum framlögum til málaflokksins. Þetta tel ég mikilvægt ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem konur eru í en notkun þunglyndislyfja og kvíðastillandi lyfja er meiri en meðal karla og trúi ég því að bætt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu muni skipta sköpum í því efni.

Virðulegur forseti. Í frumvarpinu breytast útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingamála mest frá síðustu fjárlögum. Sú breyting nemur um 6 milljörðum kr. Þar fer tæplega helmingur í Fæðingarorlofssjóð, 2,6 milljarðar, en sú aukning kemur til vegna þeirrar góðu ákvörðunar og vegna bættrar nýtingar á fæðingarorlofsrétti. En það er, eins og við vitum, mikið jafnréttismál, ekki síst í ljósi þess að feður hafa síður verið að nýta orlofsrétt sinn jafnvel eftir lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði. Þetta eru vonandi teikn um breytta tíma, að fleiri feður séu að nýta sér fullan fæðingarorlofsrétt.

Af öðrum jafnréttismálum vil ég minnast á breytingar á fjárheimildum til Samtakanna ´78 sem eru samkvæmt frumvarpinu viðbót upp á 25 milljónir sem hafa verið veittar í gegnum fjárlaganefnd í fjöldamörg ár. Það er viðbót við 15 millj. kr. samning sem forsætisráðuneytið hefur gert. Svo er það hin hækkunin, 9% hækkun á örorkulífeyri sem hér hefur verið rædd en sú hækkun mun að sjálfsögðu skila sér í bættum hag þeirra.

Virðulegi forseti. Þetta fjárlagafrumvarp tekur að sjálfsögðu mið af þeim efnahagslegu áskorunum sem við höfum staðið frammi fyrir á síðustu árum. Það er ekki allt leyst, langur vegur frá því, í þessu fjárlagafrumvarpi. En við þurfum að hægja aðeins á í fjárfestingum. Þrátt fyrir það er full ástæða til að horfa björtum augum fram á veginn. Efni frumvarpsins, minnkandi halli ríkissjóðs og breyttar atvinnuhorfur gefa fullt tilefni til þess, enda hefur hagkerfið tekið hraðar við sér, eins og ég sagði áðan, en björtustu sviðsmyndir sýndu við upphaf að gerð fjárlagafrumvarps yfirstandandi árs. Næstu vikurnar er fram undan vinna okkar í fjárlaganefnd þar sem við förum yfir frumvarpið með gestum og rýnum það. Ég vonast svo sannarlega eftir góðu samstarfi við alla nefndarmenn.