Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:57]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo merkilegt með Sjálfstæðisflokkinn að stundum er eins og hann sé haldinn alveg ótrúlegu blæti gagnvart gjöldum og gjaldahækkunum, svo lengi sem gjöldin leggjast ekki á þá tekjuhæstu og eignamestu í íslensku samfélagi. Hér ræðum við fjárlagafrumvarp og ég var að lesa um það að Sigríður Andersen væri með böggum hildar yfir þessu frumvarpi. Hér sjáum við að kolefnis- og eldsneytisgjöld hækka um 7,7%, bifreiðagjöld hækka um 7,7% og kílómetragjöld. Þarna er verið að kroppa þó nokkra milljarða af almenningi. Allt lekur þetta auðvitað út í vísitölu neysluverðs, hefur áhrif á lánin hjá heimilunum. Við vitum það öll og ég held að það reyni enginn að mæla móti því að svona flatir neysluskattar leggjast þyngst á tekjulægstu hópana, þeir lenda hlutfallslega þyngst á það fólk sem ver hæstu hlutfalli tekna sinna til neyslu. Þannig er það bara.

En ég er forvitinn að heyra hvernig hv. þm. Haraldur Benediktsson telur að þessi aukna gjaldtaka, m.a. af eldsneyti, muni dreifast um landið. Hvernig munu byrðarnar lenda með tilliti til búsetu? Er ekki algerlega ljóst að hér er verið að skrúfa upp landsbyggðargjöld, landsbyggðarskatta? Það sé verið að láta fólkið í hinum dreifðari byggðum borga brúsann og taka á sig aðhaldið sem felst í þessu frumvarpi. Hvað finnst hv. þingmanni um þessa forgangsröðun í skattamálum sem birtist í frumvarpinu?