Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:03]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið sem var kannski ekki alveg eins nákvæmt og ég óskaði eftir. En það liggur alveg fyrir varðandi rafbílana að þátttaka ríkisins í orkuskiptum er ekki með fullum þunga. Það virðist vera að íslenska ríkið ætli að vera með álögur á rafbílana en það ætti að vera drifkrafturinn í orkuskiptunum. Auðvitað kosta orkuskiptin sitt í ákveðinn tíma þegar verið er að koma þeim á. Þegar búið er að koma orkuskiptunum á þá á að taka stighækkandi skatta, væntanlega varðandi kílómetragjald.

Mig langar að koma að jafnréttismálunum, það var minnst á þau og eins fæðingarorlof, sem er mjög mikilvægur þáttur. Ég tel að hjón eigi að sjálfsögðu að stjórna því sjálf, eða sambýlisfólk, hvernig það er. Hv. þingmaður minntist líka á Samtökin '78 sem fá 25 milljónir. Þegar ég hlustaði á þetta — og þessi ágætu samtök standa fyrir mjög skemmtilegum degi, Reykjavík Pride, og eru mjög sýnileg í umræðunni. En það eru líka aðrir hópar í samfélaginu sem ekki hafa notið jafnréttis, sem eru ekki sýnilegir, hafa ekki sinn eigin dag. Það er enginn blindradagur (Forseti hringir.) eða annað slíkt. Væri ekki rétt að íslenska ríkið styrkti líka Blindrafélagið, Öryrkjabandalagið og Geðhjálp og önnur samtök öryrkja til að þau geti barist fyrir sínum jafnréttismálum? (Forseti hringir.) Ég get ekki séð að þessi jafnréttismál komi fram í fjárlögum.