Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:11]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara taka undir með hv. þingmanni. Ég heyri að við erum ekkert í grundvallaratriðum ósammála um það hvernig við tökumst á við það að komast upp úr holunni eins og hann nefndi. Það er fyrst og fremst með verðmætasköpun. Hvaða tón eða hvaða áherslur við sláum í þeim efnum getum við síðan deilt um. Ég vil aftur á móti ekki, og ég var að reyna að segja það í minni ræðu, nota gildishlaðin orð, en mér finnst bara ótrúlega góður árangur hafa náðst á stuttum tíma. Um leið og ég segi það þá hef ég líka ákveðnar áhyggjur vegna verðbólgunnar, sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni, sem er hluti af vanda okkar í dag og þess vegna var breytingin á fjármálaáætlun í vor hugsuð til að reyna að vinna gegn henni með þeim hætti og ég held að fyrstu merkin um það séu farin að sjást — áhyggjur mínar snúa að því hvernig efnahagsframvindan er í löndum í kringum okkur því að við erum gríðarlega háð henni. Kaupmáttur þar getur ráðið mjög miklu um hvernig okkur gengur, hvort sem við horfum til sölu afurða sem við framleiðum eða með komum ferðamanna. Kaldur vetur, hátt orkuverð í Evrópu, getur bitnað á okkur með þeim hætti að minni eftirspurn verði eftir ferðum hingað til lands og minni eftirspurn eftir vörum sem við framleiðum. En hv. þingmaður spurði heiðarlega hvernig við nákvæmlega ætlum að komast upp úr þessu. Ég var að reyna að lýsa því með þessum tveimur atriðum sem ég nefndi. Við getum nefnt fleiri. Hv. þingmaður vitnar í að þeir hafi akkúrat hitt á töluna um framlög til nýsköpunar en við sjáum í það minnsta, hv. þingmaður, að fjármunirnir sem við létum renna til þessa, og eru í þessu fjárlagafrumvarpi rúmir 11 milljarðar kr., hafa sannarlega hitt í mark og eru farnir að búa til mikil verðmæti og ég bind áfram vonir við það.