Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:49]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir hennar ræðu og þessa umræðu að sjálfsögðu um fjárlögin. Það hefur aðeins verið komið inn á veiðigjöldin og mig langar að fara svolítið inn í þá umræðu af því að menn eru svolítið að teygja sig þangað, ríkisstjórnarflokkarnir, sérstaklega eru tveir þeirra farnir að tala um að það sé hægt að sækja peninga í þann gróða og þann hagnað sem þar verður til. Það er svo áhugavert að þeir eru hver með sína stefnuna. Sjálfstæðisflokkurinn vill engu breyta. Framsóknarflokkurinn vill gera einhvers konar breytingar en helst ekki á veiðigjöldunum, frekar með einhverri almennri skattlagningu sem ekki hefur verið útfærð með neinum hætti. Þingmenn VG vísa síðan ítrekað í þá nefnd sem núna er að störfum. Mig langar að spyrja hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur hvar og hvernig væri hægt að haga þessari gjaldtöku og hvort hún sé sammála því að ef við erum á annað borð með veiðigjöld þá þurfi að vera mjög skýrt að fyrirtækin greiði þar sanngjarnt gjald, en að við sækjum ekki arðinn af auðlindinni með því að veikja veiðigjaldsstofninn og fela það inni í hinni almennu skattheimtu eins og til að mynda Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir. (Forseti hringir.) Þótt ég viti að nefndin er enn að störfum og eitthvað eigi eftir að koma út úr því, (Forseti hringir.) þá væri samt ágætt að heyra hugleiðingar hv. þingmanns um þetta.