Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:43]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur verið athyglisvert að hlusta á talsmann ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum í dag, talsmann ríkisstjórnarinnar í efnahags- og skattamálum. Hann hefur talað mjög skýrt um hugmyndafræði þessarar ríkisstjórnar. Þegar við í Samfylkingunni köllum eftir breyttri forgangsröðun, að breiðu bökin taki á sig aðhaldið frekar en lágtekju- og millitekjufólk, þá talar fjármálaráðherra um öfund gagnvart þeim sem gengur vel. Öfund. Þegar við köllum eftir varðstöðu um velferðarþjónustuna þá talar fjármálaráðherra um stjórnlyndi, að við viljum eyða annarra manna peningum, svona eins og 13 ára unglingur sem var að lesa bók eftir Ayn Rand.

Spurning mín til hv. þingmanns Vinstri grænna er bara þessi: Hvert er eiginlega erindi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í efnahags- og skattamálum í þessari ríkisstjórn? Hvert er erindið? Hvernig birtist það erindi í þessum fjárlögum?